Otho

Marcus Salvius Otho (28. ágúst 3216. apríl 69) var rómverskur keisari frá 15. janúar til 16. apríl árið 69. Hann var annar keisarinn á ári keisaranna fjögurra.

Otho var vinur Nerós keisara þegar þeir voru ungir, en vináttan endaði árið 58 þegar eiginkona Othos, Poppea Sabina, skildi við hann til þess að giftast Neró. Otho var eftir þetta skipaður landstjóri í Lucitaniu (núverandi Portúgal). Þegar Galba, landstjóri í Hispaniu Tarraconensis, gerði uppreisn gegn Neró, árið 68, varð Otho einn af fyrstu stuðningsmönnum uppreisnarinnar. Galba náði fljótlega völdum en þegar stjórn hans riðaði til falls snemma árs 69, vegna óvinsælda á meðal hermanna og öldungaráðsmanna, hætti Otho að styðja hann. Otho fékk þá lífvarðasveit keisarans í lið með sér til þess að taka völdin, og þegar Galba var drepinn 15. janúar 69 af stuðningsmanni Othos varð hann keisari.

Nokkrum dögum áður en Otho tók völdin í Róm höfðu herdeildir í Germaniu Superior hyllt Vitellius, landstjóra í skattlandinu, sem keisara. Otho vildi fresta átökum við Vitellius þangað til honum bærist liðsauki frá herdeildum við Dóná en í mars hélt Vitellius með sinn herafla til Ítalíu og hélt Otho þá af stað til að mæta honum. Herir þeirra mættust í bardaga á norður-Ítalíu og vann Vitellius afgerandi sigur. Tveimur dögum seinna, 16. apríl 69, framdi Otho sjálfsmorð og varð Vitellius keisari að honum látnum.

Fyrirrennari:
Galba
Rómarkeisari
(69 – 69)
Eftirmaður:
Vitellius
Otho
Rómverskur keisari
Oth001
Valdatími Janúar – apríl 69
Fæddur 28. apríl 32
Fæðingarstaður Ferentium
Dáinn 16. apríl 69
Dánarstaður Róm
Forveri Galba
Eftirmaður Vitellius
Maki/makar Poppea Sabina
Faðir Lucius Otho
Móðir Terentia Albia
Fæðingarnafn Marcus Salvius Otho
Keisaranafn Marcus Salvius Otho Caesar Augustus
Tímabil Ár keisaranna fjögurra
1088

Árið 1088 (MLXXXVIII í rómverskum tölum)

15. apríl

15. apríl er 105. dagur ársins (106. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 260 dagar eru eftir af árinu.

15. janúar

15. janúar er 15. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 350 dagar (351 á hlaupári) eru eftir af árinu.

16. apríl

16. apríl er 106. dagur ársins (107. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 259 dagar eru eftir af árinu.

28. ágúst

28. ágúst er 240. dagur ársins (241. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 125 dagar eru eftir af árinu.

69

Fyrir aðrar merkingar má sjá aðgreiningarsíðuna.Árið 69 (LXIX í rómverskum tölum)

Antonínus Píus

Titus Aurelius Fulvus Boionius Arrius Antoninus (19. september 86 – 7. mars 161), best þekktur sem Antonínus Píus, var rómverskur keisari frá 138 til 161. Hann var fjórði hinna svonefndu fimm góðu keisara. Hann hlaut viðurnefnið „Pius“ eftir valdatöku, sennilega af því að hann þvingaði öldungaráðið til þess að lýsa yfir guðdómleika Hadríanusar að honum látnum. Óvenju litlar heimildir eru til um valdatíð Antonínusar Píusar en hún virðist hafa verið að mestu leyti friðsæl og raunar tíðindalítil. Þar að auki réðist hann ekki í næstum því jafn umfangsmiklar framkvæmdir og forverar hans, Trajanus og Hadríanus, og hann stjórnaði ríkinu af meiri varfærni en flestir aðrir keisarar.

Claudius Gothicus

Claudius Gothicus (10. maí 213 – janúar 270), einnig þekktur sem Claudius 2., var keisari Rómaveldis á árunum 268 til 270.

