Sveitarfélag

Sveitarfélag er svæðisbundin stjórnsýslueining innan ríkis sem er lægra sett en yfirstjórn ríkisins. Sveitarfélög hafa yfirleitt skýrt ákvörðuð landamörk og taka oft yfir eina borg, eða þorp eða sveitahérað. Ein skilgreining á sveitarfélagi er að þau séu lægstu stjórnsýslueiningarnar sem hafa lýðræðislega kjörna stjórn.

Sveitarfélög sjá yfirleitt um grunnþjónustu við borgarana á borð við sorphirðu, skóla og almenningssamgöngur. Þau geta myndað byggðasamlög með öðrum sveitarfélögum til að tækla verkefni sem ella yrði erfitt að framfylgja.

Tengt

Akureyri

Akureyri er bær (áður kaupstaður) í Eyjafirði á Mið-Norðurlandi. Í sveitarfélaginu búa um 19.000 (2019). Akureyrarbær er fimmta fjölmennasta sveitarfélag Íslands og er annað fjölmennasta utan höfuðborgarsvæðisins á eftir Reykjanesbæ. Fyrir utan hið eiginlega bæjarland Akureyrar í botni Eyjafjarðar eru eyjarnar Grímsey og Hrísey einnig innan vébanda sveitarfélagsins.

Borgarbyggð

Borgarbyggð er sameinað sveitarfélag á Vesturlandi með nokkrum þéttbýliskjörnum; Borgarnesi, Bifröst, Hvanneyri, Reykholti og Varmalandi og er stærsta sveitarfélag á Íslandi, sem stendur við sjó, en byggir ekki afkomu sína að neinu leyti á sjávarútvegi.

Dalabyggð

Dalabyggð er sveitarfélag í Dalasýslu. Það var stofnað 11. júní 1994 við sameiningu 6 hreppa: Fellsstrandarhrepps, Haukadalshrepps, Hvammshrepps, Laxárdalshrepps, Skarðshrepps og Suðurdalahrepps. Skógarstrandarhreppur bættist í hópinn 1. janúar 1998 og Saurbæjarhreppur 10. júní 2006.

Aðalatvinnuvegur er landbúnaður og er þar mikil sauðfjárrækt. Fólksfjöldi 1. desember 2007 var 710.

Fljótsdalshérað

Fljótsdalshérað er sveitarfélag á mið-Austurlandi sem varð til 1. nóvember 2004, við sameiningu Austur-Héraðs, Fellahrepps og Norður-Héraðs og við þá sameiningu varð til fjölmennasta sveitarfélag á Austurlandi með um 4.000 íbúa, og þar af búa ríflega 2.300 manns í þéttbýlinu á Egilsstöðum og í Fellabæ.

Um svæðið fellur Lagarfljót og Jökulsá á Dal. Hallormsstaðaskógur, stærsti skógur landsins, er innan marka sveitarfélagsins, sem er jafnframt landmesta sveitarfélag landsins.

Í sveitarfélaginu eru eftirfarandi sveitir, sem eitt sinn voru hver um sig sjálfstætt sveitarfélag: Jökuldalur, Jökulsárhlíð, Hróarstunga, Fell, Hjaltastaðaþinghá, Eiðaþinghá, Vellir og Skógar (sem áður mynduðu einn hrepp), og Skriðdalur.

Fljótsdalshérað er svipað að flatarmáli og Púertó Ríkó.

Garðabær

Garðabær áður Garðahreppur er sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu á milli Kópavogs og Hafnarfjarðar.

Garðahreppur varð til árið 1878, ásamt Bessastaðahreppi, þegar Álftaneshreppi var skipt í tvo hluta. Var hann kenndur við kirkjustaðinn Garða á Álftanesi. Hafnarfjörður var innan hreppsins fyrstu þrjá áratugina, en var skilinn frá honum þegar hann fékk kaupstaðarréttindi 1. júní 1908. Sjálfur fékk Garðahreppur kaupstaðarréttindi 1. janúar 1976 og nefndist eftir það Garðabær.

Samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs þann 20. október 2012, fór fram íbúakosning í Garðabæ og sveitarfélaginu Álftanesi og var sameining þeirra í eitt sveitarfélag samþykkt. Hið nýja sveitarfélag heitir Garðabær. Sameiningin tók gildi um áramótin 2012/2013.

Grindavík

Grindavík er bær og sveitarfélag á sunnanverðum Reykjanesskaga. Sjávarútvegur er aðalatvinnugreinin og meðal stærstu útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækin eru Þorbjörn, Vísir og Stakkavík. Í auðlinda- og menningarhúsinu Kvikunni eru sýningarnar Saltfisksetur, saga saltfiskvinnslu á Íslandi, og Jarðorka, sýning um jarðhita, eldvirkni og jarðskjálfta.

Land Grindavíkur nær frá Reykjanestá og austur að sýslumörkum Árnessýslu. Krýsuvík, sem er innan marka sveitarfélagsins, tilheyrir Hafnarfirði. Þann 20. febrúar 1941 seldi ríkissjóður Hafnarfjarðarkaupstað hluta af landi jarðarinnar Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar (Krísuvíkurtorfunni).

Hreppur

Hreppur (skammstafað -hr.) er, á Íslandi, eining sveitarfélags sem hefur ekkert eða lítið þéttbýli heldur búa íbúarnir flestir í dreifbýli. Hreppar eru mjög gömul stjórnsýslueining á Íslandi, sennilega frá því fyrir kristnitöku árið 1000, en þeir höfðu til dæmis fátækraframfærslu á sínu verksviði öfugt við nágrannalöndin þar sem slík verkefni voru á könnu sóknanna.

Hreppsnafnið er á undanhaldi á Íslandi, einkum vegna þess að við sameiningu sveitarfélaga koma oft þéttbýli inn í hið nýja sveitarfélag.

Hörgársveit

Hörgársveit er sveitarfélag við Eyjafjörð. Það var stofnað 12. júní 2010 með sameiningu Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps. Hörgárbyggð var áður stofnuð 1. janúar 2001 með sameiningu Skriðuhrepps, Öxnadalshrepps og Glæsibæjarhrepps. Sveitarfélagið nær yfir Galmaströnd, Hörgárdal, Öxnadal og Kræklingahlíð.

Kína

Alþýðulýðveldið Kína (kínverska: 中国; pinyin: Zhōngguó) nær yfir megnið af því svæði sem í menningarlegu, landfræðilegu og sögulegu samhengi hefur verið kallað Kína. Allt frá stofnun þess árið 1949 hefur ríkið verið undir stjórn Kommúnistaflokks Kína. Það er fjölmennasta ríki veraldar með yfir 1,4 milljarða íbúa sem flestir teljast til hankínverja. Það er stærsta ríki Austur-Asíu að flatarmáli og það fjórða stærsta í heiminum. Ríkið á landamæri að fjórtán ríkjum: Afganistan, Bútan, Indlandi, Kasakstan, Kirgistan, Laos, Mongólíu, Búrma, Nepal, Norður-Kóreu, Pakistan, Rússlandi, Tadsjikistan og Víetnam. Höfuðborgin er Beijing.

Alþýðulýðveldið gerir tilkall til Taívan og nærliggjandi eyja sem í raun lúta þó stjórn Lýðveldisins Kína. Hugtakið „meginland Kína“ er stundum notað til að lýsa Alþýðulýðveldinu og þá eru Hong Kong og Maká yfirleitt ekki talin með sökum sérstöðu þeirra. Einnig gengur þessi hluti Kína undir nafninu „Rauða Kína“, yfirleitt á meðal andstæðinga eða gagnrýnenda þess. Þar sem Alþýðulýðveldið ræður yfir yfirgnæfandi meirihluta sögulegs landsvæðis Kínverja er það í daglegu tali yfirleitt einfaldlega kallað Kína og Lýðveldið Kína einfaldlega Taívan.

