Steinöld

Steinöld er forsögulegt tímabil og fyrsta tímabilið í þróun mannsins þegar hann tekur að nota tinnu til að gera sér eld og verkfæri. Steinöld skiptist í fornsteinöld (fyrir ~1.4 milljón – 22.000 árum), miðsteinöld (fyrir ~22.000 – 12.000 árum) og nýsteinöld (fyrir ~12.000 – 3.300 árum).

Á steinöld breiddist mannkynið út frá Afríku. Steinöld vísar til þess að þá tóku menn að búa til áhöld úr tilhöggnum steini og henni lauk þegar menn tóku að bræða málmgrýti til að búa til málma en þá hófst bronsöld. Um sama leyti átti landbúnaðarbyltingin sér stað með því að samfélög manna tóku að byggja afkomu sína fyrst og fremst á landbúnaði í stað veiða og söfnunar.

Matarvenjur

Fæða safnara og veiðimanna á Palaeó tímanum voru villtar plöntur og dýr sem þeir gátu veitt í náttúrunni. Þeir heilluðust af líffærum dýranna, þar á meðal lifrinni, nýrunum og heilanum. Fræ  belgjurta voru einnig hluti af mataræði manna á þessum tíma, en það kom í ljós þegar lög af tinnusteini fundust í Kebara helli, í Ísrael. Enn nýlegri fornleifarannsóknir sýna fram á að mannfólk hafi ræktað og neytt villts korns fyrir allt að 23.000 árum.

Fyrir 9.000-15.000 árum hvarf fjöldi dýrategunda, einkum stór spendýr eins og loðfílinn. Hugsanlega kom þetta af stað breytingu í matarvenjum mannsins á þeim tímum þar sem það varð mikill uppgangur og framfarir í landbúnaði og plöntuafurðir urðu stærri partur af hefðbundnum matarvenjum.

Margar ástæður eru taldar orsök útrýmingar, aðal ástæðan var ofveiði, en einnig skógareyðing og hlýnun jarðar.

Trú og hefðir á Steinöld.

Nútíma rannsóknir og greiningar á munum sem hafa fundist frá Steinöld benda til að ákveðnar hefðir og trúr ríktu hjá fólki á þeim tíma. Við trúum því í dag að starfsemi fólks á þessum fornaldatímum hafi farið langt fram úr væntingum og kröfum þegar að það kemur að söfnun matar, fatnaðar og skjóls. Ýmsar hefðir tengdar dauðanum og jörðun fólks voru stundaðar, þrátt fyrir misjafnar aðferðir og framkvæmdir á milli menninga.

Tella - Dolmen de Tella 01

Jötunsteinsgrafhýsi voru fjölskipt. Steindys voru hinsvegar einskiptar og hlaðnar úr hellubjörgum. Þetta voru grafhýsi með stærðarinnar steinhellum hlöðnum upp ofan á hvora aðra. Þeir hafa fundist um alla Evrópu og Asíu og voru byggð á nýsteinöld og á bronsöld.

Arrowhead
Örvaroddur úr eldtinnu.

Heimildir

Tenglar

Bronsöld

Bronsöld er það tímabil í þróun siðmenningarinnar þegar æðsta stig málmvinnslu var tækni til að bræða kopar og tin úr náttúrulegum úrfellingum í málmgrýti og blanda þessum tveimur málmum síðan saman til að mynda brons. Bronsöld er eitt af þremur forsögulegum tímabilum og kemur á eftir nýsteinöld og er á undan járnöld. Þessi tímabil vísa til tækniþróunar, einkum getunnar til að búa til verkfæri, og ná því yfir mismunandi tímabil á mismunandi stöðum.

Elstu dæmi um bronsvinnslu er að finna í Austurlöndum nær um 3500 f.Kr. Í Kína er almennt talið að bronsöld hefjist um 2100 f.Kr., í Mið-Evrópu um 1800 f.Kr. og á Norðurlöndunum um 1500 f.Kr. Í Suður-Ameríku hófst bronsöld um 900 f.Kr. Sums staðar í Afríku sunnan Sahara tók járnöld strax við af steinöld.

Dundee

Dundee (gelíska: Dùn Dèagh) er fjórða stærsta borg Skotlands með um það bil 143.000 íbúa. Árið 1971 náði íbúafjöldinn í Dundee hámarki, 182.000 manns, og hefur þeim fækkað talsvert síðastliðin 38 ár. Á Dundee svæðinu búa um 170.000 manns, þar eru bæirnir: Monifieth, Birkhill, Invergowrie og auðvitað Dundee. Borgin er norðan við Tay-fjörðinn (Firth of Tay).