Claudius virðist hafa verið hermaður öll sín fullorðinsár og unnið sig statt og stöðugt upp metorðastigann innan hersins. Undir forvera sínum, Gallienusi, varð hann yfirmaður í riddaraliðssveit keisarans og tók þátt í umsátri keisarans um borgina Mediolanum (Mílanó) þegar hershöfðinginn Aureolus gerði uppreisn. Gallienus var myrtur meðan á umsátrinu stóð og var Claudius þá hylltur sem keisari.

Heimsveldinu var ógnað af germönum við Dóná þegar Claudius tók við völdum auk þess sem Gallienus hafði misst völd yfir stórum landssvæðum; Gallíska keisaradæminu í vestri og Palmyru í austri. Claudius einbeitti sér fyrst að því að mæta Gotum sem valdið höfðu glundroða í Anatólíu og á Grikklandi. Claudius vann stórsigur á þeim í orrustunni við Naissus og hlaut við það viðurnefnið Gothicus. Einnig vann hann orrustu við Alemanna, sem gert höfðu innrás í norður-Ítalíu. Þessu næst sneri Claudius sér að Postumusi, hershöfðingja sem tekið hafði völd í Gallíu, Hispaníu og Britanníu og lýst sjálfan sig keisara. Ríki Postumusar er nú þekkt sem Gallíska keisaradæmið. Claudius vann Hispaníu og hluta af Gallíu aftur undir vald Rómar en lést úr plágu (mögulega bólusótt) áður en honum tókst að eyða ríki Postumusar. Talið er að Claudius hafi útnefnt einn helsta hershöfðingja sinn, Aurelianus, sem eftirmann sinn, en áður en Aurelianus varð keisari náði bróðir Claudiusar, Quintillus, völdum í nokkra mánuði.

Didius Julianus

Marcus Didius Severus Julianus (30. janúar 133 – 1. júní 193) var keisari Rómaveldis, 28. mars – 1. júní, á ári keisaranna fimm, 193.

Pertinax, fyrirrennari Julianusar á keisarastóli, var myrtur í mars 193 af meðlimum úr lífvarðasveit sinni. Sagan segir að lífverðirnir hafi þá boðið upp keisaratitilinn og að Didius Julianus hafi boðið hæst. Lífverðirnir hylltu þá Julianus sem keisara en hann var þó ekki vinsæll á meðal almennings né á meðal öldungaráðsins. Þann 9. apríl 193 var Septimius Severus hylltur sem keisari af herdeildum í Pannoniu. Severus hélt þá strax til Rómar til að mæta Julianusi. Lífvarðasveit Julianusar var illa undir það búin að verja borgina, en auk þess höfðu lífverðirnir áttað sig á því að Julianus gat ekki staðið við loforð um launahækkanir til þeirra. Eftir því sem Severus og her hans nálgaðist borgina, fór Julianus því smám saman að missa stuðning lífvarðasveitarinnar. Severus átti einnig bandamenn inni í borginni og þeim tókst að fá öldungaráðið til þess að lýsa Severus keisara og Julianus sem óvin ríkisins. Julianus var dæmdur til dauða og tekinn af lífi eftir aðeins 66 daga valdatíð.

Galba

Servius Sulpicius Galba (24. desember 3 f.Kr. – 15. janúar 69 e.Kr.) var rómverskur keisari í um sjö mánuði, frá 8. júní 68 til 15. janúar 69. Galba var fyrsti keisarinn á ári keisaranna fjögurra.

Galba varð keisari eftir að Neró hafði misst allan stuðning og í kjölfarið framið sjálfsmorð. Galba hafði opinberlega lýst andstöðu við Neró um vorið 68, þegar hann var landstjóri í Hispaniu Tarraconensis á Íberíuskaga. Herdeildir hans lýstu hann keisara og fljótlega fékk hann stuðning herdeilda víðs vegar um heimsveldið. Eftir dauða Nerós, sumarið 68, lýsti öldungaráðið hann keisara og hélt hann þá til Rómar til að tryggja stöðu sína.

