Skæruhernaður

Skæruhernaður er hernaður þar sem áhersla er lögð á margar aðgreindar árásir sem óvinurinn veit aldrei hvar er að vænta. Skæruhernaður á uppruna sinn að rekja til þess tíma þegar Napóleon ætlaði að gera bróður sinn Josef Bonaparte að konungi yfir Spáni. Þá stunduðu Spánverjar það sem þeir kölluðu guerrilla (lítið stríð, eða skæra), en það voru fámennar skyndiárásir sem óvinurinn gat ómögulega séð fyrir. Og með því var farið að nefna þessa árásaherferð guerrilla á Spáni, og innan tíðar varð þetta spænska hugtak að alþjóðlegu heiti yfir það sem á íslensku hefur verið nefnt skæruhernaður.

Alsír

Alsír er land í Norður-Afríku og stærsta ríki Afríku. Það á landamæri að Túnis í norðaustri, Líbíu í austri, Níger í suðaustri, Malí og Máritaníu í suðvestri og Marokkó og Vestur-Sahara í vestri. Nafn landsins er dregið af nafni Algeirsborgar og kemur úr arabísku al-jazā’ir sem merkir „eyjarnar“ og á við fjórar eyjar sem lágu úti fyrir ströndum borgarlandsins þar til þær urðu hluti meginlandsins 1525.

Argentína

Argentína er land í sunnanverðri Suður-Ameríku. Það er næststærsta land álfunnar og það áttunda stærsta í heimi. Það afmarkast af Andesfjallgarðinum í vestri, Atlantshafi í austri og Drakesundi í suðri. Lönd, sem liggja að Argentínu eru Síle í vestri, Paragvæ og Bólivía í norðri, Brasilía og Úrúgvæ í norðaustri. Argentína gerir kröfu til Falklandseyja (sem Argentínumenn nefna Malvinaseyjar), Suður-Georgíu og Suður-Sandvíkureyja og loks til hluta af Suðurskautslandinu.

Balkanskagabandalagið

Balkanskagabandalagið var herbandalag sem sett var á fót árið 1912 með sáttmálum milli Balkanríkjanna Grikklands, Búlgaríu, Serbíu og Svartfjallalands og beindist gegn Tyrkjaveldi, sem réð á þeim tíma enn yfir stórum svæðum á Balkanskaga. Ófremdarástand hafði ríkt á Balkanskaga frá byrjun 20. aldarinnar vegna margra ára stríðsástands í Makedóníu, Ungtyrkjabyltingarinnar í Tyrklandi og umdeildrar innlimunar Bosníu og Hersegóvínu í Austurríki-Ungverjaland. Stríð Tyrkja við Ítali árið 1911 hafði einnig veikt stöðu Tyrkjaveldis og hleypt eldi í æðar Balkanríkjanna. Að áeggjan Rússa lögðu Serbía og Búlgaría deilumál sín til hliðar og gengu þann 13. mars árið 1912 í bandalag sem upphaflega átti að beinast gegn Austurríki-Ungverjalandi en beindist í reynd gegn Tyrkjaveldi eftir að leynilegum viðauka var bætt við samninginn. Serbía skrifaði svo undir bandalagssamning við Svartfjallaland og Búlgaría við Grikkland. Balkanskagabandalagið vann bug á Tyrkjum í fyrra Balkanstríðinu sem hófst í október 1912 og tókst að hafa af Tyrkjaveldi nánast öll evrópsk landsvæði þess. Eftir sigurinn kom hins vegar upp ágreiningur milli bandamannanna um skipti landvinninganna, sérstaklega Makedóníu, og leystist bandalagið í raun upp í kjölfarið. Litlu síðar réðst Búlgaría á fyrrum bandamenn sína og byrjaði síðara Balkanstríðið.

