Prestakall

Prestakall (áður kallað brauð) landfræðilegt þjónustusvæði presta þjóðkirkjunnar, sem nær til breytilegs fjölda sókna. Kirkjuþing setur starfsreglur um skipan prestakalla. Skylt er að hafa sóknarprest í hverju prestakalli en fleiri prestar geta verið starfandi í einu prestakalli.

Tenglar

Dómkirkjan í Reykjavík

Dómkirkjan í Reykjavík er embættiskirkja biskups Íslands og þar með höfuðkirkja hinnar Lúthersku þjóðkirkju Íslands sem og sóknarkirkja nokkurra elstu hverfa Reykjavíkur. Hún er staðsett við Austurvöll, og við hlið hennar er Alþingishúsið.

Frá endurreisn Alþingis 1845 hefur sú hefð haldist að þingsetning hefst með messu í Dómkirkjunni og þaðan leiðir dómkirkjuprestur svo þingmenn til Alþingis.

Efri-Núpur

65°7.85′N 20°44.68′V

Efri-Núpur eða Efrinúpur er bær og kirkjustaður í Núpsdal, sem er einn Miðfjarðardala inn af Miðfirði í Vestur-Húnavatnssýslu.Efri-Núpur var áður í þjóðbraut því þaðan var gjarna farið upp á Arnarvatnsheiði og suður til Borgarfjarðardala og var þaðan talinn 10 klukkutíma gangur að efstu bæjum í Borgarfirði. Var algengt að ferðamenn tækju sér gistingu á Efra-Núpi, annaðhvort þegar þeir komu ofan af heiðinni eða áður en þeir lögðu á hana.Kirkja hefur verið á Efra-Núpi frá fornri tíð og var þar sérstakt prestakall fram yfir siðaskipti en eftir það útkirkja frá Staðarbakka. Nú er kirkjunni þjónað frá Melstað. Núverandi kirkja var vígð 1961 og kom hún í stað gamallar timburkirkju sem þá var rifin. Enn er þar kirkjuklukka frá 1510.Í kirkjugarðinum er leiði skáldkonunnar Vatnsenda-Rósu. Hún dó á Efra-Núpi 28. september 1855 en þar hafði hún tekið sér gistingu á heimleið úr kaupavinnu í Húnaþingi. Húnvetnskar konur komu fyrir minnismerki á leiði hennar árið 1965 og kemur árlega fjöldi gesta að Efra-Núpi til að heimsækja leiði skáldkonunnar.

Fossvogskirkja

Fossvogskirkja er grafarkirkja við Fossvogskirkjugarð norðan megin við Fossvoginn við rætur Öskjuhlíðar. Hún var teiknuð af Sigurði Guðmundssyni og vígð 31. júlí 1948.

Garðakirkja

Garðakirkja er kirkja á Álftanesi sem tilheyrir Garðaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Kirkjan stendur í Görðum í Garðabæ og er með elstu kirkjustöðum á Íslandi.

Garðakirkju er fyrst getið Vilkins-máldögum árið 1397.

Hallgrímskirkja

Fyrir kirkjuna í Hvalfirði, sjá Hallgrímskirkja í Saurbæ

Hallgrímskirkja er 74,5 metra há kirkja á Skólavörðuholti í Reykjavík. Hallgrímskirkja sést víða að og er þekkt kennileiti í Reykjavík. Hún er næsthæsta óstagaða mannvirki Íslands (langbylgjumastrið á Gufuskálum er 412 metra hátt). Kirkjan var reist á árunum 1945–1986 og kennd við sr. Hallgrím Pétursson sálmaskáld. Arkítekt kirkjunnar var Guðjón Samúelsson.

Í kirkjunni er 5275 pípu orgel sem byggt var árið 1992. Orgelið er 15 metrar á hæð og vegur um 25 tonn.

Hof (Skagaströnd)

Hof er bær, kirkjustaður og áður prestssetur utarlega á Skagaströnd. Þar var áður sérstakt prestakall sem náði yfir ytri hluta strandarinnar og bæina yst á Skaga. Útkirkja var á Spákonufelli. Hofsprestakall var lagt niður 1907 og sameinað Höskuldsstaðaprestakalli. Nú tilheyrir Hofskirkja Skagastrandarprestakalli.