Í Kína var það opinber stefna að takmarka fjölda fæddra barna við eitt barn fyrir hverja fjölskyldu til þess að draga úr fólksfjölgun. Talið er að um 400 milljónir færri hafi fæðst en ella vegna stefnunnar. Létt var á stefnunni í lok ársins 2015 og hverri fjölskyldu leyft að eiga tvö börn.

Langanesbyggð

Langanesbyggð er sveitarfélag á og við Langanes á norðausturhorni Íslands. Það varð til við sameiningu Þórshafnarhrepps og Skeggjastaðahrepps sem samþykkt var í atkvæðagreiðslu þann 8. apríl 2006 og tók gildi 10. júní í kjölfar sveitarstjórnakosninganna 2006. Þar er meðal annars að finna Finnafjörð en áætlanir um stórskipahöfn hafa verið orðaðar við þann fjörð.

Mosfellsbær

Mosfellsbær (einnig kallaður Mosó í talmáli) er sveitarfélag sem liggur norðaustan við Reykjavík. Mosfellsbær varð til 9. ágúst 1987 þegar Mosfellshreppur fékk kaupstaðarréttindi.

Síðan 1933 hefur heitt vatn verið leitt úr Mosfellsbæ og til Reykjavíkur. Ullarvinnsla var mikilvæg grein í bænum og var þar framleiðsla við Álafoss frá 1919 til 1955. Nú er þar meðal annars aðsetur listamanna.

Sandgerði

Sandgerðisbær (áður Miðneshreppur) var sveitarfélag á utanverðum Reykjanesskaga, en það sameinaðist sveitarfélaginu Garði þann 10. júní 2018. Náði Sandgerði yfir alla vesturströnd Miðness (Rosmhvalaness), allt út að Garðskaga. Hið sameinaða sveitarfélag Sandgerðis og Garðs heitir Suðurnesjabær.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes er nes á suð-vesturhluta Íslands, sunnan Kollafjarðar. Yst á nesinu er sveitarfélagið Seltjarnarnesbær, sem er minnsta sveitarfélag Íslands að flatarmáli.

Skeiða- og Gnúpverjahreppur

Skeiða- og Gnúpverjahreppur er sveitarfélag í austanverðri Árnessýslu. Hann tók til starfa 9. júní 2002 eftir að íbúar Skeiðahrepps og Gnúpverjahrepps samþykktu sameiningu hreppanna í kosningum þá um vorið.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær er sveitarfélag á Reykjanesskaga. Sandgerðisbær og Sveitarfélagið Garður sameinuðist í eitt sveitarfélag þann 10. júní 2018 eftir að sameining hafði verið samþykkt í kosningum í báðum sveitarfélögunum. Í nóvember 2018 voru íbúar sveitarfélagsins beðnir um að kjósa nafn á sameinaða sveitarfélagið. Nafnið Suðurnesjabær var vinsælast og hlaut 75,3% atkvæða.Samanlagður íbúafjöldi Sandgerðis og Garðs var 3.374 þann 1. janúar 2018 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands og er nýja sveitarfélagið því næst mannflest á Suðurnesjum á eftir Reykjanesbæ. Í Grindavík voru á sama tíma 3.323 svo að fjöldinn er nánast sá sami.

Bæjarstjóri var ráðinn á fundi bæjarstjórnar þann 18. júlí 2018, Magnús Stefánsson, sem áður gegndi stöðu bæjarstjóra í Sveitarfélaginu Garði, en Sigrún Árnadóttir, fráfarandi bæjarstjóri Sandgerðis sótti ekki um. Magnús tók við embætti þann 15. ágúst.

Sveitarfélagið Garður

Sveitarfélagið Garður (áður Gerðahreppur) var sveitarfélag á nyrsta odda Reykjanesskagans, á innanverðu Miðnesi, en það sameinaðist Sandgerði þann 10. júní 2018.