Borgarastyrjöldin í Líbanon

Borgarastyrjöldin í Líbanon stóð frá 13. apríl 1975 til 13. október 1990. Áætlað er að styrjöldin hafi kostað 120.000 manns lífið og sent hundruð þúsunda á vergang. Talið er að um milljón manns hafi flúið Líbanon vegna styrjaldarinnar og um 76.000 eru enn vegalaus innan Líbanon. Upphafleg ástæða styrjaldarinnar var brottrekstur Frelsissamtaka Palestínu (PLO) frá Jórdaníu eftir svarta september 1970. Palestínskir skæruliðahópar flúðu til Suður-Líbanon þar sem yfir 300.000 palestínskir flóttamenn bjuggu. Þar stóðu þeir fyrir árásum í Norður-Ísrael. Ísraelsher stóð svo aftur fyrir aðgerðum gegn skæruliðum í Líbanon. Í Líbanon ríktu kristnir maronítar í krafti þjóðarsáttmálans frá 1943 sem byggðist á manntali frá 1932. Breytingar á samsetningu þjóðarinnar leiddu til vaxandi óánægju með yfirráð maroníta meðal annarra hópa, einkum líbanskra drúsa og múslima auk vinstrisinnaðra stjórnmálaflokka. Veik ríkisstjórn og her gerðu það að verkum að PLO tókst að leggja undir sig stór svæði í borgum Líbanon án þess að stjórnin gæti rönd við reist. Vinstriflokkar, múslimar og drúsar mynduðu líbönsku þjóðarhreyfinguna sem gerði bandalag við PLO en hægrisinnaðir stuðningsmenn stjórnarinnar mynduðu líbanska framvörðinn. Ísrael og mörg Evrópuríki studdu framvörðinn en þjóðarhreyfingin fékk stuðning frá nokkrum arabaríkjum og PLO. Fjöldi annarra hópa tók einnig upp vopn. Í Suður-Líbanon varð Amalhreyfingin vinsæl meðal sjíta sem voru andsnúnir bæði PLO og Ísrael.

Deng Xiaoping

Þetta er kínverskt nafn: kenni- eða fjölskyldunafnið er Deng, eiginnafnið er Xiaoping.Deng Xiaoping hlusta (22. ágúst 1904 – 19. febrúar 1997) (eða Teng Hsiao-p'ing) var kínverskur leiðtogi og stjórnmálamaður, kenningasmiður og stjórnarerindreki. Sem leiðtogi Kommúnistaflokksins í Alþýðulýðveldinu Kína var Deng siðbótarmaður sem leiddi Kína í átt að markaðshagkerfi. Þrátt fyrir að hafa aldrei gegnt formlegu embætti sem þjóðhöfðingi eða leiðtogi ríkisstjórnar Kína þá var hann engu að síður talinn meginleiðtogi „annarrar valdakynslóðar“ Alþýðulýðveldisins Kína frá 1978 til 1990.

Deng fæddist í Guang'an, Sesúanhéraði þann 22. ágúst 1904. Hann dvaldi við nám og störf í Frakklandi á árunum 1920 – 1925 og kynntist þar marxisma. Þar kekk hann liðs við Kommúnistaflokk Kína árið 1923. Þegar hann sneri aftur til Kína starfaði hann sem stjórnmálaerindreki á dreifbýlli svæðum Kína. Hann hófst hratt til hárra metorða innan Kommúnistaflokksins. Hann varð aðalritari flokksforystunnar þegar „Gangan mikla“ hófst og því talinn til „byltingahetja göngunnar“. Hann varð einn æðsti yfirmaður hersins í stríðinu við Japani og í borgarastríðinu stýrði hann helmingi alls herafla kommúnista. Hann tók sæti miðstjórnar Kommúnistaflokks Kína 1945. Eftir stofnun Alþýðulýðveldisins Kína árið 1949 vann Deng í Tíbet og í Suðvestur-Kína til að treysta yfirráð kommúnista þar. Hann var kallaður til starfa til Beijing sem varaforsætisráðherra (1952) þar sem frami hann reis hratt. Hann gekk til liðs við framkvæmdanefnd Miðstjórnarinnar árið 1956. Hann ásamt Liu Shaoqi gegndi lykilhlutverki í efnahagslegri endurreisn Kína eftir „stóra stökkið“ á sjötta áratugnum. Efnahagsstefna hans var talinn andstæð pólitískri hugmyndafræði Mao Zedong formanns. Vegna þessa lenti hann tvívegis í „hreinsunum“ menningarbyltingarinnar. Í fyrra skiptið (1966) var hann sendur til endurhæfingarstarfa í dráttarvélaverksmiðju. Árið 1973 var hann síðan kallaður aftur til starfa með Zhou Enlai sem varaforsætisráðherra. Í veikindum Zhou tók Deng við að innleiða kennisetningar Zhou um nútímavæðingu. Eftir dauða Zhou Enlai 1976 féll Deng aftur í ónáð og lenti í „flokkshreinsunum“. En enn reis Deng til valda 1977 í sitt fyrra embætti sem varaforsætisráðherra og að auki varaformaður flokksins. Hann heimsótti Bandaríkin árið 1979 til að leita nánari tengsla. Deng styrkti valdastöðu sína 1981 þegar hann skipti andstæðingnum Hua Guofeng flokksformanni út fyrir liðsmann sinn.