Á Hofi eru gamlar rústir sem kallast Goðatóftir og er sagt að kunni að vera af hofi. Engar sagnir eru þó til um blót þar eða goða og raunar er ekkert vitað um landnám og búsetu á ströndinni til forna því að eyða er í Landnámabók á milli þess sem sagt er frá landnámi Holta á Holtastöðum í Langadal og landnámi Hólmgöngu-Mána, sem náði að Fossá, norðan við Hof.

Skammt norðan við Hof er Króksbjarg og nær út að Kálfshamarsvík, um 10 kílómetra leið, undir ýmsum nöfnum. Björgin eru 40-50 metra há og liggur vegurinn víðast á bjargbrúninni.

Hof þótti fremur rýrt brauð og ekki eftirsóknarvert og voru flestir prestar þar aðeins fáein ár, á meðan þeir biðu eftir að fá betra embætti. Einn þeirra sem lengst sat þar var séra Árni Illugason, sem var prestur á Hofi 1796-1825. Hafði hann áður beðið í 10 ár eftir að fá embætti og síðan verið í átta ár prestur í Grímsey, sem var enn verra brauð en Hof. Sonur hans var Jón Árnason þjóðsagnasafnari, sem fæddist á Hofi árið 1819.

Núverandi Hofskirkja er timburkirkja, múrhúðuð, reist árið 1876. Hún er turnlaus og ekkert söngloft í henni. Í kirkjunni er gömul altaristafla og ævagamall prédikunarstóll.

Jón Arason

„Jón Arason“ getur einnig átt við Jón Arason í Vatnsfirði.

Jón Arason (1484 – 7. nóvember 1550) Hólabiskup var síðasti kaþólski biskupinn á Íslandi fyrir siðaskipti. Hann var einnig skáld og athafnamaður og flutti til Hóla fyrstu prentsmiðjuna á Íslandi. Hann var tekinn af lífi ásamt tveimur sonum sínum í Skálholti 1550.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja er kirkja í Höfnum í Reykjanesbæ. Kirkjan var byggð 1860-1861. Hún er í Grindavíkurprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Kirkjan kostaði 300 kýrverð. Vilhjálmur Kr. Hákonarson lét byggja kirkjuna á sinn kostnað. Kirkjan er timburkirkja bikuð að utan með hvítum gluggum.

Langholtskirkja

Langholtskirkja er í Langholtsprestakalli en það prestakall varð til 24. janúar 1952 en gengu í gildi lög sem skiptu nokkrum söfnuðum í Reykjavík í smærri söfnuði og var Laugarnesprestakalli skipt upp í Laugarnes- og Langholtsprestaköll.Fyrsti prestur safnaðarins var séra Árelíus Níelsson. Fyrsta skóflustunga að kirkjubyggingu var tekin 2. september 1956 en kirkjan var ekki vígð fyrr en árið 16. september 1984. Kirkjan er teiknuð af Hörður Bjarnason þáverandi húsameistari ríkisins.

Harðar deilur voru um árabil milli Jóns Stefánssonar organista og Flóka Kristinssonar sóknarprests í Langholtskirkju. Deilurnar hófust þegar söfnun á af pípuorgeli fór á stað árið 1992 en staðsetningu þess hafði áhrif á hvernig prestur sneri við altarisþjónustu.

Laugarneskirkja

Laugarneskirkja er í Laugarnesprestakalli í Reykjavíkurprófastdæmi. Hún var vígð 18. desember 1949. Kirkjan var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni.

Neskirkja

Neskirkja er kirkja Nessóknar í Reykjavík og stendur við Hagatorg.

Ágúst Pálsson húsameistari hannaði bygginguna. Kirkjan var vígð á pálmasunnudag 1957.

Oddur Einarsson

Oddur Einarsson (31. ágúst 1559 – 28. desember 1630) var biskup í Skálholti frá 1589. Hann var elsti sonur séra Einars Sigurðssonar, prests og sálmaskálds í Nesi í Aðaldal, og fyrri konu hans, Margrétar Helgadóttur.

Selfossprestakall

Selfossprestakall er prestakall í Suðurprófastsdæmi. Í prestakallinu eru fjórar sóknir: Hraungerðissókn, Laugardælasókn, Selfosssókn og Villingaholtssókn.