Nú á tímum er Dundee kölluð City of Discovery á ensku, til þess að minna á skipið RSS «Discovery», sem landkönnuðurinn Robert Falcon Scott fór á til Suðurskautslandsins, en það var smíðað í Dundee og er til sýnis í bænum.

Við höfnina í Dundee hafa fundist minjar um mannvist frá steinöld. Árið 1191 gaf Vilhjálmur 1. Skotakonungur út bréf, þar sem hann mælti svo fyrir að Dundee skyldi vera „borg“, þ.e. víggirtur verslunarstaður. Árið 1991 var haldið upp á 800 ára afmæli borgarinnar.

Eintrjáningur

Eintrjáningur eða eikja er frumstæður árabátur sem er hogginn til með því að hola út gegnheilan trjástofn. Eintrjáningur er elsta bátagerð sem fundist hefur, þeir elstu frá steinöld, hafa fundist við fornleifauppgröft í Þýskalandi. Orðið Eikja er oftast haft um eintrjáninging sem er búinn til úr innanholaðri eik.

Eintrjáningar voru notaðir af indíánum í Norður- og Suður-Ameríku. Til að hola út trjástofninn var notast við eld, auk hinna ýmsu amboða. Til að auka stöðugleika eintrjáningsins fyrir lengri siglingar er sett á hann flotholt, einn eða fleiri minni drumbar festir með löngum trésköftum þannig að þeir liggja samsíða bátnum í vatninu.

Fornsteinöld

Fornsteinöld er tímabil í mannkynssögunni sem nær frá þeim tíma þegar tegundahópurinn Hominini greindist frá simpönsum fyrir um 2,6 milljónum ára til upphafs nýsteinaldar fyrir um 12.000 árum síðan við lok pleistósentímabilsins. Þetta tímabil nær því yfir meira en 99% af sögu mannsins í árum talið. Það einkennist af notkun einfaldra steinverkfæra. Á þessum tíma þróuðust nokkrar tegundir manna en aðeins ein þeirra, nútímamaður, lifði fram á nýsteinöld svo vitað sé. Á þessum tíma skiptust á ísaldir og hlýskeið.

Fyrir um 1,5 til 2 milljónum ára hóf maðurinn að setjast að utan Afríku. Um 500.000 ára gamlar menjar eru til um heidelbergmanninn í Evrópu, sem síðar varð neanderdalsmaðurinn. Nútímamenn urðu til í Austur-Afríku fyrir um 200.000 árum og fyrir um 50.000 árum fóru þeir að dreifa sér út um heiminn. Talið er að menn hafi komið til Ástralíu fyrir 40-50.000 árum og Japan fyrir um 30.000 árum. Fyrir um 29.000 árum voru menn í Síberíu norðan við norðurheimskautsbaug og undir lok síðfornsteinaldar höfðu menn farið yfir Beringssund á landbrú til Ameríku.

Fornsteinöld skiptist í árfornsteinöld (frá því fyrir 2,6 milljón árum þar til fyrir 300.000 árum), sem markast af notkun elstu steinverkfæra, miðfornsteinöld (frá því fyrir 300.000 þar til fyrir 30.000 árum), þegar flóknari steinverkfæri höggvin úr steinkjarna komu fram á sjónarsviðið, og síðfornsteinöld (frá því fyrir 50.000 árum þar til fyrir um 10.000 árum), sem einkennist af mikilli aukningu minja um enn flóknari steinverkfæri úr tinnusteini og fiskveiðar með skutlum og önglum gerðum úr beinum.

Forsögulegur tími

Forsögulegur tími er tímabil í jarðsögunni skilgreint sem sá tími sem ekki eru til ritaðar heimildir um. Sem dæmi eru risaeðlur sagðar hafa verið uppi á forsögulegum tíma og hellisbúar eru sagðir forsögulegt fólk.

Í víðum skilningi mætti segja að forsögulegur tími hafi byrjað þegar alheimurinn myndaðist en oftast er tímabilið sagt hafa byrjað þegar líf kviknaði á jörðinni.

Mannkynssögunni er skipt í sögulegan tíma og forsögulegan tíma. Skilin þar á milli miðast við upphaf ritaðra heimilda, sem komu ekki fram á sama tíma alls staðar. Því lýkur forsögulegum tíma í raun ekki alls staðar samtímis. Elstu ritaðar heimildir, fleygrúnir, eru frá Súmer, eða Mesópótamíu, frá því um 3000-3500 f.Kr. Þá hófst fornöld.

