Vestur

Vestur er ein af höfuðáttunum fjórum. Vestur er andspænis austri og er á áttavita táknuð með 270°, á venjulegu korti er vestur til vinstri. Stefnuásinn austur-vestur er hornréttur á stefnuásinn norður-suður.

Compass Card
Vestur er merkt „W“ á þessum áttavita
.eh

.eh er þjóðarlén Vestur Sahara.

Austur-Húnavatnssýsla

Austur-Húnavatnssýsla var ein af sýslum Íslands. Sýslur eru ekki lengur stjórnsýslueining á Íslandi, en nafnið er enn notað til að vísa til svæðisins.

Austur-Húnavatnssýsla er á Norðurlandi, milli Vestur-Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu en þar að auki á hún mörk að Mýrasýslu og Árnessýslu. Sýslan liggur fyrir botni Húnaflóa og er alls um 4920 km². Tveir þéttbýlisstaðir eru í sýslunni; Blönduós og Skagaströnd. Sýslunnar var fyrst getið, svo vitað sé, árið 1552. Saman eru sýslurnar, Austur- og Vestur-Húnavatnssýsla, oft nefndar Húnaþing.

Barrtré

Barrtré eru plöntur af ætt berfrævinga (Pinophyta). Flest eru þau sígræn.

Barrskógabeltið eða taiga á erlendum málum, þekur stórt svæði á norðurhveli jarðar, aðallega í Rússlandi og Kanada.

Tiltölulega fáar tegundir trjágróðurs þekja mikil svæði í norðlægum barrskógum. Þær eru af fjórum meginættkvíslum; lerki (Larix), greni (Picea), þinur (Abies) og fura (Pinus). Í Norður-Ameríku eru tvær tegundir af þin og tvær tegundir af greni ríkjandi en í Skandinavíu og vestur Rússlandi er skógarfuran (Pinus sylvestris) afar útbreidd.

Stærsta tré í heimi, fjallarauðviðurinn (Sequoiadendron giganteum, áður þekkt sem risafura) er barrtré og einnig það hæsta; strandrauðviður (Sequoia sempervivens).

Dalasýsla

Dalasýsla var ein af sýslum Íslands. Sýslur eru ekki lengur stjórnsýslueining á Íslandi, en nafnið er enn notað til að vísa til svæðisins.

Dalasýsla er fyrir botni Breiðafjarðar og deilir mörkum með Strandasýslu, Austur-Barðastrandarsýslu, Snæfellsnessýslu og Mýrasýslu.

Evrópa

Fyrir aðrar merkingar má sjá aðgreiningarsíðuna.

Evrópa eða Norðurálfa er ein af sjö heimsálfum jarðarinnar. Frekar mætti kannski kalla álfuna menningarsvæði heldur en ákveðna staðháttafræðilega heild, sem leiðir til ágreinings um landamæri hennar. Evrópa er, sem heimsálfa, á miklum skaga vestur úr Asíu (Evrópuskaganum) og myndar með henni Evrasíu.

Landamæri Evrópu eru náttúruleg að mestu leyti. Þau liggja um Norður-Íshaf í norðri, Atlantshaf í vestri (að Íslandi meðtöldu), um Miðjarðarhaf, Dardanellasund og Bospórussund í suðri og eru svo yfirleitt talin liggja um Úralfjöll í austri. Flestir telja Kákasusfjöll einnig afmarka Evrópu í suðri og Kaspíahaf í suðaustri.

Evrópa er næstminnsta heimsálfan að flatarmáli, en hún er um 10.180.000 ferkílómetrar eða 2,0 % af yfirborði jarðarinnar. Hvað varðar íbúafjölda er Evrópa þriðja fjölmennasta heimsálfan, á eftir Asíu og Afríku. Í henni búa fleiri en 740.000.000 manna (2011). Það eru 12 % af íbúafjölda heimsins.

