Ríki

Þessi grein fjallar um stjórnmálahugtakið ríki. Á aðgreiningarsíðunni er hægt að sjá aðrar greinar um aðrar merkingar orðsins „ríki”.

Ríki eru stjórnmálalegar einingar ábúenda tiltekinna landsvæða sem eru fullvalda. Skilgreining Max Webers um að ríki hafi einokun á lögmætri valdbeitingu á afmörkuðu landsvæði er viðtekin. Innlent fullveldi hefur ríki ef íbúar þess líta á það sem lögmætt. Alþjóðlegt fullveldi hefur ríki hljóti það einnig slíka viðurkenningu frá samfélagi þjóðanna.

Ríki getur einnig átt við tvö eða fleiri ríki sem saman mynda sambandsríki sem hefur miðstýrða ríkisstjórn yfir sér. Dæmi um slík sambandsríki eru Bandaríkin, Brasilía, Indland og Þýskaland. Hefð er fyrir því að kalla ríki Bandaríkjanna fylki.

Leviathan by Thomas Hobbes
Í bók sinni Leviathan setti Thomas Hobbes fram rök fyrir tilgang ríkisins.

Saga

Ríkjaskipulagið sem nú er útbreitt um allan heim þróaðist á löngum tíma. Almennt er nokkur sátt um að með Vestfalíufriðnum við lok Þrjátíu ára stríðsins árið 1648 megi marka upphaf nútímalegs ríkjaskipulags. Þá var gerður sáttmáli um að ráðamenn eins lands myndu ekki hlutast til um málefni annars heldur virða landamæri þess, eins konar fullveldisregla. Á næstu öldum fjölgaði í hópi ríkja, sér í lagi í Evrópu.

Eftir fyrri heimsstyrjöldina var Þjóðabandalagið stofnað, með það að augnamiði að sameina hagsmuni ríkja og tryggja að ófriður endurtæki sig ekki. Þá var samþykkt að þjóðir heims hefðu sjálfsákvörðunarrétt. Þjóðabandalaginu tókst ekki ætlunarverk sitt, óeining ríkti um starf þess. Eftir seinni heimsstyrjöldina voru Sameinuðu þjóðirnar stofnaðar. Nýlenduveldin urðu þá flest að láta af nýlendustefnu sinni og hlutu margar þjóðir í Afríku og Asíu sjálfstæði á næstu árum og áratugum.

Tengt efni

Bandaríkin

Bandaríkin (eða Bandaríki Norður-Ameríku, skammstafað BNA) eru sambandslýðveldi sem er næststærsta ríki Norður-Ameríku að flatarmáli (9,83 milljónir km²) og jafnframt það fjölmennasta með yfir 324 milljónir íbúa (árið 2017). Þau eru ennfremur fjórða stærsta land heims og það þriðja fjölmennasta. Þau teygja sig milli Atlantshafs og Kyrrahafs og eiga landamæri að Kanada í norðri og Mexíkó í suðri. Bandaríkin samanstanda af 50 fylkjum sem njóta nokkurs sjálfræðis í eigin efnum og hafa eigin löggjöf sem þó má ekki stangast á við stjórnarskrá Bandaríkjanna. Auk sambandsríkjanna hafa Bandaríkin lögsögu yfir ýmsum hjálendum víða um heim.

Bandaríkin rekja uppruna sinn til sjálfstæðisyfirlýsingarinnar frá 4. júlí 1776 þegar þrettán breskar nýlendur lýstu yfir eigin frelsi og sjálfstæði frá Breska heimsveldinu. Nýlendurnar höfðu betur í Frelsisstríði Bandaríkjanna en það var fyrsta nýlendustríðið þar sem nýlendan hafði betur en herraþjóðin. Nýlendurnar samþykktu sameiginlega stjórnarskrá í Philadelphiu þann 17. september 1787. Stjórnarskráin gerði nýlendurnar þrettán að einu lýðveldi.