Gerðahreppur var stofnaður 15. júní 1908 við seinni uppskiptingu Rosmhvalaneshrepps. Hinn hlutinn, sem tilheyrði Keflavíkurkauptúni, sameinaðist Njarðvíkurhreppi og varð að Keflavíkurhreppi.

Skjaldarmerki sveitarfélagsins var mynd af vitunum tveimur á Garðskaga. Á Garðskaga var reist fyrsta leiðarmerki fyrir sæfarendur á Íslandi og var það hlaðin grjótvarða á ströndinni. Síðar var sett á hana ljósmerki. Fyrsti eiginlegi vitinn var hins vegar reistur á Reykjanesi.

Gerðaskóli er einn elsti starfandi barnaskóli á landinu, stofnaður 1872 af séra Sigurði B. Sívertsen, sem var prestur á Útskálum í rúmlega hálfa öld. Hann átti einnig frumkvæði að byggingu núverandi Útskálakirkju árið 1861 og tók saman Suðurnesjaannál.

Björgunarsveitin Ægir var stofnuð 1935 og Knattspyrnufélagið Víðir í Garði var stofnað 1936.

Vopnafjarðarhreppur

Vopnafjarðarhreppur er sveitarfélag í Norður-Múlasýslu á Austurlandi við Vopnafjörð, sem er breiður fjörður og samnefndur bær.

Álftanes

Álftanes (nú hluti af Garðabæ) er nes á suðvesturlandi. Nesið liggur til norðvesturs á milli Hafnarfjarðar að sunnan og Skerjafjarðar að norðan. Nesið er láglent og á því allnokkurt hraun, Gálgahraun. Á nesinu er vaxandi byggð. Þekktustu staðir á Álftanesi eru Bessastaðir og Garðar. Á Bessastöðum er aðsetur forseta Íslands. Garðar eru kirkjustaður og fyrrum prestssetur. Í Gálgahrauni mun hafa verið aftökustaður sakamanna fyrrum. Yst á Álftanesi er Skansinn, en þar var byggt vígi til varnar konungsgarðinum á Bessastöðum ef sjóræningjar skyldu leggja þangað leið sína.

Nesið skiptist áður á milli tveggja sveitarfélaga, utanvert var sveitarfélagið Álftanes (áður Bessastaðahreppur) en innri hlutinn tilheyrði Garðabæ. Samhliða þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs þann 20. október 2012, fór fram íbúakosning í Garðabæ og sveitarfélaginu Álftanesi og var sameining þeirra í eitt sveitarfélag samþykkt. Hið nýja sveitarfélag heitir Garðabær en um það hafði verið samið fyrir kosningarnar.

Ísafjarðarbær

Þessi grein fjallar um sveitarfélagið. Fyrir greinina um þéttbýliskjarnann í þessu sveitarfélagi, sjá Ísafjörður (þéttbýli)Ísafjarðarbær er sveitarfélag á Vestfjörðum. Helstu þéttbýliskjarnar sveitarfélagsins eru:

Ísafjörður (sem er jafnframt stærsta þéttbýli á Vestfjörðum)

Þingeyri

Suðureyri

Flateyri

HnífsdalurSveitarfélagið varð til 1. júní 1996 með sameiningu sex sveitarfélaga á Vestfjörðum, þau voru: Flateyrarhreppur, Ísafjarðarkaupstaður, Mosvallahreppur, Mýrahreppur, Suðureyrarhreppur og Þingeyrarhreppur.

Fjórar sundlaugar eru innan sveitafélags Ísafjarðarbæjar: Sundhöllin á Ísafirði, Sundlaugin á Flateyri, Sundlaugin á Þingeyri og Sundlaugin á Suðureyri. Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar er Guð­mundur Gunnars­son.

Á öðrum tungumálum

This page is based on a Wikipedia article written by authors (here).
Text is available under the CC BY-SA 3.0 license; additional terms may apply.
Images, videos and audio are available under their respective licenses.