Evrópusambandið (ESB) er stærsta stjórnmálalega og efnahagslega eining álfunnar en því tilheyra 27 aðildarríki. Næststærsta einingin er Rússland.

Frakkland

Frakkland eða Lýðveldið Frakkland, (franska République française eða France) er land í Vestur-Evrópu sem nær frá Miðjarðarhafi í suðri að Ermarsundi í norðri og frá Rín í austri að Atlantshafi í vestri. Vegna lögunar landsins gengur það oft undir heitinu „sexhyrningurinn“ (fr. Hexagone) hjá Frökkum sjálfum. Í Evrópu á Frakkland landamæri að Belgíu, Lúxemborg, Þýskalandi, Sviss, Ítalíu, Mónakó, Spáni og Andorra, en handanhafssýslur þess í öðrum heimsálfum eiga landamæri að Brasilíu, Súrínam og Hollensku Antillaeyjum. Landið tengist Bretlandseyjum gegnum Ermarsundsgöngin.

Frakkland er meðal aðildarríkja Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins og á fast sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Gíneuflói

Gíneuflói er gríðarmikill flói þar sem vesturströnd Afríku mætir Suður-Atlantshafinu. Strandlengjan við flóann nær frá Harper í Líberíu að Port-Gentil í Gabon. Suðurströnd Vestur-Afríku norðvestan við flóann var áður kölluð Efri Gínea og ströndin norðaustan við flóann Neðri Gínea.

Nafnið Gínea er það heiti sem berbar gáfu svæðinu sunnan Sahara og þýðir „svertingjaland“. Það lifir í nöfnum Afríkulandanna þriggja, Gíneu, Miðbaugs-Gíneu og Gíneu-Bissá, auk Nýju Gíneu í Suðaustur-Asíu.

Í flóanum eru Benínflói og Bíafraflói.

Nígerfljót, Volta og Kongófljót renna í Gíneuflóa.

Karíbahaf

Karíbahaf , Karabíska (??) hafið eða Vestur-Indíur er haf sem afmarkað er af norðurströnd Suður-Ameríku, Atlantshafinu, Litlu-Antillaeyjum, Stóru-Antillaeyjum, Mexíkóflóa og Mið-Ameríku.

Flatarmál þess er um 2.754.000 km², dýpsti punktur þess er Kaímangjáin milli Kúbu og Jamaíku sem er 7.500 m undir sjávarmáli. Í því eru ekki færri en 7000 eyjar og hafinu er skipt í 25 yfirráðasvæði sem ýmist eru sjálfstæð ríki eða hlutar annarra ríkja.

Malasía

Malasía er land í Suðaustur-Asíu. Það skiptist milli tveggja landsvæða; Vestur-Malasíu á Malakkaskaga og Austur-Malasíu á eyjunni Borneó, með Suður-Kínahaf á milli. Vestur-Malasía á landamæri að Taílandi í norðri, og mjótt sund skilur það frá Singapúr í suðri. Austur-Malasía á landamæri að Brúnei í norðri og Indónesíu í suðri. Höfuðborg Malasíu er Kúala Lúmpúr en stjórnarsetrið er í Putrajaya. Árið 2010 var íbúafjöldi Malasíu 28,33 milljónir og þar af bjuggu 22,6 milljónir í vesturhlutanum. Höfðinn Tanjung Piai á suðurodda Vestur-Malasíu er syðsti punktur meginlands Asíu.

Uppruna Malasíu má rekja til hinna ýmsu ríkja malaja á Malakkaskaga sem lentu á áhrifasvæði Breska heimsveldisins á 18. öld. Skiptingin milli Malasíu og Indónesíu var ákveðin í samningum milli Bretlands og Hollands í kjölfar Napóleonsstyrjaldanna. Ríkin á Malakkaskaga mynduðu síðan Malajabandalagið árið 1946 sem breyttist í Sambandsríkið Malaja árið 1948. Þetta ríki fékk sjálfstæði frá Bretlandi árið 1957. Þetta ríki sameinaðist Norður-Borneó, Sarawak og Singapúr árið 1963 og bætti því sí við nafnið sem varð Malasía. Tveimur árum síðar var Singapúr rekið úr sambandinu.