Á 20. öldinni tóku Bandaríkin forystu í heiminum hvað varðar efnahagsleg, pólitísk, hernaðarleg og menningarleg áhrif. Bandaríska hagkerfið er það stærsta í heimi en verg landsframleiðsla Bandaríkjanna árið 2006 var 13 billjónir bandaríkjadala, það er að segja um það bil fjórðungur af vergri landframleiðslu alls heimsins. Evrópusambandið er stærra hagkerfi en Bandaríkin en er ekki ein þjóð.

Dýr

Dýr (fræðiheiti: Animalia) eru hópur lífvera sem myndar sérstakt ríki dýraríkið. Dýr eru ófrumbjarga fjölfrumungar, færir um hreyfingu og gerð úr frumum sem hafa ekki frumuveggi (dýrsfrumum). Til eru meira en milljón tegundir af dýrum í um 35 fylkingum. Vöxtur Dýra fer venjulega fram í öllum líkamshlutum og hættir venjulega við kynþroska. Dýr nærast á öðrum lífverum, til dæmis plöntum, öðrum dýrum eða dýraleifum.

Flestar þekktar fylkingar dýra komu fram á sjónarsviðið í Kambríumsprengingunni fyrir um 542 milljónum ára.

Fylking (flokkunarfræði)

Fylking er heiti flokka lífvera og er fylking næsta stig neðan við ríki. Á latínu nefnist fylking, phylum þegar um dýr er að ræða en divisio séu plöntur til umfjöllunar. Byggist sú skipting á úreltri skiptingu lífheimsins í tvö ríki, plöntur og dýr. Dæmi um fylkingu er asksveppir (Ascomycota) sem ásamt kólfsveppum (Basidiomycota) og fjórum öðrum fylkingum mynda svepparíkið (Fungi).

Heilaga rómverska ríkið

Heilaga rómverska ríkið (þýska Heiliges Römisches Reich, Ítalska Sacro Romano Impero, Latína Sacrum Romanum Imperium) er formlegt heiti á þýska keisaraveldinu. Ríkið var stjórnarsamband hertogadæma og furstadæma á landsvæði núverandi Þýskalands og að nokkru utan þess svæðis (s.s. Austurríki, Sviss, Norður-Ítalía). Heilaga rómverska ríkið myndaðist við Verdun-samninginn 843 og var lagt niður 1806 á tímum Napóleonstríðanna, er Austurríki varð til sem sérstakt keisaradæmi og Þýska bandalagið (Rínarsambandið) var stofnað.

Höfuðborg

Höfuðborg er sú borg í gefnu ríki þar sem stjórnvöld ríkisins hafa oftast aðsetur, dæmi: Osló. Einnig er talað um höfuðborgir fylkja í sambandsríkjum.

Indónesía

Indónesía er ríki í Suðaustur-Asíu sem samanstendur af 17.508 eyjum í Malajaeyjaklasanum. Það er stærsta ríki heims sem telst til eyjaklasa og fjórða fjölmennasta ríki heims. Indónesía er jafnframt það ríki þar sem flestir múslimar búa. Indónesía er þó ekki íslamskt lýðveldi. Höfuðborg landsins er Djakarta. Landamæri þess liggja að Papúu-Nýju Gíneu, Austur-Tímor og Malasíu. Önnur nágrannaríki eru Singapúr, Filippseyjar, Ástralía og Andaman- og Níkóbareyjar sem tilheyra Indlandi.

Landið eins og það er í dag varð til þegar nýlendur Hollendinga í Suðaustur-Asíu, Hollensku Austur-Indíur, fengu sjálfstæði á fimmta áratug tuttugustu aldar. Árið 1975 tóku Indónesar yfir austurhluta eyjunnar Tímor, en vesturhluti eyjunnar var fyrir hluti af Indónesíu. Austur-Tímor hlaut svo sjálfstæði á ný á árunum 1999 til 2002. Í Indónesíu búa mörg þjóðarbrot sem sum hver berjast fyrir sjálfstæði, svo sem í Aceh og Papúu (áður Irian Jaya). Þessi staðreynd endurspeglast í kjörorði landsins Sameining í fjölbreytni.

