Innrautt ljós

Innrautt ljós er rafsegulgeislun með lengri bylgjur en sýnilegt ljós en styttri en örbylgjur. Bylgjulengdin er á milli 750 nm og 1 mm.

Innrauðir geislar eru meðal annars í þjófarvarnarkerfum, fjarstýringum og sumum símum.

Infrared dog
Mynd af hundi, tekin með innrauðu ljósi
Eris (dvergreikistjarna)

Eris, reikistirnisnafn: 136199 Eris, er massamesta dvergreikistjarnan á sporbaug um sólu og níunda massamesta fyrirbærið í sólkerfinu. Hún er talin hafa þvermálið 2.326 km (±12) og vera 27% þyngri en Plútó eða um það bil 0,27% af massa jarðarinnar.Teymi sem starfaði undir stjórn Mike Brown í Palomar-stjörnuathugunarstöðinni fann Eris í janúar 2005 og tilvist hennar var staðfest síðar það ár. Hún er útstirni handan brautar Neptúnusar og tilheyrir einnig flokki dreifstirna sem eru útstirni sem ganga um sólina eftir mjög ílöngum brautum. Eina þekkta tungl hennar er Dysnómía. Árið 2011 var Eris stödd 96,6 stjarnfræðieiningar (AU) frá sólinni eða þrisvar sinnum fjær sólu en Plútó. Ef frá eru taldar sumar halastjörnur þá eru Eris og Dysnómía fjarlægustu þekktu fyrirbæri sólkerfisins.Þar sem Eris virtist vera stærri en Plútó þá lýstu uppgötvarar hennar og NASA henni í fyrstu sem tíundu reikistjörnunni. Vegna þessa og vegna vaxandi líka á því að fleiri áþekkir hnettir myndu finnast ákvað Alþjóðasamband stjarnfræðinga (IAU) að skilgreina í fyrsta skiptið hugtakið „reikistjarna“. Samkvæmt skilgreiningunni sem samþykkt var 24. ágúst 2006 var Eris skilgreind sem dvergreikistjarna ásamt hnöttum á borð við Plútó, Seres, Hámeu og Makemake.Bráðabirgðaniðurstöður af athugunum á stjörnumyrkva af völdum Erisar 6. nóvember 2010 bentu til þess að þvermál hennar væri um það bil 2.326 km en það er minna en talið var í fyrstu og nokkurn veginn hið sama og hjá Plútó. Vegna vikmarka í stærðaráætlunum er ekki hægt að slá því föstu að svo stöddu hvort Plútó eða Eris er stærri. Báðir hnettirnir eru taldir hafa þvermál í kringum 2.330 km.

Fjarstýring

Fjarstýring er tæki sem notað er til að stýra öðru tæki í fjarlægð. Fjarstýringar eru helst notaðar fyrir sjónvarp og tónflutningstæki. Einnig eru til mörg leikföng, sérstaklega bílar sem stýrt er með fjarstýringu. Flestar fjarstýringar nota innrautt ljós til að senda skipanir til móttökutækisins en sumar nota útvarpsmerki. Orkugjafi fjarstýringa er oftast AAA eða AA rafhlöður.

Geislatæki

Geislatæki er tæki sem gefur rafsegulgeislun sem er að mestu utan sýnilega sviðsins, til aðgreiningar frá ljósgjafa sem gefur sýnilegt ljós. Sem dæmi um geislatæki er hitalampi sem gefur mest innrautt ljós og ljósabekkur sem gefur einkum útfjólublátt ljós. Röntgentæki og eindahraðlar gefa orkumikla jónandi geislun, sem ekki stafar frá geislavirkni.

Höggormar

Höggormar eða nöðrur (fræðiheiti: Viperidae) eru eitraðar slöngur, gjarnan með þríhyrningslaga haus. Skröltormar einnig kallaðar skellinöðrur mynda skrölthljóð með því að hrista hornplötur á halanum. Sumir höggormar hafa líffæri sem gera þeim kleift að skynja innrautt ljós og geta því staðsett bráð í myrkri.

