Konungsætt

Konungsætt eða ættarveldi er röð ríkjandi konunga og drottninga sem eru talin tilheyra sömu ætt. Í sagnaritun eru konungsættir oft notaðar til að afmarka tímabil í sögu landanna. Dæmi um slíkt eru átjánda konungsættin í sögu Egyptalands, Abbasídar í sögu Mið-Austurlanda og Tjingveldið í sögu Kína. Margar konungsættir settu mark sitt á sögu Evrópu, til dæmis Karlungar, Kapetingar, Búrbónar, Habsborgarar, Stúartættin og Rómanovættin.

Tengt efni

Bonaparte-ætt

Bonaparte-ættin eða franska keisaraættin (la famille Bonaparte eða maison impériale de France) er konungsætt sem stofnuð var af Napóleon Bónaparte Frakkakeisara árið 1804. Fjölskyldan kom frá Korsíku og var hluti af lágaðalsstéttinni í stjórnskipan franska konungdæmisins fyrir frönsku byltinguna. Fjölskyldan var gerð að valdaætt frönsku keisaratignarinnar eftir krýningu Napóleons þann 18. maí 1804.

Þrír meðlimir ættarinnar hafa ríkt yfir Frakklandi sem keisarar:

Stofnandi ættarinnar, Napóleon 1., frá 1804 til 1814 og árið 1815.

Að nafninu til ríkti sonur hans, Napóleon 2., í nokkra daga árið 1815.

Bróðursonur hans, Napóleon 3., ríkti frá 1852 til 1870 (eftir að hafa þar áður verið fyrsti forseti Frakklands frá 1848 til 1852).Bonaparte-ættin ríkti einnig yfir ýmsum öðrum Evrópuríkjum eftir hina ýmsu hernaðarsigra Napóleons á tíma fyrra franska keisaraveldisins. Aðrir einvaldar ættarinnar voru:

Joseph Bonaparte, konungur Napólí frá 1806 til 1808 og Spánar frá 1808 til 1813.

Louis Bonaparte, konungur Hollands frá 1806 til 1810.

Élisa Bonaparte, prinsessa af Lucca og Piombino frá 1805 til 1814 og af Toskana frá 1809 til 1814.

Jérôme Bonaparte, konungur Vestfalíu frá 1807 til 1813.Núverandi meðlimir Bonaparte-ættar sem gera tilkall til frönsku keisarakrúnunnar rekja ættir til Jérôme Bonaparte, yngri bróður Napóleons, þar sem hvorki Napóleon né síðari Bonaparte-keisarinn, Napóleon III, eiga skilgetna afkomendur á lífi. Stuðningsmenn ættarinnar eru kallaðir bonapartistar.

Búrbónar

Búrbónar (franska: Maison de Bourbon) eru mikilvæg konungsætt í Evrópu. Þeir eru grein af Kapetingum sem tóku við af Karlungum sem konungsætt Frakklands árið 987. Búrbónar komust fyrst til valda í Navarra og síðan í Frakklandi á 16. öld. Eftir Spænska erfðastríðið á 18. öld voru Búrbónar einnig við völd á Spáni, Napólí, Sikiley og Parma. Núverandi Spánarkonungur og hertoginn af Lúxemborg eru af ætt Búrbóna.

Danmörk

Danmörk (danska: Danmark; framburður ) er land í Evrópu sem ásamt Grænlandi og Færeyjum myndar Konungsríkið Danmörk.

Danmörk samanstendur af Jótlandsskaga og 443 eyjum en af þeim eru 72 (2007) byggðar. Landið liggur að sjó að vestan, norðan og austan. Að vestan er Norðursjór, Skagerrak og Kattegat að norðvestan og norðaustan og Eystrasalt að austan, en að sunnan á Danmörk landamæri að Þýskalandi við suðurenda Jótlands. Jótland er skagi sem gengur til norðurs út úr Evrópuskaganum. Það er stærsti hluti Danmerkur. Auk Jótlandsskagans er mikill fjöldi byggðra eyja sem eru í Eystrasalti. Stærstar eru Sjáland og Fjón. Helstu borgir eru Kaupmannahöfn á Sjálandi; Óðinsvé á Fjóni; Árósar, Álaborg, Esbjerg, Randers, Kolding, Horsens og Vejle á Jótlandi.