Þar sem forsagan er, samkvæmt skilgreiningu, tíminn fyrir ritaðar heimildir, notast menn við gögn úr fornleifafræði og steingervingafræði og sögulegum málvísindum og samanburðarmálfræði (Sjá grein um frum-indóevrópsku). Verkfæri, skartgripir og mannvirki eru dæmi um það, sem notast er við til að gera skil á sögu manna fyrir komu ritmáls. Forsögulega tímabilinu er skipt upp í minni tímabil, notast er við sömu tímabilsheiti og í jarðfræði fyrir komu mannsins. Þá er tímabilunum skipt í frumsteinöld, steinöld, nýsteinöld en svo líkur forsögu og almenn saga mannkyns tekur við.

Á Íslandi telst sá atburður forsögulegur sem gerðist fyrir landnám Íslands, það er að segja það var enginn til frásagnar um atburðinn og engar skriflegar heimildir til um hann.

Georgía

„Georgía“ getur einnig átt við bandaríska fylkið Georgíu.

Georgía (georgíska საქართველო; Sakartvelo) er land í Kákasusfjöllum, við austurströnd Svartahafs. Georgía á landamæri að Rússlandi í norðri, Tyrklandi og Armeníu í suðri og Aserbaídsjan í austri. Georgía liggur í Austur-Evrópu og Vestur-Asíu en hefur flestöll stjórnmálaleg og menningarleg tengsl sín við Evrópu.

Á því svæði sem nú til dags þekkist sem Georgía hefur einatt verið búið síðan snemma á steinöld. Í fornöld voru þar konungsríkin Kolkis og Íbería, sem lögðu drög að menningu Georgíu. Löndin tóku upp kristna trú snemma á 3. öld og sameinuðust í eitt ríki árið 1008. Georgía gekk í gegnum tíma þar sem skiptust á upplausn og uppbygging þar til að ríkið brotnaði niður í nokkrar minni einingar á 16. öld. Rússaveldi tók smám saman yfir land Georgíu á árunum 1801-1866. Lýðveldið Georgía var skammlíft lýðræðisríki á árunum 1918-1921, á árunum fyrir rússnesku byltinguna. Það féll í hendur Sovétríkjanna árið 1922. Georgía hlaut svo sjálfstæði á ný árið 1991 og eftir borgarastyrjöld og efnahagskreppur náðist ákveðið jafnvægi á síðari hluta 10. áratugsins. Árið 2003 fór fram bylting sem nefndist Rósarbyltingin og fór alfarið fram án blóðsúthellinga. Komst þá að til valda ný ríkisstjórn sem stefndi að því að ganga í Atlantshafsbandalagið. Tilraunir nýju ríkisstjórnarinnar til að koma aðskildu svæðunum aftur undir stjórn Georgíu hafa orðið til þess að valda erjum milli Rússlands og Georgíu.

Landslag Georgíu er fjölbreytt allt frá hálendinu í Kákasusfjöllum til strandlengjunnar við Svartahaf, þar sem loftslag er heittemprað og dregur að ferðamenn. Saga landbúnaðar nær aftur til fornaldar og er sú atvinnugrein ennþá mikilvægur þáttur í efnahag landsins.

Í Georgíu er fulltrúalýðræði, nokkurs konar forsetalýðveldi. Georgía er meðlimur Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðs, Samveldis sjálfstæðra ríkja, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og Svartahafsefnahagssamvinnusamtakanna, og hefur áhuga á að ganga í Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið.

Járnöld

Járnöld er síðasta tímabilið í þriggja alda kerfinu til að flokka forsöguleg samfélög og kemur þannig á eftir steinöld og bronsöld. Nafnið vísar til þróunar í málmvinnslutækni þegar menn fundu upp tækni til að bræða járn sem hefur mun hærra bræðslumark en kopar. Venjulega er járnöld talin hefjast á 12. öld f.Kr. í Austurlöndum nær, Indlandi og Grikklandi hinu forna en hún hófst mun síðar í Mið- og Norður-Evrópu eða á 8. og 6. öld f.Kr. Járnöld lauk við upphaf sögulegs tíma þegar fornöldin hófst í Grikklandi um 776 f.Kr. eða við stofnun Rómar 753 f.Kr.

Á Norðurlöndunum er járnöldin talin ná frá 5. öld f.Kr. til upphafs víkingaaldar um miðja 8. öld e.Kr.