Jurt

Jurtir eða plöntur eru stór hópur lífvera sem telur um 300.000 tegundir. Til jurta teljast meðal annars tré, blómplöntur, grös og burknar. Aristóteles skipti öllum lífverum í jurtir og dýr. Þetta urðu svo jurtaríki (Vegetabilia og síðar Plantae) og dýraríki (Animalia) hjá Carl von Linné. Síðar kom í ljós að ríkið innihélt nokkra óskylda hópa þannig að sveppir og sumar tegundir þörunga voru flutt í sérstök ríki.

Knútur ríki

Knútur ríki (danska: Knud den Store; fornenska: Cnut se Micela; norræna: Knútr inn ríki; enska: Cnut the Great; um 995 – 12. nóvember 1035) var sonur Sveins tjúguskeggs, konungur Danmerkur frá 1018 til 1035, konungur Englands frá 1016 til 1035 og konungur Noregs frá 1028 til 1035. Móðir Knúts var Gunnhildur af Póllandi, fyrri kona Sveins.

Knútur fór í herferð til Englands með föður sínum árið 1013 og þar lést Sveinn árið eftir. Her Dana valdi Knút konung Englands en eldri bróðir hans, Haraldur 2., var tekinn til konungs í Danmörku. Enska ríkisráðið, sem hafði kjörið Svein konung eftir sigra hans árið áður, sætti sig ekki við Knút og kallaði þess í stað Aðalráð ráðlausa, fyrrverandi Englandskonung, heim úr útlegð. Knútur neyddist til að flýja til Danmerkur. Árið 1015 sneri hann þó aftur með fjölmennt lið. Hann var hylltur konungur í nokkrum héröðum. Aðalráður dó vorið 1016 en sonur hans, Játmundur járnsíða, gerði kröfu til valda. Þeir Játmundur og Knútur áttu í átökum um skeið en í október 1016 sömdu þeir um að skipta landinu og fékk Knútur allt land fyrir norðan ána Thames. Játmundur lést þó mánuði síðar og í janúar 1017 var Knútur tekinn til konungs yfir öllu Englandi. Hann gekk að eiga Emmu, ekkju Aðalráðs.

Haraldur bróðir Knúts dó 1018 og hann sneri þá heim og var krýndur konungur Danmerkur. Árið 1028 lagði hann Noreg undir sig og setti barnungan son sinn, Svein, og móður hans, frilluna Alfífu, til að stýra ríkinu. Norðmenn gerðu þó uppreisn strax eftir lát Knúts, hröktu þau úr landi og fengu sjálfstæði að nýju.

Alþekkt er sagan af Knúti þegar hann á að hafa sest í flæðarmálið og bannað öldunum að skola fætur sína og er hún oft túlkuð sem dæmi um mikilmennskubrjálæði eða jafnvel geðsýki konungs en önnur túlkun er að hann hafi viljað sýna þegnum sínum að enginn væri almáttugur nema Guð og ekki einu sinni hinn voldugasti konungur hefði hið minnsta yfir náttúruöflunum að segja.

Börn Knúts og Emmu voru Hörða-Knútur og Gunnhildur, sem giftist þýska keisaranum Hinrik 3. Með Alfífu frillu sinni átti Knútur synina Svein Alfífuson og Harald hérafót.

Kína

Alþýðulýðveldið Kína (kínverska: 中国; pinyin: Zhōngguó) nær yfir megnið af því svæði sem í menningarlegu, landfræðilegu og sögulegu samhengi hefur verið kallað Kína. Allt frá stofnun þess árið 1949 hefur ríkið verið undir stjórn Kommúnistaflokks Kína. Það er fjölmennasta ríki veraldar með yfir 1,4 milljarða íbúa sem flestir teljast til hankínverja. Það er stærsta ríki Austur-Asíu að flatarmáli og það fjórða stærsta í heiminum. Ríkið á landamæri að fjórtán ríkjum: Afganistan, Bútan, Indlandi, Kasakstan, Kirgistan, Laos, Mongólíu, Búrma, Nepal, Norður-Kóreu, Pakistan, Rússlandi, Tadsjikistan og Víetnam. Höfuðborgin er Beijing.