Danmörk var áður mun víðáttumeira ríki en það er í dag. Bæði átti það miklar lendur austan Eyrarsunds, Skán, Halland og Blekinge og einnig bæði héruðin Slésvík og Holtsetaland og náðu landamærin suður fyrir Hamborg þegar veldið var sem mest. Danska konungsættin er elsta ríkjandi konungsætt í heimi. Á nítjándu öld gekk Noregur úr konungssambandi við Danmörku og var þá um tíma undir sænska konunginum. Á 20. öld fékk svo Ísland sjálfstæði frá Dönum, en Færeyjar og Grænland eru enn í konungssambandi við Danmörku þó að bæði löndin hafi fengið heimastjórn.

Fjórtánda konungsættin

Fjórtánda konungsættin er í sögu Egyptalands konungsætt sem oftast er talin til Miðríkisins. Hún skarast við bæði þrettándu konungsættina og fimmtándu konungsættina sem telst til annars millitímabilsins. Valdatíð hennar nær frá um 1790 f.Kr. til um 1630 f.Kr.. Þessi konungsætt ríkti aðallega yfir Nílarósum og var sögð hafa stjórnað frá borginni Xóis á eyju í ósunum. Nú er talið að fyrsta höfuðborg þessarar ættar hafi verið Avaris en að hún hafi flutt til Xóis eftir að fimmtánda konungsættin lagði Avaris undir sig.

Um 76 konungar eru nefndir á Tórínópapýrusnum. Margir af þeim konungum koma hvergi fyrir í öðrum heimildum og sum nöfnin eru talin nær örugglega skálduð. Maneþon segir ekki annað um þessa konungsætt en að hún hafi talið sjötíu konunga sem ríktu frá Xóis.

Karlungar

Karlungar voru konungsætt Frankaríkisins frá 751 þar til ríkinu var skipt með Verdun-samningnum árið 843. Karlungar ríktu síðan í ríkjunum þremur sem urðu til við samninginn; í Frakklandi þar til Kapetingar tóku við 987, í miðríkinu Lóþaringen til 887 og í hinu Heilaga rómverska ríki til 911.

Stofnandi ættarveldisins er venjulega talinn Arnúlfur af Metz, biskup af Metz á síðari hluta 7. aldar. Hann varð valdamikill eftir að hafa stutt Klóþar II í að sameina konungsríki Franka (Ástrasíu, Nevstríu og Búrgúndí). Sonur hans, Ansugisel, giftist Beggu, dóttur Pípins eldra, hallarbryta og varð sjálfur bryti eftir hann. Sonur hans Pípinn II náði völdum í ríkjunum þremur og sigraði konunginn, Þjóðrík III þegar hann reyndi að bola honum frá. Þar með var embætti hallarbrytans orðinn í raun valdamesta embætti ríkisins.

Sonur Pípins, Karl hamar, náði svo miklum vinsældum (hjá páfa, meðal annarra) eftir sigur hans yfir márum í orrustunni við Poitiers 732 að syni hans, Pípin III tókst að velta síðasta Mervíkingnum úr sessi og verða Frankakonungur 751.

Sonur Pípins III og þekktasti konungur Karlunga, Karl mikli eða Karlamagnús, varð konungur eftir bróður sinn Karlóman árið 771. Sonur hans, Lúðvík guðhræddi, reyndi að sætta metnað þriggja sona sinna, en eftir dauða hans börðust þeir innbyrðis sem endaði með skiptingu ríkisins samkvæmt Verdun-samningum 843.

Konungsríki

Konungsríki eða konungdæmi er ríki þar sem þjóðhöfðinginn er konungur eða drottning. Venjulega er konungurinn valinn úr tiltekinni konungsætt þar sem titillinn gengur til þess næsta í tiltekinni erfðaröð. Konungurinn heldur stöðu sinni oftast ævilangt nema eitthvað sérstakt komi til.