Þrátt fyrir að hafa aldrei gengt formlegu hæstu embættum sem þjóðhöfðingi, leiðtogi ríkisstjórnar eða aðalritari kommúnistaflokksins í Kína er Deng engu að síður talinn meginleiðtogi „annarrar valdakynslóðar“ Alþýðulýðveldisins Kína sem tók við eftir Mao Zedong. Hann tók við Kína í sárum þar sem félagskerfi og stofnanir höfðu verið brotnar niður í menningarbyltingunni og öðrum stjórnmálaátökum Mao tímabilsins.

Deng var höfundur nýrra áherslna í kínverskum sósíalisma, þar sem efnahagslegar umbætur byggðu á kennismíð um „sósíalískan markaðsbúskap“. Hann opnaði Kína fyrir erlendum fjárfestingum, ruddi braut landsins fyrir þátttöku á heimsmarkaði og heimilaði starfsemi einkafyrirtækja á samkeppnismarkaði. Hann er yfirleitt talinn hafa lagt grunn að gríðarlegri efnahagsframþróun Kína síðast liðin þrjátíu ár. Þessi mikli hagvöxtur hefur breytt lífskjörum hundraða milljóna Kínverja til betri vegar.En þrátt fyrir að hafa losað um ríkishöft og eftirlit krafðist hann þess að flokkurinn hefði tögl og haldir í stjórnsýslu og stjórnmálum landsins. Hann studdi til að mynda notkun hervalds til að stöðva mótmælin á Torgi hins himneska friðar.

Deng kvaddi flokkstarfið formlega árið 1989 og tilnefndi Jiang Zemin sem eftirmann sinn. Á síðustu æviárunum þjáður af Parkinsonsveiki, gat hann varla fylgst með málefnum ríkisins. Hann taldist engu að síður til æðsta leiðtoga Kína fram á síðasta dag 19. febrúar 1997.

Dortmund

Dortmund næststærsta borgin í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu með 576 þúsund íbúa (31. desember 2013) og er jafnframt stærsta borgin í Ruhr-héraðinu.

Hollensku Austur-Indíur

Hollensku Austur-Indíur voru hollensk nýlenda sem varð til þegar Hollenska Austur-Indíafélagið var þjóðnýtt af Batavíska lýðveldinu um aldamótin 1800. Árið 1945 varð þessi nýlenda nútímaríkið Indónesía. Nýlendan stækkaði á 19. öld og náði mestu umfangi í upphafi 20. aldar. Nýlendan var sú verðmætasta í Hollenska heimsveldinu vegna útflutnings á kryddi (múskati, negul og kanil) og landbúnaðarafurðum eins og hrísgrjónum, sykri, kaffi, kakó, hrágúmmíi og sagógrjónum.

Hollensku Austur-Indíur liðu undir lok í Síðari heimsstyrjöld þegar Japan lagði landsvæðið undir sig. Með hernámi Japana var hollensku nýlendustjórninni velt úr sessi. Þegar Japanir gáfust upp 1945 lýstu leiðtogar þjóðernissinna yfir sjálfstæði Indónesíu og þegar Hollendingar sneru aftur og lögðu stærstan hluta landsins aftur undir sig með hervaldi hófst skæruhernaður gegn þeim. Að lokum neyddust Hollendingar til að viðurkenna sjálfstæði Indónesíu og leggja nýlenduna formlega niður árið 1949.

Kambódía

Kambódía er land í Suðaustur-Asíu með landamæri að Taílandi í vestri, Laos í norðri og Víetnam í austri. Í suðri á landið strandlengju að Taílandsflóa.

Opinbert nafn landsins á khmer er Preăh Réachéanachâkr Kâmpŭchea (umskrifað með latneskum bókstöfum), þ.e. Konungsríkið Kambódía. Í daglegu tali nefna landsmenn landið „Kampútsea“. Á vesturlöndum er hins vegar nafnið „Kampútsea - Kampuchea“ tengt stjórnatíma Rauðu khmeranna 1975–79.

Íbúafjöldi er rúmlega 13 miljónir. Höfuðborg og jafnframt stærsta borg landsins er Phnom Penh.

Flestir íbúar Kambódíu eru theravada búddhistar en þar búa auk þess allmargir múslimar sem nefndir eru Cham, Kínverjar, Víetnamar og aðrir minnihlutahópar.