Galba reyndi að koma fjármálum ríkisins í lag eftir mikla eyðslusemi Nerós, og neitaði m.a. að borga hermönnum sínum fyrir hollustu þeirra. Þetta gerði hann óvinsælan og hann missti því smám saman stuðning hersins. Þann 1. janúar 69 hylltu tvær herdeildir í Germaniu Superior, landstjórann Vitellius, sem keisara. Nokkrum dögum seinna fékk Otho, sem hafði verið landstjóri í Lucitaniu og einn af fyrstu stuðningsmönnum Galba, lífvarðasveit keisarans til þess að steypa Galba af stóli og lýsa sig keisara. Þann 15. janúar 69 var Galba stunginn til bana af stuðningsmanni Otho og í kjölfarið varð Otho keisari.

Honorius (keisari)

Flavius Honorius (9. september 384 – 15. ágúst 423) var keisari Vestrómverska ríkisins frá 393 – 423.

Honorius var sonur Theodosiusar 1. keisara sem var síðasti keisarinn yfir öllu Rómaveldi. Þegar Theodosius lést, árið 395, var ríkinu skipt milli Honoriusar, sem varð keisari yfir vesturhlutanum, og bróður hans Arcadiusar, sem varð keisari yfir austurhlutanum. Ríkinu hafði nokkrum sinnum áður verið skipt í austur og vestur en þar sem skiptingin varð varanleg í þetta skiptið er oft miðað við að Vestrómverkska ríkið og Austrómverska ríkið hafi orðið til við hana.

Honorius var aðeins tíu ára þegar faðir hans lést og var ríkinu því upphaflega stjórnað af aðstoðarmönnum hans og var Stilicho mikilvægastur þeirra. Stilicho, sem var hálfur Vandali og hálfur Rómverji, var einn hæfasti hershöfðingi síns tíma og vann marga sigra gegn Germönum. Að lokum féll hann þó í ónáð, var handtekinn og tekinn af lífi, árið 408. Stöðug hnignun ríkisins einkenndi keisaratíð Honoriusar og til marks um það var sjálf Rómaborg hertekin, árið 410, af Gotneskum her undir stjórn Alarics. Gotneski herinn eyddi þremur dögum í að ræna öllum þeim verðmætum sem þeir gátu í borginni áður en þeir yfirgáfu hana aftur og héldu suður Ítalíuskagann þar sem þeir héldu áfram að valda tjóni. Róm hafði ekki verið hertekin af utanaðkomandi her síðan Gallar hertóku hana árið 387 f.Kr. og var þessi atburður mikið áfall fyrir íbúa borgarinnar og alls heimsveldisins. Sjálfur var Honorius með hirð sína í Ravenna, sem nú var höfuðborg ríkisins.

Á valdatíma Honoriusar var Bretland yfirgefið af Rómverjum fyrir fullt og allt. Árið 421 skipaði Honorius hershöfðingjann Constantius sem með-keisara sinn. Constantius var giftur systur Honoriusar, Galla Placidia, og áttu þau soninn Valentinianus sem síðar varð keisari. Constantius lést eftir aðeins nokkra mánuði á valdastóli. Honorius lést svo árið 423 án erfingja og var embættismaðurinn Joannes þá skipaður keisari Vestrómverska ríkisins. Joannes var þó ekki viðurkenndur af austrómverska keisaranum Theodosiusi 2. sem skipaði systurson Honoriusar, Valentinianus 3., sem keisara, árið eftir.

Julianus

Julianus (331 eða 332 – 363) var rómverskur keisari, af konstantínsku ættinni, á árunum 360 – 363.

Julianus var bróðursonur Konstantínusar mikla, sonur Juliusar Constantiusar og Basilinu. Konstantínus mikli skipaði Julius Constantius ræðismann árið 335 en eftir dauða Konstantínusar, árið 337, var Julius Constantius tekinn af lífi ásamt fleiri karlmönnum af konstantísku ættinni. Julianus slapp við þessar hreinsanir, sem líklega voru að skipan Constantiusar 2., vegna þess hve ungur hann var. Julianus hlaut menntun í kristnum fræðum sem ungur maður, en þegar hann var um tvítugt tók hann upp trú á gömlu grísk-rómversku guðina og hélt þeirri trú til dánardags. Á valdatíma sínum reyndi Julianus að hefja gömlu trúarbrögðin til fyrri vegsemdar en varð lítið ágengt og reyndist vera síðasti Rómarkeisarinn sem aðhylltist þau. Af þessum sökum fékk hann viðurnefnið apostata á meðal kristinna manna, sem þýða má sem trúvillingur.