Malasía er fjölmenningarríki sem hefur mikil áhrif á stjórnmál landsins. Opinber trúarbrögð Malasíu eru íslam en 20% íbúa aðhyllast búddisma, 9% kristni og 6% hindúatrú. Stjórnarfar í Malasíu er þingbundin konungsstjórn þar sem einn af fimm hefðbundnum einvöldum landsins er kjörinn konungur á fimm ára fresti. Stjórnkerfið byggist á breskri fyrirmynd.

Malasía er eitt af þeim löndum Asíu sem býr við hvað mesta efnahagslega velsæld. Hagvöxtur hefur verið 6,5% að meðaltali í hálfa öld. Efnahagslífið er drifið áfram af miklum náttúruauðlindum en hefur þróast yfir í fleiri geira. Malasía býr við nýiðnvætt markaðshagkerfi sem er það þriðja stærsta í Asíu og 29. stærsta í heimi. Malasía var stofnaðili að Sambandi Suðaustur-Asíuríkja, Leiðtogafundar Austur-Asíu, Stofnun um íslamska samvinnu, Efnahagssamvinnustofnun Asíu- og Kyrrahafslanda, Breska samveldinu og Samtökum hlutlausra ríkja.

Marokkó

Marokkó (arabíska المغرب‎ al-Maġrib; berbíska ⵍⵎⴰⵖⵔⵉⴱ Lmaġrib, franska Maroc) er konungsríki í Norður-Afríku með strandlengju meðfram Atlantshafi í vestri og Miðjarðarhafi í norðri. Landamæri liggja að Vestur-Sahara í suðri, og Alsír í austri, en landamærin að Alsír eru lokuð vegna átaka um yfirráð yfir Vestur-Sahara. Arabískt nafn landsins merkir „vesturríkið“ eða „vestrið“, en Maghreb er líka heiti á norðvesturhluta Afríku.

Marokkó gerir tilkall til landsvæðisins Vestur-Sahara sem hefur verið undir marokkóskri stjórn að meira eða minna leyti síðan 1975, en þau yfirráð hafa ekki verið viðurkennd af alþjóðasamfélaginu. Sé Vestur-Sahara talin til Marokkó, eru ennfremur landamæri við Máritaníu til suðausturs, en annars liggja Marokkó og Máritanía ekki saman.

Spænsku útlendurnar Ceuta og Melilla eru á strönd Marokkó sem gerir tilkall til þeirra, auk eyjunnar Perejil sem er aðeins 200 metra frá strönd Marokkó í Gíbraltarsundi. Undan vesturströnd Marokkó eru hinar spænsku Kanaríeyjar en landhelgismörkin milli Marokkó og eyjanna eru líka umdeild.

Í Marokkó ríkir þingbundin konungsstjórn þar sem marokkóska þingið er þjóðkjörið en konungur Marokkó hefur mikil völd, sérstaklega í málefnum hersins, utanríkismálum og trúmálum. Konungur getur gefið út konunglegar tilskipanir sem hafa lagagildi og leyst þingið upp.

Mið-Evrópa

Mið-Evrópa er hluti Evrópu sem liggur á milli Austur-Evrópu og Vestur-Evrópu. Hugtakið hefur verið skilgreint á ýmsan hátt í gegnum tíðina þar sem það er ekki skýrt landfræðilega afmarkað. Almennt telst þetta svæði telja löndin Pólland, Tékkland, Slóvakíu, Ungverjaland, Rúmeníu og Slóveníu. Eftir fall Járntjaldsins hefur færst í vöxt að telja Alpalöndin, Þýskaland, Sviss, Austurríki og Liechtenstein, til Mið-Evrópu, fremur en Vestur-Evrópu. Stundum eru Balkanlöndin Króatía, Bosnía-Hersegóvína, Svartfjallaland,Serbía , Búlgaría, Albanía og Lýðveldið Makedónía talin til Mið-Evrópu en það er þó sjaldgæft.