Landslag og atvinnulíf einkennist mjög af tveimur miklum vatnakerfum, Mekong-fljótinu og Tonle Sap-fljótinu. Fyrir utan að hrísgrjónaræktunin er mjög háð þessum vatnakerfum eru fiskveiðar í þeim ein aðalundirstaða í mataræði almennings.

Fyrir utan landbúnað og fiskiveiðar eru helstu atvinnugreinar í Kambódíu saumur á fatnaði til útflutnings, ferðaþjónusta og byggingarstarfsemi.

Kamerún

Kamerún er land í Mið-Afríku með landamæri að Nígeríu í vestri, Tjad í norðaustri, Mið-Afríkulýðveldinu í austri, Lýðveldinu Kongó, Gabon og Miðbaugs-Gíneu í suðri. Landið á strönd að Gíneuflóa í vestri. Kamerún er stundum lýst sem smækkaðri mynd af Afríku vegna þess hve fjölbreytt lífríki og menning landsins er. Þar er að finna strendur, fjalllendi, gresjur og eyðimerkur. Í Kamerún eru töluð yfir 200 tungumál. Landið er þekkt fyrir alþýðutónlist, einkum makossa og bikutsi, og fyrir öflugt knattspyrnulið.

Meðal elstu íbúa landsins voru Saomenningin við Tsjadvatn og Bakóar í regnskógunum. Portúgalskir landkönnuðir komu að strönd landsins á 15. öld og nefndu svæðið Rio dos Camarões („Rækjufljót“) sem varð Cameroon/Cameroun á ensku og frönsku. Fúlanar stofnuðu Adamawa-emíratið í norðurhluta landsins á 19. öld. Árið 1884 varð landið þýska nýlendan Kamerun. Eftir ósigur Þýskalands í Fyrri heimsstyrjöld var landinu skipt milli Breta og Frakka. Árið 1955 hófst skæruhernaður gegn stjórn Frakka. Landið sameinaðist árið 1960 sem sambandslýðveldi Frönsku Kamerún og hluta Bresku Kamerún árið 1961. Sambandslýðveldið var lagt niður og landið sameinað í eitt ríki árið 1972.

Saga Kamerún eftir sjálfstæði hefur einkennst af tiltölulega miklum pólitískum stöðugleika og innviðir landsins eru þróaðir. Þar eru stór iðnfyrirtæki í olíu- og timburvinnslu. Helstu útflutningsafurðir landsins eru hráolía, kakó, kaffi og bómull. Þrátt fyrir að verg landsframleiðsla á mann sé með því hæsta sem gerist í Afríku sunnan Sahara lifa margir landsmenn við fátækt. Paul Biya hefur ríkt sem forseti frá 1982. Enskumælandi hlutar landsins hafa kallað eftir aukinni valddreifingu og jafnvel aðskilnaði.

Kólumbía

Kólumbía er land í norðvesturhluta Suður-Ameríku með landamæri að Venesúela og Brasilíu í austri, Ekvador og Perú í suðri og Panama í norðvestri. Það á strönd að Karíbahafi í norðri og Kyrrahafinu í vestri. Kólumbía ræður yfir stórum eyjaklasa í Karíbahafi, San Andrés y Providencia, undan strönd Níkaragva.

Landið þar sem nú er Kólumbía var byggt frumbyggjum frá því í steinöld. Þar stóðu menningarsamfélögin Muisca, Quimbaya og Tairona. Spánverjar komu til landsins árið 1499 og lögðu það brátt undir sig. Þeir stofnuðu Varakonungsdæmið Nýja-Granada með höfuðborgina Bógóta. Varakonungsdæmið lýsti yfir sjálfstæði sem Stór-Kólumbía í kjölfar herfara Simón Bolívar 1819. Nokkrum árum síðar klufu Venesúela og Ekvador sig frá þessu ríki og eftir varð Lýðveldið Nýja-Granada. Panama klauf sig frá Kólumbíu árið 1903. Eftir síðari heimsstyrjöld leiddu pólitísk átök til tíu ára vopnaðra átaka, La Violencia. Stjórnarsamstarf frjálslyndra og íhaldsmanna batt endi á þessi átök en brátt hófst skæruhernaður við ýmsa vopnaða hópa og glæpasamtök sem hefur haldið áfram til þessa dags.