Tækni til að vinna járn var óþekkt í Ameríku og Ástralasíu þar til þessi svæði komust í kynni við Evrópubúa á landafundatímabilinu. Þar var því aldrei um neina járnöld að ræða.

Jötundys

Jötundys (tröllastofa eða graftarhellir ) er grafhýsi frá yngri steinöld sem er hlaðið úr stórgrýti.

Kljásteinavefstaður

Kljásteinavefstaður er vefstaður þar sem uppistöður eru hengdar í steina með gati í. Allt frá steinöld hafa slíkir vefstaðir þar sem ofið er með höföldum verið til. Kljásteinarnir hafa varðveist. Í Jeríkó hafa fundist sjö þúsund ára gamlir kljásteinar. Á víkingaöld klæddust menn fatnaði sem ofinn var í kljásteinavefstað.

Í fornu ljóði Darraðarljóð sem fjallar um Brjánsbardaga er myndlíking um vef sem ofinn er úr görnum manna og harðkléaður manna höfðum (mannahöfuð höfð fyrir kljásteina, kléa).

Kólumbía

Kólumbía er land í norðvesturhluta Suður-Ameríku með landamæri að Venesúela og Brasilíu í austri, Ekvador og Perú í suðri og Panama í norðvestri. Það á strönd að Karíbahafi í norðri og Kyrrahafinu í vestri. Kólumbía ræður yfir stórum eyjaklasa í Karíbahafi, San Andrés y Providencia, undan strönd Níkaragva.

Landið þar sem nú er Kólumbía var byggt frumbyggjum frá því í steinöld. Þar stóðu menningarsamfélögin Muisca, Quimbaya og Tairona. Spánverjar komu til landsins árið 1499 og lögðu það brátt undir sig. Þeir stofnuðu Varakonungsdæmið Nýja-Granada með höfuðborgina Bógóta. Varakonungsdæmið lýsti yfir sjálfstæði sem Stór-Kólumbía í kjölfar herfara Simón Bolívar 1819. Nokkrum árum síðar klufu Venesúela og Ekvador sig frá þessu ríki og eftir varð Lýðveldið Nýja-Granada. Panama klauf sig frá Kólumbíu árið 1903. Eftir síðari heimsstyrjöld leiddu pólitísk átök til tíu ára vopnaðra átaka, La Violencia. Stjórnarsamstarf frjálslyndra og íhaldsmanna batt endi á þessi átök en brátt hófst skæruhernaður við ýmsa vopnaða hópa og glæpasamtök sem hefur haldið áfram til þessa dags.

Kólumbía er eitt af sautján löndum heims með mesta líffjölbreytni. Landið nær yfir regnskóga á Amasónsvæðinu, Andesfjöll og hitabeltisgresjur. Kólumbía er þriðja fjölmennasta ríki Rómönsku Ameríku og þriðja stærsta hagkerfið á eftir Brasilíu og Mexíkó. Flestar stærstu borgir landsins, eins og Bógóta og Medellín, standa á hásléttum í Andesfjöllum. Helstu útflutningsafurðir Kólumbíu eru olía og kol, en landið er líka þekkt fyrir framleiðslu smaragða, kaffis og pappírs meðal annars.

Miðsteinöld

Miðsteinöld er hugtak sem notað er í fornleifafræði yfir fornmenningu sem lendir á milli fornsteinaldar og nýsteinaldar. Upphaflega náði það yfir minjar í Norðvestur-Evrópu sem voru frá því eftir lok pleistósentímabilsins en fyrir landbúnaðarbyltinguna frá því fyrir um 10-5.000 árum en hugtakið er líka notað um minjar frá Mið-Austurlöndum frá því fyrir um 20-9.500 árum.

Málverk

Málverk (til forna kallað pentmynd, (pent)skrift eða fái) er flötur sem hefur verið settur litum, annaðhvort með penslum eða öðrum verkfærum, jafnvel höndum. Flöturinn getur verið veggur, léreft, gler eða pappír o.s.frv. Málverk í listrænum tilgangi er samsetning sem líkist fyrirmyndinni eða er byggt upp af hinum ýmsu formum eða formleysum. Talað er um hlutbundna og óhlutbundna list. Hvortveggja getur verið gert eftir ákveðinni listastefnu (eða stefnuyfirlýsingu) til að tjá þá sýn eða hughrif sem listamaðurinn ætlar að framkalla. Með elstu málverkum sem vitað er um eru hellamálverkin í Grotte Chauvet í Frakklandi sem eru frá steinöld.