Hugmyndin um Mið-Evrópu byggir einkum á sameiginlegri sögu svæðisins, í andstöðu við austrið: Tyrkjaveldi og Rússneska keisaradæmið. Allt til Fyrri heimsstyrjaldarinnar voru þessi lönd einnig í andstöðu við vestrið vegna íhaldssemi og andstöðu við frjálslyndishugmyndir í stjórnmálum. Fyrst eftir Seinni heimsstyrjöld náðu lýðræðishugmyndir yfirhöndinni í Þýskalandi og Austurríki, en á þeim sama tíma féll hugmyndin um Mið-Evrópu algerlega í skuggann af skiptingunni í Austur- og Vestur-Evrópu, eftir því hvort löndin voru á áhrifasvæði Sovétríkjanna eða ekki.

Stundum er sagt að Mið-Evrópa sé það sem Austur-Evrópubúar líti á sem Vestur-Evrópu, og Vestur-Evrópubúar líti á sem Austur-Evrópu.

Noregur

Noregur er land á Skandinavíuskaganum í Norður-Evrópu, á landamæri að Svíþjóð, Finnlandi og Rússlandi og er eitt Norðurlandanna. Í Noregi búa rúmlega 5 milljónir. Höfuðborg landsins er Ósló. Tungumál Norðmanna er norska (sem hefur tvenns konar opinbert ritmál, bókmál og nýnorsku), ásamt samískum tungumálum. Norskt talmál einkennist af miklum mállýskumun. Að nota mállýsku í venjulegu talmáli er jafn algengt hjá þeim sem rita bókmál eins og þeim sem nota nýnorsku sem ritmál. Noregur var sagður friðsælasta land í heimi, árið 2007 samkvæmt Global Peace Index.

Suðvestur-Asía

Suðvestur-Asía er heiti á suðvesturhluta Asíu og nær yfir Mið-Austurlönd meðal annars. Reynt hefur verið að taka hugtakið í notkun í staðinn fyrir heitið „Mið-Austurlönd“ þar sem það þykir of Evrópumiðað, en eins og er eru hugtökin ekki samheiti. Vestur-Asía er almennt notað yfir þetta svæði þegar talað er um fornleifar og sögu þess.

Eftirtalin lönd eru almennt talin hluti af Suðvestur-Asíu:

Armenía

Aserbaídsjan

Barein

Egyptaland

Georgía

Heimastjórnarsvæði Palestínumanna

Íran

Írak

Ísrael

Jemen

Jórdanía

Katar

Kúveit

Kýpur

Líbanon

Óman

Sameinuðu arabísku furstadæmin

Sádí-Arabía

Sýrland

Tyrkland (Anatólíuhlutinn)Anatólía, Arabía, Austurlönd nær og Mesópótamía eru allt hlutar Suðvestur-Asíu.

UTC

Máltími (einnig UTC eða samræmdur alþjóðlegur tími) er tímakvarði sem er eins og GMT að öðru leyti en því að UTC byggir á tímamælingu með atómklukku, þar sem GMT á hinn bóginn reiknar tímann með stjarnfræðilegum hætti. Þegar nauðsyn krefur er skotið inn aukasekúndu(m) í lok mánaðar og verður klukkan þá 23:59:60 (og áfram ef þörf krefur) áður en hún verður 00:00:00. Slíkri aukasekúndu var síðast bætt inn 30. júní 2012. Þessi leiðrétting stafar af því að snúningur jarðar verður í sífellu hægari og lengjast því GMT-sekúndur stöðugt, en atómklukkusekúndur eru óbreytilegar.

Skammstöfunin UTC er alþjóðleg og var hugsuð sem málamiðlun á milli frönsku (Temps universel coordonné, TUC) og ensku (Coordinated Universal Time, CUT).