Höggormar verða mörgum að bana á hverju ári, einkum í hitabeltinu. Bit þeirra valda oft staðbundum vefjaskemmdum.

Leikjatölva

Leikjatölva er tölva sem er sérhönnuð með það í huga að spila sjónvarpsleiki. Yfirleitt er ætlast til að tölvan sé tengd sjónvarpi og það notað í stað tölvuskjás. Handleikjatölva er leikjatölva sem hönnuð er til að ferðast með. Fyrstu leikjatölvurnar komu út á áttunda áratugnum en þeim er oftast skipt í nokkrar kynslóðar til að aðgreina munina á þeim.

Helstu framleiðendur leikjatölva í dag eru Microsoft, Nintendo og Sony, en Atari og Sega voru bæði áhrífarík fyrirtæki á sínum tíma.

Ljósmynd

Ljósmynd er heiti á mynd, sem fæst við ljósmyndun með sýnilegu ljósi. Hitamynd er samsvarandi mynd sem fæst þegar notast er við innrautt ljós.

Ljóstvistur

Ljóstvistur, ljósdíóða eða ljóstvískaut (enska Light Emitting Diode, skammstafað LED) er tvistur sem gefur frá sér veikt ljós þegar rafstraumur fer um hann. Ljóstvistar eru oftast notaðir sem gaumljós á rafmagnstækjum, en eru stundum notaðir, margir saman, sem ljósgjafar á heimilum, í sumarbústöðum, hjólhýsum og bílum. Ljóstvistar sem gefa frá sér innrautt ljós eru notaðir m.a. í fjarstýringum fyrir sjónvarp og hljómflutningstæki.

Rafsegulgeislun

Rafsegulgeislun eða rafsegulbylgjur (stundum kallað ljós) eru bylgjur í rafsegulsviðinu sem ferðast gegnum rúmið og bera með sér orku. Rafsegulgeislun inniheldur útvarpsbylgjur, örbylgjur, innrautt ljós, sýnilegt ljós, útfjólublátt ljós, röntgengeislun og gammageislun.

Snúið er að lýsa því hvað rafsegulgeislun er. Hægt er að lýsa hegðun rafsegulgeislunar á tvo vegu:

Lýsa má rafsegulgeislun sem bylgjum, samtaka sveiflum í bæði segulsviði og rafsviði líkt og nafnið gefur til kynna. Þessar samtaka sveiflur sveiflast hornrétt hvor á aðra og þvert á þá stefnu sem bylgjurnar ferðast í.

Líka má líta á rafsegulgeislun sem eindir sem streyma um sem litlir orkuskammtar. Ljós fylgir lögmálum skammtafræðinnar.Báðar þessar leiðir eru rétt leið til að lýsa hegðun rafsegulbylgja. Þetta er hið torskilda tvíeðli ljóss.

Rafsegulgeislun verður til þegar frumeindir (atóm) losar frá sér orku. Þegar frumeind tekur í sig orku veldur það því að ein eða fleiri rafeind í frumeindinni hækkar um orkuþrep. Þegar rafeindin dettur aftur niður um orkuþrep myndast rafsegulgeislun. Sú gerð rafsegulgeislunar sem myndast fer eftir frumeind og magni orku, og hún getur verið í formi hita, ljóss, eða annars konar rafsegulgeislunar.

Rafsegulgeislun þarf ekki efni til að berast um í (ólíkt hljóðbylgjum).

Sesín

Sesín eða sesíum (úr latínu: caesius, „himinblár“) er frumefni með efnatáknið Cs og sætistöluna 55 í lotukerfinu. Þetta er mjúkur, silfur-gulllitaður alkalímálmur. Það er einn af fimm málmum sem eru í vökvaformi við stofuhita. Sesín er þekktast fyrir notkun þess í atómklukkum.

Sesín er fyrsta frumefnið sem uppgötvaðist með litrófsgreiningu 1860, þar sem það þekktist af tveimur skærbláum línum.

Stafræn ljósmyndun

Stafræn ljósmyndun er ljósmyndun með stafrænum ljósmyndavélum, sem nota myndflögu í stað filmu til að taka myndir.

Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli

Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli (enska: European Southern Observatory, skammstafað ESO) , er stærsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. ESO var stofnað árið 1962 og eru aðildarríkin orðin 15. ESO tryggir stjarnvísindamönnum rannsóknaaðstöðu á heimsmælikvarða á suðurhveli jarðar. Árlega leggja aðildarríki ESO um 163 milljónir evra til starfseminnar. Þar starfa um 700 manns.ESO er þekkt fyrir að smíða og reka nokkra stærstu og þróuðustu stjörnusjónauka heims. Má þar nefna New Technology Telescope (NTT), þar sem virk sjóntæki voru prófuð í fyrsta sinn, og Very Large Telescope (VLT) sem samanstendur af fjórum 8,2 metra breiðum sjónaukum og fjórum 1,8 metra aukasjónaukum. ESO er þátttakandi í þróun og smíði Atacama Large Millimeter Array (ALMA) og European Extremely Large Telescope (E-ELT).

ALMA er ein stærsta og hæsta stjörnustöð heims og gerir mælingar á millímetra og hálfsmillímetra sviðinu. Smíði hans er langt komin og gert er ráð fyrir að hann verði tekinn í notkun árið 2012. ALMA er samstarfsverkefni Evrópu, Japans, Norður-Ameríku og Chile. ESO hefur umsjón með evrópska hluta verkefnisins og hýsir jafnframt evrópsku svæðisskrifstofuna.

E-ELT er fyrirhugaður 39,3 metra breiður sjónauki sem verður „stærsta auga jarðar“ þegar smíði hans lýkur upp úr 2020. Vonir standa til um að sjónaukinn muni gerbreyta þekkingu okkar í stjarneðlisfræði með nákvæmum rannsóknum á fjarreikistjörnum, fyrstu fyrirbærum alheims, risasvartholum í miðju vetrarbrauta og eðli og dreifingu hulduefnis og hulduorku í alheiminum. Frá árinu 2005 hefur ESO unnið með evrópskum stjarnvísindamönnum við þróun þessa risasjónauka.Margar merkar uppgötvanir í stjarnvísindum hafa verið gerðar með sjónaukum ESO auk þess sem fjölmargar stjörnuskrár hafa verið settar saman. Af nýlegum uppgötvunum má nefna uppgötvun á einum fjarlægasta gammablossa sem sést hefur og sönnunargögn fyrir tilvist svarthols í miðju Vetrarbrautarinnar. Árið 2004 tóku stjörnufræðingar ljósmynd af fjarreikistjörnunni 2M1207b á braut um brúnan dverg í 173 ljósára fjarlægð með Very Large Telescope (VLT). Á 3,6 metra sjónauka ESO er litrófsritinn HARPS (High Accuracy Radial velocity Planet Searcher) sem skilað hefur mestum árangri í leit að fjarreikistjörnum. VLT hefur líka ljósmyndað fjarlægustu vetrarbrautir sem sést hafa í alheiminum hingað til.

Á Stjörnufræðivefnum eru ítarlegar upplýsingar um ESO og stjörnustöðvar samtakanna.

Tvistur

Tvistur eða díóða er rafeindaíhlutur sem aðeins hleypir gegn rafstraumi í eina átt. Tvistar er ólínulegur rásaíhlutur þ.a. straumurinn er ekki línulegt fall af spennunni.

Örbylgjur

Örbylgjur eru rafsegulbylgjur með bylgjulengd á milli 1 millimetra og 1 metra. Bylgjurnar eru lengri en innrautt ljós en styttri en útvarpsbylgjur.

Örbylgjur eru mikið notaðar í tækni, svo sem í til að hita mat í örbylgjuofnum, í fjarskiptabúnaði eins og Wi-Fi, ratsjármælingum, samskiptum við gervihnetti, stjörnuskoðun, og eindahröðlum.

Á öðrum tungumálum

This page is based on a Wikipedia article written by authors (here).
Text is available under the CC BY-SA 3.0 license; additional terms may apply.
Images, videos and audio are available under their respective licenses.