Alþýðulýðveldið gerir tilkall til Taívan og nærliggjandi eyja sem í raun lúta þó stjórn Lýðveldisins Kína. Hugtakið „meginland Kína“ er stundum notað til að lýsa Alþýðulýðveldinu og þá eru Hong Kong og Maká yfirleitt ekki talin með sökum sérstöðu þeirra. Einnig gengur þessi hluti Kína undir nafninu „Rauða Kína“, yfirleitt á meðal andstæðinga eða gagnrýnenda þess. Þar sem Alþýðulýðveldið ræður yfir yfirgnæfandi meirihluta sögulegs landsvæðis Kínverja er það í daglegu tali yfirleitt einfaldlega kallað Kína og Lýðveldið Kína einfaldlega Taívan.

Í Kína var það opinber stefna að takmarka fjölda fæddra barna við eitt barn fyrir hverja fjölskyldu til þess að draga úr fólksfjölgun. Talið er að um 400 milljónir færri hafi fæðst en ella vegna stefnunnar. Létt var á stefnunni í lok ársins 2015 og hverri fjölskyldu leyft að eiga tvö börn.

New York-fylki

New York er ríki á austurströnd Bandaríkjanna. Ríkið liggur að Pennsylvaníu og New Jersey í suðri, Connecticut, Massachusetts og Vermont í austri, Kanada og Ontario-vatni í norðri og Kanada og Erie-vatni í vestri.

Höfuðborg ríkisins er Albany en stærsta borgin er New York. Hún er jafnframt fjölmennasta borg Bandaríkjanna. Aðrar mikilvægar borgir eru Buffalo, Rochester, Syracuse, Ithaca, Yonkers, Binghamton og White Plains. Í ríkinu búa rúmlega 19 milljónir manna (2010).

Opinbert tungumál

Opinbert tungumál er tungumál sem sett er á sérstakan stall innan ríkja, fylkja eða sjálfsstjórnarsvæða. Það er yfirleitt málið sem notað er í löggjafarþingum viðkomandi svæðis en lög margra ríkja fara þó fram á það að opinber gögn séu þýdd á önnur mál einnig.

Um helmingur ríkja í heiminum hafa opinbert tungumál. Sum hafa aðeins eitt opinbert tungumál (t.d. Litháen, Þýskaland og Albanía) og sum hafa fleiri en eitt eins og Hvíta-Rússland, Belgía, Kanada, Finnland og Suður-Afríka.

Í löndum, eins og Írak, Ítalíu og Spáni, eru opinber tungumál en í sumum héruðum þessara landa eru leyfð önnur tungumál. Önnur lönd, eins og Bandaríkin hafa ekkert opinbert tungumál en nokkur ríki Bandaríkjanna hafa opinbert tungumál. Að lokum má nefna lönd eins og Ástralíu, Lúxemborg og Svíþjóð sem hafa ekkert opinbert tungumál, ekki er heldur getið um opinbert tungumál í stjórnarskrá Íslands.

Afleiðing nýlendustefnu í Afríku og á Filippseyjum er sú að opinbert tungumál (franska eða enska) er ekki það sama og talað er af fólkinu í landinu. Á móti má nefna Írland þar sem írska hefur verið skilgreind sem opinbert tungumál sökum þjóðernishyggju en flest allir tala ensku sem er að vísu annað opinbert tungumál Írlands.

Pakistan

Íslamska lýðveldið Pakistan (Úrdú: اسلامی جمہوریۂ پاکستان islāmī jamhūriya i pākistān) er land í Suður-Asíu. Það er sjötta fjölmennasta ríki heims og næstfjölmennasta ríki heims þar sem flestir íbúar eru múslimar. Landið liggur að Indlandshafi í suðri, Íran í vestri, Afganistan í norðvestri, Kína í norðri og Indlandi í austri. Landið liggur á mörkum þriggja heimshluta: Vestur-Asíu, Mið-Asíu og Suður-Asíu. Landið á strönd að Arabíuhafi og Ómanflóa í suðri. Hin mjóa Vakhanræma, sem tilheyrir Afganistan, skilur á milli Pakistan og Tadsjikistan.