Nú eru 32 einstaklingar sem fara með konungsvald í 46 löndum heims. Sextán samveldislönd heyra undir Elísabetu 2. Bretadrottningu.

Lukkuborgarætt

Lukkuborgarætt hefur verið ríkjandi konungsætt Danmerkur frá 1863, er Kristján 9. tók við ríki. Hún er kennd við Glücksburg, bæ í Slésvík, og heitir reyndar fullu nafni Slesvig-Holsten-Sønderborg-Lyksborg á dönsku, en Schleswig-Holstein-Sonderburg-Glücksburg á þýsku. Lukkuborgarætt er kvísl af Aldinborgarætt, sem hefur verið við völd í Danmörku síðan Kristján I varð konungur árið 1448.

Nítjánda konungsættin

Nítjánda konungsættin var önnur konungsætt Nýja ríkisins. Hún var stofnuð af embættismanninum Ramses 1. sem Hóremheb kaus sér að eftirmanni. Þessi konungsætt er þekktust fyrir landvinninga í Ísrael, Líbanon og Sýrlandi. Egypska ríkið náði sinni mestu útbreiðslu í valdatíð Setis 1. og Ramsesar 2. sem áttu í langvinnum átökum við Líbýumenn og Hittíta.

Lokaár konungsættarinnar einkenndust af innbyrðis valdabaráttu milli erfingja Merneptas. Síðasti valdhafinn var Tvosret, ekkjudrottning Setis 2. sem líklega hefur verið steypt af stóli af Setnakte, stofnanda tuttugustu konungsættarinnar.

Níunda konungsættin

Níunda konungsættin í sögu Egyptalands var konungsætt sem ríkti yfir Egyptalandi um það bil frá 2160 f.Kr. til 2040 f.Kr. Níundu og tíundu konungsættirnar ríktu frá Herakleópólis. Oft er erfitt að sjá hvorri konungsættinni konungar þessa tímabils tilheyra.

Sjötta konungsættin

Sjötta konungsættin er af sumum talin síðasta konungsætt Gamla ríkisins í sögu Egyptalands en aðrir vilja telja sjöundu og áttundu konungsættina með þar sem höfuðborg ríkisins var áfram í Memfis.

Á tíma sjöttu konungsættarinnar urðu landstjórar og héraðshöfðingjar valdameiri sem veikti miðstjórnarvald konunganna og leiddi til fyrsta millitímabilsins.

Síðasti faraó þessarar konungsættar, Nitigret, er talinn hafa verið fyrsta konan í heimi sem tók sér konungstitil.

Sjöunda konungsættin

Sjöunda konungsættin var, samkvæmt Maneþoni, fyrsta konungsætt fyrsta millitímabilsins í sögu Egyptalands. Hann segir að þá hafi sjötíu konungar í Memfis ríkt í sjötíu daga. Flestir eru nú sammála um að þessi konungsætt hafi aldrei verið til, en endurspegli fremur ákveðna rósturtíma í sögu landsins. Fræðimenn hafa ýmist dagsett þetta tímabil 2181 f.Kr., 2175 f.Kr., 2150 f.Kr. eða 2140 f.Kr. til 2165 f.Kr. eða 2130 f.Kr.

Tuttugasta konungsættin

Tuttugasta konungsættin í Egyptalandi hinu forna var þriðja og síðasta konungsætt Nýja ríkisins. Hún var sett á stofn af Setnakte en helsti valdhafi tímabilsins var Ramses 3. sem tók sér Ramses 2. til fyrirmyndar.

Á tíma tuttugustu konungsættarinnar hófust skipuleg grafarrán í Dal konunganna og þurrkar og lágt vatnsborð Nílar ollu því að síðustu konungar ættarinnar voru nánast valdalausir. Í tíð Ramsesar 11. voru það í reynd prestar Amons í Þebu sem ríktu yfir Efra Egyptalandi og Smendes, stofnandi tuttugustu og fyrstu konungsættarinnar, yfir Neðra Egyptalandi.