Skagaströnd (sveit)

Skagaströnd er byggðarlag á vesturströnd Skagans á Norðurlandi. Upphaflega var nafnið eingöngu haft um ströndina og byggðina á henni en verslunarstaðurinn undir Spákonufelli kallaðist Höfði eða Höfðakaupstaður. Danskir kaupmenn sem þar versluðu fóru að kalla kaupstaðinn Skagestrand og fesist það smám saman við verslunarstaðinn og síðar kauptúnið sem þar reis. Þegar nú er talað um Skagaströnd er oftar en ekki átt við þéttbýlið þótt sveitin hafi enn sama nafn.

Skagaströnd liggur norðan við Refasveit og eru mörkin milli byggðanna um Laxá. Ströndin er aðeins talin ná út undir Króksbjarg; bæirnir þar fyrir norðan eru sagðir vera á Skaga. Ströndin er fremur láglend, einkum norðan til, en fjöllin hækka þegar sunnar dregur og þar ber mest á Spákonufelli fyrir ofan kauptúnið. Upphaflega var öll Skagaströnd í Vindhælishreppi en árið 1939 var honum skipt í þrennt. Ytri hluti strandarinnar ásamt bæjunum yst á Skaga varð þá Skagahreppur, miðhlutinn (kauptúnið og næsta nágrenni) varð Höfðahreppur en syðri hlutinn hét áfram Vindhælishreppur. Árið 2002 sameinuðust Vindhælishreppur og Skagahreppur á ný undir nafninu Skagabyggð en Höfðahreppur, sem nú heitir Sveitarfélagið Skagaströnd, klýfur Skagabyggð í miðju.

Á Skagaströnd voru áður tvö prestaköll, Höskuldsstaðaprestakall og Hofsprestakall. Enn eru kirkjur á Höskuldsstöðum og Hofi en ströndin og þorpið eru nú eitt prestakall, Skagastrandarprestakall. Einnig var kirkja á Spákonufelli en hún var lögð af þegar Hólaneskirkja á Skagaströnd var byggð 1928.

Staðarstaður

Fyrir húsið sem hýsir skrifstofur embættis forseta Íslands, sjá Sóleyjargötu 1.

Staðarstaður (áður Staður á Ölduhrygg) er bær og prestssetur í Staðarsveit á sunnanverðu Snæfellsnesi. Staðarstaður (stundum Staðastaður) var mikil hlunnindajörð, þótti eitt besta prestakall landsins og þar hafa margir þekktir menn verið við bú.

Sagnaritarinn Ari Þorgilsson fróði er talinn hafa búið á Staðarstað á 12. öld. Sonarsonur hans, Ari Þorgilsson sterki, bjó á jörðinni seinna á öldinni, síðan tengdasonur Ara sterka, Þórður Sturluson og á eftir honum sonur hans og sonarsonur, Böðvar Þórðarson og Þorgils skarði Böðvarsson.

Síðar varð Staðarstaður prestssetur og þar sem jörðinni fylgdu mikil hlunnindi var staðurinn eftirsóttur. Margir þeirra presta sem þangað völdust voru af höfðingjaættum eða þóttu líklegir til frama. Fjórir prestar frá Staðarstað urðu biskupar (Marteinn Einarsson, Halldór Brynjólfsson, Gísli Magnússon og Pétur Pétursson) og Hallgrímur Sveinsson biskup, sonur séra Sveins Níelssonar, ólst þar upp. Af síðari tíma prestum má nefna Kjartan Kjartansson, sem var prestur á árunum 1922-1938, var hugvitsmaður og viðgerðarmaður og er talin ein fyrirmyndin að séra Jóni prímusi í Kristnihaldi undir Jökli og Þorgrím V. Sigurðsson, sem var prestur á Staðarstað 1944-1973. Þorgrímur var skólamaður mikill og jafnvígur á flestar greinar og var hann síðastur íslenskra kennimanna til að halda heimaskóla að gömlum sið og búa unglinga undir framhaldsnám. Í kirkjugarðinum á Staðarstað er svokallaður Franskireitur, þar sem grafnir eru tæplega 40 Frakkar er drukknuðu þegar sex franskar skútur fórust úti fyrir Staðarsveit og með þeim yfir hundrað skipverjar árið 1870.