Constantius 2., frændi Julianusar, skipaði hann undirkeisara (caesar) árið 355. Constantius var þá upptekinn við að verjast innrás Sassanída í Mesópótamíu og hlutverk Julianusar var að verja vesturhluta ríkisins gegn innrásum germana. Julianus stóð sig vel sem herforingi og vann sigra á Alemönnum og Frönkum í Gallíu. Árið 360 skipaði Constantius svo fyrir um að Julianus ætti að senda bróðurpartinn af herdeildunum í Gallíu til Mesópótamíu til að taka þátt í stríðinu gegn Sassanídum. Julianus varð ekki við þeirri beiðni, enda voru hermennirnir mótfallnir þessu og hylltu þeir Julianus sem keisara (augustus) í kjölfarið. Constantius leit á þetta sem uppreisn af hálfu Julianusar og bjóst til að mæta honum í orrustu, en áður en til þess kom tók Constantius sótt og lést. Constantius er sagður hafa viðurkennt Julianus sem eftirmann sinn á dánarbeði sínu og því tók Julianus völdin í öllu Rómaveldi við dauða Constantiusar, í nóvember árið 361. Julianus eyddi mestum hluta síns stutta valdatíma í að skipuleggja og framkvæma stórárás á veldi Sassanída. Í mars árið 363 hélt hann með fjölmennan her frá Antiokkíu í Sýrlandi með það að markmiði að hertaka höfuðborg Sassanída, Ctesiphon. Julianus leiddi herinn til Ctesiphon en ákvað þá að hörfa til baka áður en meginher Sassanída kæmi á svæðið. Á undanhaldinu urðu Rómverjar fyrir nokkrum árásum og í einni þeirra hlaut Julianus banvænt sár af völdum óvinaörvar. Hershöfðinginn Jovianus var þá hylltur keisari af hernum.

Lucius Verus

Lucius Aurelius Verus (15. desember 130 – 169) var keisari Rómaveldis á árunum 161 – 169. Hann tók við keisaratigninni, ásamt Markúsi Árelíusi, þegar Antónínus Píus lést, en Antónínus hafði árið 138 ættleitt þá báða með það fyrir augum að þeir myndu taka við af honum.

Verus stjórnaði herleiðangri Rómverja gegn Pörþum á árunum 162 – 166. Stríðið snerist í fyrstu um yfirráð yfir Armeníu, því Parþar höfðu steypt af stóli konungi sem var hliðhollur Rómverjum. Rómverjar hröktu Parþa frá Armeníu og settu aftur á valdastól konung hliðhollan sér. Því næst réðust Rómverjar inn í Parþíu og hertóku höfuðborgina, Ctesiphon. Borgin var rænd og rupluð af rómverska hernum og höll keisarans lögð í rúst. Lucius sneri til baka til Rómar, og fagnaði sigrinum ásamt Markúsi, með mikilfenglegum hætti. Þegar herinn hélt til baka frá Parþíu, árið 167, barst með honum plága sem breiddist út og varð að faraldri sem geisaði í mörg ár.

Markús og Lucius héldu árið 168 til landamæra ríkisins við Dóná til þess að bregðast við síendurteknum árásum germanskra þjóðflokka. Þeir sneru þó fljótlega til baka þar sem átökunum var þá lokið í bili. Á leiðinni aftur til Rómar, snemma árs 169, varð Verus skyndilega veikur og lést.

Pertinax

Publius Helvius Pertinax (1. ágúst 126 – 28. mars 193) var rómverskur keisari sem ríkti í tæpa þrjá mánuði árið 193, en það ár hefur verið kallað ár keisaranna fimm.