Tuttugasta og fjórða konungsættin

Tuttugasta og fjórða konungsættin í sögu Egyptalands hins forna var fjórða konungsættin sem ríkti á þriðja millitímabilinu. Einungis tveir konungar eru þekktir frá þessari konungsætt sem ríktu frá Saís í Nílarósum: Tefnakte 1. og Bakenranef (eða Bokkóris) sem ríkti frá 725 til 720 f.Kr. samhliða tuttugustu og fimmtu konungsættinni. Þessi konungsætt leið undir lok þegar Sjabaka lagði Saís undir sig, tók Bakenranef höndum og lét brenna hann lifandi.

Tuttugasta og önnur konungsættin

Tuttugasta og önnur konungsættin í sögu Egyptalands hins forna var önnur konungsætt þriðja millitímabilsins. Þessi konungsætt ríkti frá Tanis í neðra Egyptalandi. Konungar þessarar ættar voru messúessar (berbar) frá Líbýu sem höfðu sest að í Egyptalandi frá tímum tuttugustu konungsættarinnar. Þeir ríktu frá 943 f.Kr. til 720 f.Kr. Tuttugasta og þriðja konungsættin sem ríkti yfir efra Egyptalandi var líklega afsprengi þessarar konungsættar.

Tíunda konungsættin

Tíunda konungsættin í sögu Egyptalands var konungsætt sem ríkti yfir Egyptalandi á fyrsta millitímabilinu um það bil frá 2100 f.Kr. til 2040 f.Kr. Þessir konungar ríktu, líkt og konungar níundu konungsættarinnar, frá Herakleópólis í Neðra Egyptalandi.

Tólfta konungsættin

Tólfta konungsættin er í sögu Egyptalands konungsætt sem ríkti á tímum Miðríkisins. Maneþon segir að þessi konungsætt hafi ríkt í Þebu en samtímaáletranir segja frá því að fyrsti konungurinn hafi flutt höfuðborgina til borgarinnar Amenemhat-itj-tawy („Amenemhat drottnari landanna tveggja“) eða Itjtawi þar sem nú er þorpið Lisht.

Áttunda konungsættin

Áttunda konungsættin var í sögu Egyptalands konungsætt sem ríkti yfir landinu í byrjun fyrsta millitímabilsins þegar miðstjórnarvald faraóanna var veikt. Konungsættin kom upp í þeim átökum sem urðu eftir lát drottningarinnar Nitókriss. Konungar þessarar konungsættar ríktu í Memfis en Abýdos varð sjálfstætt stjórnvaldssetur í Efra Egyptalandi.

Þjóðhöfðingjar Skotlands

Upp úr miðri 11. öld eða jafnvel fyrr voru Skotakonungar farnir að tala um sjálfa sig á latínu sem „rex Scotorum“ eða konung Skota. Sá titill var notaður til 1707, þegar konungsríkið Skotland sameinaðist konungsríkinu Englandi og úr varð konungsríkið Stóra-Bretland. Anna drottning telst því síðasti þjóðhöfðingi Skotlands (og raunar líka Englands) og um leið fyrsti þjóðhöfðingi Stóra-Bretlands. Ríkin tvö höfðu þó haft sameiginlegan konung frá 1603. Síðasti konungur sem krýndur var í Skotlandi var Karl 2., árið 1651.

Þrettánda konungsættin

Þrettánda konungsættin er í sögu Egyptalands konungsætt sem ríkti á tímum Miðríkisins. Valdatíð hennar náði frá um 1790 f.Kr. til um 1649 f.Kr. Höfuðborg ríkisins var í Memfis.

Þessari konungsætt tilheyrir mikill fjöldi konunga. Konungsættin skarast að hluta við fjórtándu konungsættina sem ríkti frá Xóis.

Á öðrum tungumálum

This page is based on a Wikipedia article written by authors (here).
Text is available under the CC BY-SA 3.0 license; additional terms may apply.
Images, videos and audio are available under their respective licenses.