Saga Norðurlanda

Saga Norðurlanda nær alla leið aftur á steinöld, en síðan þá hefur fólk búið á Norðurlöndum.

Venjulega er sagt að víkingaöldin hafi staðið yfir frá 793 til 1066. Við þessi ártöl er miðað vegna þess, að 793 er árið þegar víkingar réðust á eyjuna Lindisfarne (Lindesfarne) við strönd Norðimbralands á Norður-Englandi, og 1066 er árið þegar Haraldi þriðja af Noregi, sem einnig er nefndur Haraldur harðráði, mistókst að ráðast inn í England. Einnig kann viðgangur kristinnar trúar á Norðurlöndum að hafa átt þátt í því að víkingaferðir lögðust af.

Eftir víkingaöldina tók við tímabil sem kennt er við Kalmarsambandið og stóð í u.þ.b. 130 ár. Þetta var tímabil þar sem Norðurlönd voru sameinuð undir einni konungsstjórn í Danmörku. Vegna óánægju Svía með þá tilhögun leystist þetta samband upp um 1523 og Danmörk og Noregur mynduðu eitt konungsveldi meðan Svíþjóð myndaði annað sem náði yfir svæði það sem kallast Svíþjóð og Finnland í dag.

Næstu 300 árin breytast hagir lítið en mikið er um ófrið milli Svíþjóðar og Danmerkur-Noregs og vann Svíþjóð æ meira á. Einnig stóð Danmörk-Noregur í stríði við Prússa um lendur í suðri sem endaði með ósigri Danmerkur-Noregs.

Í lok Napóleonsstyrjaldanna neyddust Danir árið 1814 til að láta Noreg af hendi til Svíþjóðar og Helgoland til Bretlands. Noregur og Svíþjóð voru þó ekki sameinuð heldur undir sameiginlegri konungsstjórn. Árið 1808 hertók Rússland austurhluta sænska ríkisins, en Finnland og Svíþjóð höfðu þá verið eitt ríki í yfir 700 ár. Stórfurstadæmið Finnland varð hluti af rússneska keisaradæminu.

Áratugirnir 1830-1860 einkenndust mjög af svonefndum skandinavisma í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Innblásnir af þjóðernishyggju og fornaldarljóma leituðust menn við að efla samstarf þessara landa og einingu á stjórnmálasviði og raunar var miðað að því að mynda norrænt ríkjabandalag. Þótt ekki hafi orðið úr lagði skandinavisminn grunninn að nútímasamstarfi Norðurlandanna. Einn afrakstur varð líka myntbandalag Dana, Svía og Norðmanna sem hélst 1873-1914.

Það var þó ekki fyrr en 1952 með stofnun Norðurlandaráðs og með Norræna vegabréfasambandinu 1957 að formlegt samstarf ríkjanna allra tók á sig form og efldist síðan við stofnun Norrænu ráðherranefndarinnar 1971.

Skipsskrokkur

Skipsskrokkur, bátsskrokkur eða bolur er skrokkurinn eða skelin á skipi eða báti. Skrokkurinn flýtur á vatni og myndar veggi og gólf bátsins.

Ef skrokkurinn er gerður úr efni sem er léttara en vatn getur hann flotið, jafnvel þótt báturinn fyllist af vatni. Skrokkar sem eru gerðir úr efnum sem eru þyngri en vatn geta samt flotið þar sem þeir innihalda nægilegt magn lofts þannig að samanlagður þéttleiki skrokksins og loftsins verður minni en þéttleiki vatnsins.

Fyrstu bátsskrokkar sem gerðir hafa verið voru líklega holir trjábolir (eintrjáningar) en þegar á steinöld hefur mönnum tekist að smíða báta úr grind sem húðir voru strengdar á (húðkeipur). Síðar var farið að smíða skipsskrokka úr viði með því að festa borð á grind þannig að borðin sköruðust (súðbyrðingur) eða lægju saman (sléttbyrðingur). Með tímanum þróaðist skipsskrokkurinn og skip fengu bæði kjöl og kjölfestu sem gáfu aukinn stöðugleika.

Í dag er algengt að smíða báta úr trefjaplasti en stærri skip úr stáli.

Þegar skipskrokkur er rifinn er efni hans oft nothæft aftur. Efni þetta er nefnt slátur.