Ýmsir þekktir menn koma einnig við sögu Staðarstaðar. Oddur Sigurðsson lögmaður var fæddur á Staðarstað. Galdra-Loftur Þorsteinsson dvaldi hjá prestinum á Staðarstað og fór þaðan í sinn síðasta róður. Jóhann Jónsson skáld var fæddur á Staðarstað og einnig Ragnar Kjartansson myndhöggvari. Minnisvarði um Ara fróða eftir Ragnar var reistur á Staðarstað 1981.

Núverandi kirkja á Staðarstað er steinkirkja og var reist á árunum 1942-1945. Í henni eru meðal annars listaverk eftir Tryggva Ólafsson og Leif Breiðfjörð.

Strandasýsla

Strandasýsla var ein af sýslum Íslands. Sýslur eru ekki lengur stjórnsýslueining á Íslandi, en nafnið er enn notað til að vísa til svæðisins.

Strandasýsla er á Vestfjörðum og nær frá Holtavörðuheiði í suðri að Geirólfsgnúpi í norðri. Íbúafjöldi sýslunnar var 747 í árslok 2008. Strandir eru heiti á byggðinni og svæðinu sem liggur norður meðfram vestanverðum Hrútafirði og Húnaflóa þar til Hornstrandir taka við.

Vestan megin á Strandasýsla mörk að Norður-Ísafjarðarsýslu, Austur-Barðastrandarsýslu og Dalasýslu. Austan megin er Húnaflói og Vestur-Húnavatnssýsla. Suðurendi sýslunnar teygir sig upp á Holtavörðuheiði þar sem hann mætir sýslumörkum Mýrasýslu.

Stærsti þéttbýlisstaður Strandasýslu er þorpið Hólmavík við Steingrímsfjörð um miðbik Stranda með 368 íbúa (1. jan. 2009). Þar er meðal annars rækjuvinnsla og þó nokkur útgerð. Annar þéttbýliskjarni við norðanverðan Steingrímsfjörð er Drangsnes og við Hrútafjörð er Borðeyri. Á Steingrímsfirði, úti fyrir Drangsnesi, er eyjan Grímsey. Akvegur fær öllum bílum liggur að Ingólfsfirði, norðan Trékyllisvíkur, en jeppavegur nær alla leið í Ófeigsfjörð.

Sókn

Sókn er grunneining stjórnskipulags kirkjunnar.

Tjarnarkirkja (Svarfaðardal)

Tjarnarkirkja er kirkjan á Tjörn í Svarfaðardal, sjá nánar þar.

Viðeyjarkirkja

Viðeyjarkirkja er kirkja í Viðey við Reykjavík. Kirkjan var hlaðin úr steini á árunum 1767 til 1774 og var að einhverju leyti notast við grjót sem gengið hafði af þegar Viðeyjarstofa var reist. Danskur arkitekt, Georg David Anthon, teiknaði kirkjuna. Hún stendur rétt hjá Viðeyjarstofu. Kirkjan var vígð árið 1774 og er næstelsta steinkirkja landsins.

Viðeyjarkirkja er í Dómkirkjuprestakalli íReykjavíkurprófastdæmi vestra. Fornleifauppgröftur hefur sýnt að kirkja mun hafa verið byggð í Viðey á 12. öld og árið 1225 var stofnað þar klaustur af Ágústínareglu en hvatamenn að klausturstofnun voru Þorvaldur Gissurarson og Snorri Sturluson. Menn Danakonungs rændu og saurguðu klaustrið og ráku munkana burt árið 1539. Jón Arason endurreisti klaustrið og lét reisa virki í Viðey en klaustrið var svo endanlega lagt niður við siðaskiptin skömmu síðar.

Í kirkjugarðinum eru grafnir meðal annars Ólafur Stephensen stiftamtmaður og sonur hans Magnús Stephensen konferensráð og Gunnar Gunnarsson skáld.

Þjóðminjasafnið lét gera upp byggingarnar í Viðey á árunum 1967 til 1979 og árið 1987 undir stjórn Þorsteins Gunnarssonar.

Á öðrum tungumálum

This page is based on a Wikipedia article written by authors (here).
Text is available under the CC BY-SA 3.0 license; additional terms may apply.
Images, videos and audio are available under their respective licenses.