Indusdalsmenningin náði yfir hluta þess svæðis sem Pakistan telur í fornöld. Landið hefur sögulega verið hluti af ýmsum stórum ríkjum eins og Persaveldi, Mógúlveldinu og Breska heimsveldinu. Þegar barátta hófst fyrir sjálfstæði Breska Indlands barðist Pakistanhreyfingin undir stjórn Muhammad Ali Jinnah fyrir því að norðvestur- og austurhéruðin, þar sem meirihluti íbúa var múslimar, yrðu sérstakt ríki. Austurhéruðin mynduðu Austur-Pakistan þar til þau fengu sjálfstæði sem Bangladess árið 1971 eftir blóðuga sjálfstæðisbaráttu. Saga Pakistan hefur einkennst af pólitískum óstöðugleika og átökum við Indland yfir umdeildum svæðum í og við norðausturhluta landsins.

Pakistan er sambandslýðveldi myndað úr fjórum fylkjum og fjórum alríkishéruðum. Landið er menningarlega fjölbreytt og þar eru töluð yfir sextíu tungumál. Þrír fjórðu íbúa tala úrdú sem er eitt af tveimur opinberum tungumálum landsins. Pakistan er eina múslimaríki heims sem býr yfir kjarnorkuvopnum. Landið er aðili að Breska samveldinu.

Pólland

Pólland (pólska Polska), að fullu nafni Lýðveldið Pólland (pólska Rzeczpospolita Polska, kassúbíska Pòlskô Repùblika, silesíska Polsko Republika), er land í Evrópu. Það á landamæri að Þýskalandi í vestri, Tékklandi og Slóvakíu í suðri, Úkraínu, Hvíta-Rússlandi og Litháen í austri og Rússlandi í norðri. Landið á strönd að Eystrasalti og renna þar árnar Odra og Visla í sjó. Pólland er 312.679 ferkílómetrar að flatarmáli og er það níunda stærsta land Evrópu. Íbúar landsins eru rúmlega 38 milljónir og er það sjötta fjölmennasta ríki Evrópusambandsins.

Ríki (flokkunarfræði)

Ríki er yfirflokkur vísindalegra flokka sem notaðir eru til að flokka lífverur. Ríki eru sums staðar notuð sem yfirflokkur fyrir annað en lífverur vegna hliðstæðu milli flokkunarkerfa. Sem dæmi má nefna veiruríkið (veirur eru ekki lífverur en flokkaðar á svipaðan hátt) og steinaríkið. Ríkin eru efsti (eða næstefsti) flokkurinn í flokkunarfræðinni.

Í bók sinni Systema naturae sem kom út árið 1735 gerði Carl von Linné greinarmun á tveimur ríkjum lifandi vera, dýraríkinu og jurtaríkinu. Hann fjallaði raunar líka um steindir og setti þær í sérstakt steinaríki (Mineralia). Linné skipti hverju ríki í flokka sem síðar urðu að fylkingum hjá dýrum og skiptingum hjá jurtum.

Þegar einfrumungar uppgötvuðust var þeim fyrst skipt á milli ríkjanna tveggja þannig að hreyfanleg form lentu í frumdýraríkinu (Protozoa) en litir þörungar og bakteríur í jurtaríkinu sem þelplöntur (Thallophyta) og frumplöntur (Protophyta). Erfitt reyndist að flokka nokkurn fjölda einfrumunga eða þá að þeir voru flokkaðir á ólíkan hátt af ólíkum höfundum; til dæmis hreyfanlegir dílþörungar og amöbulík Mycetozoa. Vegna þessa stakk Ernst Haeckel upp á þriðja ríkinu, frumveruríkinu (Protista), fyrir þessar lífverur.