Kólumbía er eitt af sautján löndum heims með mesta líffjölbreytni. Landið nær yfir regnskóga á Amasónsvæðinu, Andesfjöll og hitabeltisgresjur. Kólumbía er þriðja fjölmennasta ríki Rómönsku Ameríku og þriðja stærsta hagkerfið á eftir Brasilíu og Mexíkó. Flestar stærstu borgir landsins, eins og Bógóta og Medellín, standa á hásléttum í Andesfjöllum. Helstu útflutningsafurðir Kólumbíu eru olía og kol, en landið er líka þekkt fyrir framleiðslu smaragða, kaffis og pappírs meðal annars.

Ninja

Ninja eða shinobi (忍者 bókst. „Sá sem læðist“) á einkum við sögulega stríðsmenn í Japan til forna sem voru sérþjálfaðir í hinu japanska ninjutsu, með það að megin markmiði að skapa hljóðlausa, ósýnilega og banvæna launmorðingja. Ninjan var virk á mismunandi sviðum óhefðbundins stríðsrekstrar, þar sem sérsvið hennar var oftast launmorð, umsátur, njósnir, hryðju- og skemmdarverk. Ninjan líkt og samúræinn fylgdi sínum eigin siðareglum sem kallaðar voru ninpo. Þó ninja þyki almennt hafa verið sérstök tegund af sérhæfðum launmorðingjum þá samkvæmt nútíma iðkendum budo nin-juitsu, var sérgrein ninjunar ekki launmorð, heldur njósnir.

Það er almennt trúað því að hin forna ninja hafi verið kotbændur, sem bannað var með lögum að nema sverðlistir samúræjans vegna erfðastéttskiptingar samfélagsins. Mönnum greinir þó þar á, þar sem heimildir fyrir því að ninjur hafi einnig verið samúræjar starfandi sem njósnarar, hafa fundist.

Ninjan hefur birst í fleiri kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, bókum og tímaritum en nokkur annar sögulegur stríðsmaður.

Phnom Penh

Phnom Penh (á khmer ភ្នំពេញ, einnig umskrifað sem Phnum Pénh) er höfuðborg Kambódíu og einnig langstærsta borg landsins. Borgin hefur verið aðsetur stjórnsýslu og miðstöð efnahagslífs allt frá því að Frakkar lögðu landið undir sig í lok nítjándu aldar.

Íbúatala Phnom Penh er um 1.501.725 samkvæmt manntali 2012. Borgin er byggð þar sem Mekong-fljótið mætir Tonle Sap-fljótinu og þar sem Bassac-fljótið skilur við meginkvísl Mekong. Í borginni er alþjóðlegur flugvöllur og fremur stór höfn. Mekong-fljótið er skipgengt að stórum hluta og geta allt að 8000 tonna skip siglt til Phnom Penh á rigningartímanum og allt að 5000 tonna skip á þurrkatímanum.

Rússland

Rússneska sambandsríkið (rússneska: Росси́йская Федера́ция, umritun: Rossíjskaja federatsíja) eða Rússland (rússneska: Росси́я, umritun: Rossíja) er víðfemt land í Austur-Evrópu og Norður-Asíu. Landið er það langstærsta að flatarmáli í heiminum, það er nánast tvöfalt stærra en Kanada sem er næststærst. Landið er einnig það áttunda fjölmennasta í heiminum.

Landið var áður mikilvægasta sambandslýðveldi Sovétríkjanna en hlaut sjálfstæði eftir upplausn þeirra árið 1991. Mest af landsvæði, mannfjölda og iðnaðargetu gömlu Sovétríkjanna var í Rússlandi og eftir upplausnina var það Rússland sem tók við þeirra stöðu í heiminum. Þó ekki sé það lengur sama risaveldið og áður, þá er Rússland enn þá stór þátttakandi í alþjóðastjórnmálum.

Saga Ítalíu

Saga Ítalíu er saga þess fólks sem byggt hefur Appennínaskagann sunnan Alpafjalla frá örófi alda, þótt nútímaríkið Ítalía hafi fyrst orðið til þegar flestöll ríkin á skaganum sameinuðust í eitt konungsríki árið 1861. Saga Ítalíu er því saga þess svæðis sem kallað hefur verið Ítalía frá því í fornöld og sem byggt hefur verið ýmsum þjóðum með ólíka menningu og tungumál, þótt saga þeirra sé að meira eða minna leyti samtvinnuð. Lengst af skiptist þetta svæði milli nokkurra ríkja sem ýmist voru sjálfstæð eða undir yfirráðum stærri ríkja.