Pertinax var af lágri stétt og er faðir hans talinn hafa verið frelsaður þræll. Pertinax vann fyrir sér sem málfræðikennari sem ungur maður, en gekk svo í herinn þar sem hann vann sig upp metorðastigann. Hann tók þátt í stríði Markúsar Árelíusar gegn Marcomönnum, og fleiri germönskum þjóðflokkum, sem stóð yfir á árunum 166 – 180. Pertinax var sigursæll herstjóri en þótti strangur við undirmenn sína og almenna hermenn. Eftir þetta gegndi Pertinax ýmsum mikilvægum störfum; til dæmis var hann ræðismaður árið 175 og síðar landstjóri yfir nokkrum skattlöndum. Árið 192 varð hann aftur ræðismaður, ásamt þáverandi keisara, Commodusi. Commodus var á þessum tíma orðinn mjög óvinsæll meðal valdamanna í Rómaborg og þann 31. desember árið 192 var hann myrtur. Pertinax var mjög líklega þátttakandi í skipulagningunni á morðinu enda var hann hylltur sem keisari daginn eftir, af lífvarðasveit keisarans. Pertinax virðist hafa ætlað sér að knýja fram umfangsmiklar endurbætur á stjórnkerfi og efnahag Rómaveldis. Það gekk þó ekki eftir því þegar hann reyndi að beita hermenn í lífvarðasveit sinni sama aga og hann hafði áður beitt almenna hermenn varð hann fljótt mjög óvinsæll meðal þeirra og var að lokum myrtur af þeim, þann 28. mars árið 193. Eftirmaður Pertinax var Didius Julianus en hans valdatími var enn styttri en valdatími Pertinax.

Romulus Augustus

Romulus Augustus (fæddur um eða eftir 460, dáinn eftir 476) (einnig nefndur Romulus Augustulus) var síðasti keisari Vestrómverska keisaradæmisins. Nafn hans er einnig ritað Rómúlus Ágústus eða Rómúlus Ágústúlus á íslensku. Viðurnefnið Augustulus er niðrandi og má þýða sem „litli Augustus.“

Romulus var skipaður keisari, 31. október 475, af föður sínum, Orestes, eftir að hinn síðarnefndi hafði náð Ravenna, höfuðborg Vestrómverska ríkisins, á sitt vald. Julius Nepos, keisari, flúði þá til Dalmatíu þar sem hann hélt völdum á litlu svæði til ársins 480, og gerði þar áfram tilkall til keisaratitilsins. Keisari Austrómverska ríkisins viðurkenndi reyndar aldrei Romulus Augustus sem keisara, heldur einungis Julius Nepos.

Romulus var aðeins unglingur þegar hann varð keisari og hið raunverulega vald lá hjá föður hans, Orestes. Vestrómverska ríkið hafði minnkað talsvert áratugina á undan og á tíma Romulusar náði það yfir lítið stærra svæði en Ítalíuskagann. Orestes var tekinn af lífi af germönskum málaliðum, undir forystu hershöfðingjans Odoacer, í ágúst árið 476. Nokkrum dögum seinna, eða 4. september, knúði Odoacer Romulus til þess að segja af sér sem keisari. Odoacer gerði sjálfur ekki tilkall til keisaratitils og skipaði engan annan í stöðuna. Afsögnin er því álitin marka endalok um 1200 ára samfelldrar sögu Rómaveldis í vestri. Lítið sem ekkert er vitað með vissu um líf Romulusar eftir afsögnina, en þó er talið að Odoacer hafi leyft honum að fara til ættingja sinna í Campaníu.

Títus

Titus Flavius Vespasianus (30. desember 39 – 13. september 81), þekktur sem Títus, var keisari í Rómaveldi frá 79 til 81. Hann tók við völdum af föður sínum Vespasíanusi. Yngri bróðir hans, Dómitíanus, tók við völdum eftir hans dag.

Vespasíanus

Titus Flavius Vespasianus (17. nóvember 9 – 23. júní 79), þekktur sem Vespasíanus, var keisari í Rómaveldi frá 69 til 79. Vespasíanus var fyrstur flavísku keisaranna en synir hans Títus og Domitíanus voru við völd eftir hans dag. Vespasíanus komst til valda í lok árs hinna fjögurra keisara. Stjórnartíð hans er einkum þekkt fyrir umbætur sem hann stóð fyrir að fordæmi júlísku-cládísku ættarinnar og fyrir stríð gegn Júdeu.