Seildýr

Seildýr (fræðiheiti Chordata) eru fylking dýra sem telur meðal annars hryggdýr og nokkra skylda hryggleysingja.

Stjórnmál

Stjórnmál er ferli bindandi ákvarðanatöku fyrir hóp af fólki. Algengast er að tala um stjórnmál í sambandi við ákvarðanatöku fyrir ríki og sveitarfélög, en hugtakið getur einnig átt við um stjórnun fyrirtækja, og félagasamtaka.

Í lýðræðisríkjum sem byggja á fulltrúalýðræði eru stjórnmálamenn kosnir til valda. Þeim er falið umboð til ákvarðanatöku fyrir hóp fólks. Harold Lasswell, þekktur bandarískur stjórnmálafræðingur á fyrri hluta 20. aldarinnar, sagði að stjórnmál snerust um „hver fengi hvað, hvenær og hvernig”.Í hnattrænu samhengi eru ríki grunneiningar stjórnmála. Þýski félagsfræðingurinn Max Weber skilgreindi stjórnmál sem „viðleitni til að eiga hlut í völdum eða til að hafa áhrif á skiptingu valda, hvort sem er milli ríkja eða milli hópa manna innan sama ríkis.” Max Weber er einnig höfundurinn að einni víðteknustu skilgreiningu á ríkinu en það er sú félagslega stofnun sem hefur réttmætan og viðurkenndan einkarétt á beitingu líkamlegs ofbeldis á ákveðnu landssvæði. Hér erum við því aftur komin að lykilhugtökunum ríki og vald.

Ættkvísl (flokkunarfræði)

Ættkvísl er hugtak sem er notað við flokkun lífvera. Ættkvísl inniheldur eina eða fleiri tegundir. Tegundir innan sömu ættkvíslar eru líkari hver annarri að forminu til en tegundum annarra ættkvísla. Heiti ættkvíslarinnar er fyrra heitið í tvínafnakerfinu, en það seinna er tegundarheitið. Ættkvísl í einu ríki getur fengið sama nafn og ættkvísl annars ríkis.

Ættkvíslir tilheyra ættum sem er næsta skipting fyrir ofan. Sumum ættkvíslum er skipt í undirættkvíslir.

Ítalía

„Ítalía“ getur einnig átt við veitingastaðinn Ítalíu.Ítalía eða Lýðveldið Ítalía er land í Suður-Evrópu. Landið liggur aðallega á Appenínaskaga sem gengur til suðausturs út í Miðjarðarhafið og minnir í lögun dálítið á stígvél. Að norðan nær landið allt upp í Alpafjöll. Lönd sem liggja að Ítalíu eru Frakkland, Sviss, Austurríki og Slóvenía. Einnig umlykur Ítalía tvö sjálfstæð ríki, San Marínó (sem er nálægt austurströndinni og Rímíní) og Vatíkanið eða Páfagarð, sem er hluti af Róm. Rómaborg er höfuðborgin og stærsta borgin. Hún er ein af söguríkustu og merkustu borgum Evrópu og er stundum kölluð „borgin eilífa“. Aðrar stórar borgir eru til dæmis Mílanó, Flórens, Genúa, Tórínó, Feneyjar, Veróna, Bologna, Rímíní, Napólí og Palermó. Gjaldmiðillinn er evra síðan 2002 en var áður líra. Íbúar eru um 61 milljónir og landið er þrisvar sinnum stærra en Ísland.

Þjóðsöngur

Þjóðsöngur er sönglag sem ríkisstjórn og almenningur viðurkennir sem formlegan söng þjóðarinnar. Á 19. og 20. öld, í kjölfar ris þjóðernishyggju, tóku flest ríki heimsins upp þjóðsöngva. Lofsöngur („Ó, Guð vors lands“), við sálm eftir Matthías Jochumsson, er þjóðsöngur Íslendinga.

Á öðrum tungumálum

This page is based on a Wikipedia article written by authors (here).
Text is available under the CC BY-SA 3.0 license; additional terms may apply.
Images, videos and audio are available under their respective licenses.