Á ýmsum tímum hefur saga Ítalíu haft mikil áhrif á sögu Evrópu og heimsins alls. Þar var miðja Rómaveldis sem þandist langt út fyrir Appennínaskagann á síðustu öldunum fyrir Krists burð, allt þar til Vestrómverska ríkið leystist upp vegna árása Germana á 5. öld, og þar hefur miðstöð kristinnar kirkju og síðar kaþólskrar trúar verið frá því á 2. öld til dagsins í dag. Á Ítalíu kom ítalska endurreisnin upp á 14. öld sem markar skil milli miðalda og nýaldar í sögu Evrópu.

Svartfjallaland

Svartfjallaland, einnig þekkt sem Montenegró

(Crna Gora á svartfellsku) er land í suðaustanverðri Evrópu á Balkanskaga. Landið á strönd að Adríahafi og landamæri að Króatíu í vestri, Bosníu og Hersegóvínu í norðvestri, Serbíu og Kosóvó í austri og Albaníu í suðri. Svartfjallaland var hluti Júgóslavíu mestalla 20. öldina en hafði verið sjálfstætt áður. Eftir upplausn Júgóslavíu á 10. áratug 20. aldar voru einungis Svartfjallaland og Serbía eftir í ríkjasambandi, fyrst undir nafni Júgóslavíu en síðar sem Serbía og Svartfjallaland. Svartfellingar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 21. maí 2006 að rjúfa sambandið við Serba og var sjálfstæði formlega lýst yfir 3. júní sama ár.

Á 9. öld voru þrjú slavnesk furstadæmi þar sem Svartfjallaland er nú: Duklja í suðri, Travunia í vestri og Rascia í norðri. Árið 1042 leiddi Stefan Vojislav uppreisn sem varð til þess að Vojislavljević-ættin náði völdum í Duklja. Duklja náði hátindi sínum á síðari hluta 11. aldar en á 13. öld var farið að nota nafnið Zeta yfir ríkið í stað Duklja. Á 14. öld ríktu fyrst Balšić-ætt og síðan Crnojević-ætt yfir Zetu. Á 15. öld var farið að nota heitið Crna Gora (feneyska: Monte Negro) yfir landið. Eftir að Crnojević-ætt leið undir lok ríktu biskupar yfir landinu til 1696 og síðan Petrović-Njegoš-ætt til 1918. Frá 1918 var landið hluti af Júgóslavíu en varð aftur sjálfstætt ríki árið 2006.

Svartfjallaland er aðili að Evrópuráðinu, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Alþjóðaviðskiptastofnuninni og Fríverslunarsamningi Mið-Evrópu. Landið á í formlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið og hlaut aðild að Atlantshafsbandalaginu árið 2017.

Þreytistríð

Þreytistríð eru langvinn vopnuð átök þar sem annar aðilinn, oftast sá sem á í vök að verjast, reynir að lengja átökin sem mest í þeim tilgangi að þreyta óvininn þ.a. baráttuþrek hans þverri eða að gera honum væntnlegan sigur dýrkeyptan (pyrrosarsigur). Niðurstaða þreytistríðs er yfirleitt mikið mannfall á báða bóga, gífurleg eyðileggining mannvirkja og lands, pólitísk upplausn og jafnvel efnahagshrun. „Sigur“ í þreytistríði er því dýru verði keyptur og deila má um hvað hugtakið sigur merkir í þeim skilningi. Umsátur er ein tegund þreytistríðs, en þekktast er líklega umsátur rómverja um Masadavirkið í Júdeu (nú Ísrael) árið 72, sem lauk með því að um 1000 virkisverja sviptu sig lífi.

Nútímaher forðast þreytistríð því hann er illa búinn efnahagslega og politískt undir langvinn átök. Því er reynt af fremsta megni að ná skjótum hernaðarsigri á vígvelli og knýja þannig óvininn til að leggja niður vopn. Hætt er við að þegar átökum formlegra herja lýkur með uppgjöf annars hersins taki við skæruhernaður, sem getur breytt átökum í þreytistríð.

Dæmi um stríð sem á ákveðnu tímabili má flokka sem þreytistríð: Fyrri heimsstyrjöldin, Víetnamstríðið, stríð Íraks og Írans og hugsanlega stríðið í Írak.

Á öðrum tungumálum

This page is based on a Wikipedia article written by authors (here).
Text is available under the CC BY-SA 3.0 license; additional terms may apply.
Images, videos and audio are available under their respective licenses.