Tímabelti jarðar eru skilgreind sem jákvæð (austur) og neikvæð (vestur) hliðrun frá UTC.

Vestur-Afríka

Vestur-Afríka er hluti Afríku sem markast af Suður-Atlantshafi, eða öllu heldur Gíneuflóa, í suðri og vestri og Sahara í norðri, og telur venjulega eftirfarandi lönd:

Benín

Búrkína Fasó

Fílabeinsströndin

Gambía

Gana

Gínea

Gínea-Bissá

Líbería

Malí

Níger

Nígería

Senegal

Síerra Leóne

TógóAð auki eru Kamerún, Grænhöfðaeyjar, Tsjad, Kongó, Miðbaugs-Gínea, Gabon, Máritanía, Saó Tóme og Prinsípe og Vestur-Sahara oft talin hlutar Vestur-Afríku.

Á þessu svæði hafa komið upp söguleg afrísk stórveldi, eins og Malíveldið, Songhæ og Ganaveldið.

Vestur-Evrópa

Vestur-Evrópa er hluti Evrópu sem hefur verið skilgreindur á ólíkan hátt á ólíkum tímum:

Fram að Fyrri heimsstyrjöldinni var Vestur-Evrópa Bretland, Frakkland og Benelúxlöndin, sem bjuggu við langa lýðræðishefð og aðgreindu sig á ýmsan annan hátt.

Á tímum Kalda stríðsins voru þau lönd talin til Vestur-Evrópu sem stóðu utan áhrifasvæðis Sovétríkjanna og bjuggu við markaðshagkerfi.

Fram að útvíkkun Evrópubandalagsins 2004 var Vestur-Evrópa oft miðuð við austurmörk bandalagsins.Almennt eru eftirfarandi lönd talin til Vestur-Evrópu í dag:

Norðurlöndin (Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð).

Bretlandseyjar (Bretland og Írland)

Benelúxlöndin (Belgía, Holland og Lúxemborg).

Þýskaland, Frakkland, Mónakó og Malta.

Alpalöndin (Sviss, Liechtenstein og Austurríki).

Appennínaskaginn (Ítalía, San Marínó og Vatíkanið).

Íberíuskaginn (Spánn, Portúgal og Andorra).Að auki eru oft Ungverjaland, Slóvakía, Tékkland og Slóvenía og stundum líka Grikkland og Kýpur talin með af sögulegum ástæðum.

Vestur-Kongó

Vestur-Kongó eða Kongó-Brazzaville (má ekki rugla saman við Austur-Kongó sem áður hét Saír) er land í Mið-Afríku. Það á landamæri að Gabon, Kamerún, Mið-Afríkulýðveldinu og Austur-Kongó, og strandlengju að Gíneuflóa. Landið á líka landamæri að útlendu Angóla, Cabinda.

Vestur-Kongó var áður frönsk nýlenda sem hét Franska Kongó og fékk sjálfstæði 1960. Eftir valdarán undir forystu herforingjans Marien Ngouabi árið 1968 var landið gert að Alþýðulýðveldinu Kongó og tekin upp náin stjórnmálatengsl við Sovétríkin og Austurblokkina. Árið 1977 var Ngouabi myrtur og við tók herforingjastjórn sem ríkti yfir landinu til 1992. Fyrsti lýðræðislega kjörni forseti landsins var Pascal Lissouba. Deilur milli hans og forsetaframbjóðandans (og fyrrum forsetans) Denis Sassou Nguesso í aðdraganda forsetakosninga 1997 leiddu til vopnaðra átaka. Sassou náði völdum með aðstoð herliðs frá Angóla. Sassou gerði breytingar á stjórnarskrá landsins sem juku völd forseta og lengdu kjörtímabil hans. Breytingarnar, og þær kosningar sem haldnar hafa verið síðan, hafa verið harkalega gagnrýndar af alþjóðasamtökum.