Skófla

Skófla er handverkfæri með skafti á öðrum enda og flötu eða hvelfdu járnblaði á hinum, notuð til moksturs eða til að stinga upp jarðveg, grafa upp fornleifar eða jarða lík. Einnig eru vélskóflur á ýmsum vinnuvélum eins og skurðgröfum. Skófla er aldagamalt verkfæri, líklegast frá steinöld.

Þegar Þjóðverjar voru að byggja upp her sinn, í aðdraganda seinni heimstyrjaldarinnar, létu þeir hermenn sína bera skóflur í stað byssa, en samkvæmt uppgjafarsamkomulaginu eftir fyrri heimstyrjöldina máttu Þjóðverjar ekki stofna her. Það var því táknræn athöfn að láta hermennina bera skóflur í stað byssa.

Svíþjóð

Konungsríkið Svíþjóð (sænska: Konungariket Sverige) er land í Norður-Evrópu og eitt Norðurlandanna. Landamæri liggja að Noregi til vesturs og Finnlandi til norðausturs, landið tengist Danmörku með Eyrarsundsbrúnni. Einnig liggur landið að Eystrasaltinu til austurs. Svíþjóð er fjölmennust Norðurlanda með 10 milljónir íbúa en er þó frekar strjálbýlt. Langflestir íbúanna búa í suðurhluta landsins.

Höfuðborg Svíþjóðar er Stokkhólmur. Aðrar stærstu borgir landsins, í stærðarröð, eru Gautaborg, Málmey, Uppsalir, Linköping (Lyngkaupstaður), Västerås (Vestárós), Örebro (Eyrarbrú), Karlstad, Norrköping (Norðkaupstaður), Helsingjaborg, Jönköping (Júnakaupstaður), Gävle (Gafvin), Sundsvall og Umeå.

Barrskógar landsins eru nýttir er í timbur- og pappírsgerð. Í norðurhluta landsins er mikil námuvinnsla; einkum er þar unninn járnmálmur en þar er einnig að finna ýmsa aðra málma. Aðaliðnaðarsvæðið er um mitt landið en landbúnaður einkennir mjög suðurhlutann.

Veiðimenn og safnarar

Veiðimenn og safnarar er einkunn sem höfð er um samfélög þar sem aðalaðferðin til að afla lífsviðurværis felst í beinni öflun matar úr náttúrunni; það er veiðum dýra og tínslu jurtaafurða. Ekki er hægt að gera skýran greinarmun á samfélögum veiðimanna og safnara og landbúnaðarsamfélögum þar sem flest samfélög nota fjölbreytta tækni til matvælaöflunar.

Í meira en tvær milljónir ára voru öll samfélög manna samfélög veiðimanna og safnara. Landbúnaður kom fyrst fram á sjónarsviðið undir lok miðsteinaldar fyrir um 12.000 árum síðan og markar upphaf nýsteinaldar.

Zadar

Zadar er borg við Adríahafsströnd Króatíu. Íbúar voru rúmlega 75.000 árið 2011 sem gerði hana fimmtu stærstu borg landsins. Hún er vinsæll ferðamannastaður.

Zadar á sér langa sögu og hafa fundsist mannvistarleifar frá steinöld þar. Rómverjar voru þar með borgina Iadera. Ýmis veldi hafa haft yfirráð yfir borginni: Austrómverska ríkið, Feneyjingar og Austurríkismenn.

Borgin varð illa úti í seinni heimstyrrjöld þegar bandamenn sprengdu um 80% húsa í borginni og varð mannfall mikið. Í Júgóslavíustríðinu var umsátur um borgina frá 1991-1993.

Írland

Írland (írska Éire, enska Ireland) er þriðja stærsta eyja Evrópu á eftir Stóra-Bretlandi og Íslandi. Hún liggur vestan við Stóra-Bretland og Írlandshaf en að Atlantshafi í vestri. Eyjunni er skipt upp annars vegar í Norður-Írland sem er hluti af Bretlandi og hins vegar Írska lýðveldið sem tekur yfir bróðurpartinn af eyjunni sunnanverðri. Íbúar Írlands eru um 6,6 milljónir (2016), þar af búa um 4,8 milljónir í Írska lýðveldinu en íbúum þess hefur farið hratt fjölgandi síðari ár vegna mikillar efnahagsuppsveiflu. Íbúar á Norður-Írlandi eru um 1,8 milljónir.

Á öðrum tungumálum

This page is based on a Wikipedia article written by authors (here).
Text is available under the CC BY-SA 3.0 license; additional terms may apply.
Images, videos and audio are available under their respective licenses.