Vespasíanus var hershöfðingi í rómverska hernum í stjórnartíð keisaranna Claudíusar og Nerós. Sem hershöfðingi tók hann þátt í innrás Rómverja í Bretland og hann var sendur af Neró til Júdeu til að kveða niður uppreisn gyðinga á svæðinu. Í Júdeu naut hann aðstoðar Títusar sonar síns þar sem þeir náðu á sitt vald stærstum hluta skattlandsins af uppreisnarherjunum. Áður en þeir náðu Jerúsalem á sitt vald urðu þeir þó að fresta hernaðaraðgerðum þar sem Neró hafði framið sjálfsmorð og Galba orðinn keisari. Galba var þó fljótlega myrtur af Otho sem beið svo ósigur í orrustu gegn Vitelliusi. Í kjölfarið lýstu herdeildirnar í Júdeu og Egyptalandi Vespasíanus keisara og hann náði að tryggja sér völdin eftir að hafa sigrað Vitellius í bardaga árið 69.

Vitellius

Aulus Vitiellius Germanicus (24. september 15 – 22. desember 69) var keisari Rómaveldis frá 16. apríl til 22. desember árið 69. Vitellius var þriðji keisarinn á ári keisaranna fjögurra.

Vitellius var skipaður landsstjóri í Germaniu Inferior, í desember 68, af Galba sem þá var keisari. Galba var óvinsæll á meðal hermanna í Germaníu vegna þess að hann neitaði að borga þeim fyrir hollustu þeirra. Herdeildirnar í Germaniu gerðu þvi uppreisn gegn Galba þann 1. janúar 69, og hylltu í kjölfarið Vitellius sem keisara. Innan nokkurra daga var Galba tekinn af lífi í Róm, en þó ekki af neinum hliðhollum Vitelliusi heldur af stuðningsmanni Otho. Otho var í kjölfarið viðurkenndur sem keisari af öldungaráðinu. Herdeildir Vitelliusar og Othos mættust í bardaga á Norður-Ítalíu í mars árið 69, þar sem Vitellius hafði mun stærri her og vann afgerandi sigur.

Vitellius kom til Rómar um sumarið 69 og var hylltur sem keisari. Síðar um sumarið bárust þó fréttir af því að hersveitir í austurhluta Rómaveldis höfðu lýst hershöfðingjann Vespasíanus keisara. Vespasíanus hlaut fljótlega stuðning hermanna víða í heimsveldinu og herir þeirra Vitelliusar mættust svo á Norður-Ítalíu um haustið 69. Að þessu sinni beið Vitellius afgerandi ósigur. Í desember, þegar staðan var orðin vonlaus fyrir Vitellius, reyndi hann að segja af sér en hann var að lokum drepinn af hermönnum Vespasíanusar. Með dauða Vitelliusar lauk borgarastríðinu sem hófst við dauða Nerós og með Vespasíanusi hófst valdatími flavísku ættarinnar.

Ár keisaranna fjögurra

Ár keisaranna fjögurra var ár í sögu Rómaveldis, 69 e.Kr., en þá ríktu hvorki meira né minna en fjórir keisarar, einn á fætur öðrum. Þessi fjórir keisarar voru Galba, Otho, Vitellius og Vespasíanus.

Í kjölfar sjálfsmorðs Nerós keisara árið 68 e.Kr. fylgdi stuttur óvissu- og átakatími í Róm, fyrsta borgarastríðið frá dauða Marcusar Antoniusar árið 30 f.Kr. Frá júní árið 68 til desember árið 69 urðu Rómverjar vitni að valdatöku og falli Galba, Othos og Vitelliusar og að lokum valdatöku Vespasíanusar, fyrsta keisarans af flavísku ættinni. Stjórnleysið sem þetta átakaár olli hafði langvarandi og alvarleg áhrif á stjórnmál í Rómaveldi.

Rómverska
keisaradæmið

27 f.Kr – 476 e.Kr
Austrómverska
keisaradæmið

395–1453
Sjá einnig

Á öðrum tungumálum

This page is based on a Wikipedia article written by authors (here).
Text is available under the CC BY-SA 3.0 license; additional terms may apply.
Images, videos and audio are available under their respective licenses.