Stórir hlutar Vestur-Kongó eru regnskógar. Langflestir íbúar Vestur-Kongó búa í suðvesturhluta landsins. Íbúar tala 62 ólík tungumál. Um helmingur þeirra eru rómversk-kaþólskir og um 40% aðhyllast mótmælendatrú. Efnahagslíf Vestur-Kongó byggist aðallega á olíuútflutningi og timbri. Landið á mikið af auðlindum í jörð (fosfat, gull og aðrir málmar) sem eru að miklu leyti ónýttar.

Vestur-Skaftafellssýsla

Vestur-Skaftafellsýsla var ein af sýslum Íslands. Sýslur eru ekki lengur stjórnsýslueining á Íslandi, en nafnið er enn notað til að vísa til svæðisins.

Vestur-Skaftafellsýsla er milli Austur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu.

Vestur-Þýskaland

Vestur-Þýskaland er algengt heiti á þeim hluta Þýskalands sem nefndist Sambandslýðveldið Þýskaland eða Bundesrepublik Deutschland eftir de facto skiptingu hins hernumda Þýskalands í tvo hluta sem voru annars vegar hernámssvæði Frakka, Bandaríkjanna og Bretlands og hins vegar Sovétríkjanna árið 1949 við upphaf Kalda stríðsins. Sá hluti sem var á áhrifasvæði Sovétríkjanna var þá nefndur Austur-Þýskaland. Höfuðborg Vestur-Þýskalands var Bonn. Berlín var öll innan Austur-Þýskalands en var skipt í tvennt með Berlínarmúrnum og annar helmingurinn var hluti Vestur-Þýskalands en hinn höfuðborg Austur-Þýskalands.

Árið 1990 voru ríkin tvö sameinuð í eitt Þýskaland með því að Austur-Þýskaland varð hluti af sambandslýðveldinu.

Íslenska

Íslenska er vesturnorrænt, germanskt og indóevrópskt tungumál sem er einkum talað og ritað á Íslandi og er móðurmál langflestra Íslendinga. Það hefur tekið minni breytingum frá fornnorrænu en önnur norræn mál og er skyldara norsku og færeysku en sænsku og dönsku.Ólík mörgum öðrum vesturevrópskum tungumálum hefur íslenskan ítarlegt beygingarkerfi. Nafnorð og lýsingarorð eru beygð jafnt sem sagnir. Fjögur föll eru í íslensku, eins og í þýsku, en íslenskar nafnorðsbeygingar eru flóknari en þær þýsku. Beygingarkerfið hefur ekki breyst mikið frá víkingaöldinni, þegar Norðmenn komu til Íslands með norræna tungumál sitt.

Meirihluti íslenskumælenda býr á Íslandi, eða um 300.000 manns. Um 8.000 íslenskumælendur búa í Danmörku, en þar af eru 3.000 nemendur. Í Bandaríkjunum eru talendur málsins um 5.000, og í Kanada 1.400. Stærsti hópur kandarískra íslenskumælenda býr í Manitoba, sérstaklega í Gimli, þar sem Vestur-Íslendingar settust að. Þó að 97% Íslendinga telji íslensku móðurmál sitt er tungumálið nokkuð í rénun utan Íslands. Þau sem tala íslensku utan Íslands eru oftast nýfluttir Íslendingar, nema í Gimli þar sem íslenskumælendur hafa búið frá 1880.

Árnastofnun sér um varðveislu málsins og hýsir miðaldahandrit sem skrifuð voru á Íslandi. Auk þess styður hún rannsóknir á málinu. Frá 1995 hefur verið haldið upp á dag íslenskrar tungu þann 16. nóvember á hverju ári, sem var fæðingardagur Jónas Hallgrímssonar skálds.

Á öðrum tungumálum

This page is based on a Wikipedia article written by authors (here).
Text is available under the CC BY-SA 3.0 license; additional terms may apply.
Images, videos and audio are available under their respective licenses.