ISBN

ISBN (skammstöfun fyrir enska heitið „International Standard Book Number“) er alþjóðlegur staðall til að einkenna bækur og er ætlað allri almennri bókaútgáfu. ISBN kerfið var upphaflega skapað í Bretlandi af bókabúðakeðjunni W H Smith árið 1966 og var þá kallað „Standard Book Numbering“ eða SBN. Það var tekið upp sem alþjóðastaðallinn ISO 2108 árið 1970. Svipað einkenniskerfi, ISSN („International Standard Serial Number“), er notað fyrir tímarit.

Yfirlit

Allar útgáfur og afbrigði (nema endurprentanir) af prentaðri bók fá sérstakt ISBN númer. Það getur verið 10 eða 13 tölustafa langt og skiptist í fjóra eða fimm hluta:

  1. ef það er 13-tölu ISBN, þá hefst röðin á EAN kóda, annaðhvort 978 eða 979,
  2. útgáfuland eða tungumálanúmer,
  3. útgefandi,
  4. einingarnúmer, og
  5. prófsumma.

Hinir mismunandi hlutar geta haft mismunandi lengd. þeir eru oftast aðskildir með bandstriki.

Landsnúmerið er 0 eða 1 fyrir enskumælandi lönd, 2 fyrir frönskumælandi, 3 fyrir þýskumælandi og svo framveigis. Til dæmis er landsnúmer Íslands er 9979. Sjá allan listan.

Útgefandi fær númer frá skrifstofu ISBN í sínu landi og velur sjálfur einingarnúmerið.

Aristóteles

Aristóteles (gríska: Αριστοτέλης

Aristotelēs; 384 – 7. mars 322 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur frá borginni Stagíru. Hann var nemandi Platons og kennari Alexanders mikla. Aristóteles er, ásamt Platoni, af mörgum talinn áhrifamesti hugsuður í vestrænni heimspeki. Hann var einnig mikilvirkur vísindamaður og fékkst við flestar greinar vísinda síns tíma. Hann skrifaði fjölmargar bækur m.a. um rökfræði (fræðigrein sem hann fann upp), verufræði, frumspeki, eðlisfræði, sálfræði, líffræði, líffærafræði, lífeðlisfræði, dýrafræði, grasafræði, mælskufræði, skáldskaparfræði, siðfræði, stjórnmálafræði og sögu heimspekinnar fram að hans tíma. Bróðurhluti þess efnis sem Aristóteles skrifaði hefur týnst, enduruppgötvast og týnst á ný í gegnum aldirnar. Talið er að aðeins um fimmtungur af verkum hans hafi varðveist.

Biblían

Biblían er safn trúarrita, sem sum eru meira en 2000 ára gömul en önnur nokkru yngri. Orðið Biblía er grískt og þýðir „bækur“ (sbr. alþjóðlega orðið bibliotek).

Biblían skiptist í tvo aðalhluta, Gamla testamentið og Nýja testamentið og fjallar fyrrnefndi hlutinn um sköpun jarðar, upphaf mannfólksins, syndaflóðið, lögmálið, frelsun Ísraels og fólks hans frá Egyptalandi, afhendingu boðorðanna 10 og sýnir og vitranir spámannanna, svo eitthvað sé nefnt. Seinni hlutinn (Nýja testamentið) fjallar um fæðingu Jesú, lærisveina hans, krossfestingu hans og upprisu. Því næst fylgja ýmis bréf sem send voru af lærisveinunum og að lokum spádómsbók um endalok tilvistar okkar á jörðinni. Sumar útgáfur af biblíunni, m.a. biblía 21. aldar, skjóta svokölluðum Apókrýfuritum gamla testamentisins inn milli testamentanna.

Nokkur trúarbrögð álíta rit biblíunnar heilög og byggja trú sína meira eða minna á þeim. Meðal þessara trúarbragða eru gyðingdómur, kristni (Sem skiptist í margar kirkjudeildir, svo sem kaþólska trú, rétttrúnað og mótmælendatrú), mormónatrú, og vottar Jehóva. Þessi trúarbrögð eru þó ekki alveg sammála um hvaða rit eigi heima í biblíunni.

Biblían er víða talin vera mest selda bók allra tíma, hefur áætlaða ársveltu um 100 milljónir eintaka, og hefur haft mikil áhrif á bókmenntir og sögu.

Bolungarvík

Fyrir eyðivíkina á Hornströndum má sjá greinina Bolungavík.Bolungarvík er kaupstaður á Vestfjörðum og sjálfstætt sveitarfélag, við samnefnda vík, yst í Ísafjarðardjúpi. Hún er ein elsta verstöð landsins og er stutt í góð fiskimið. Áður en bærinn fékk kaupstaðarréttindi hét sveitarfélagið Hólshreppur. Þann 1. janúar 2016 var íbúarfjöldi Bolungarvíkur 904 manns. Bolungarvík er næstfjölmennasti bærinn á Vestfjörðum og þriðja fjölmennasta sveitarfélagið á eftir Vesturbyggð (1013 íbúar) og Ísafjarðarbæ(3623 íbúar).

DOI-númer

DOI-númer (Digital Object Identifier) eru kennimerki fyrir stafræn viðfangsefni sem eru nú víða notuð til þess að auðkenna fræðigreinar og opinber gagnasöfn. Kennimerkið er staðlað af Alþjóðlegu staðlastofnuninni.

DOI er uppflettanlegt og bendir á einhverskonar upplýsingar um hlutinn. Þetta er gert með því að binda kennimerkið við lýsigögn um efnið, eins og netslóð, sem gefur til kynna hvar má finna hlutinn. Ef vefslóðin breytist er gagnagrunnurinn uppfærður, og kennimerkið nær þannig enn að vísa á réttan hlut. Þar sem hægt er að nýta DOI beint er það öðruvísi en önnur kennimerki eins og ISBN eða ISRC, sem eru eingöngu til þess að hafa einstakt auðkenni á hlutnum. Sem dæmi um DOI-númer má taka „10.1000/182“, sem vísar á handbókina um DOI-númer.

DOI-númer er útfærsla á handfangakerfinu, kerfi sem aðrar stofnanir geta einnig nýtt sér. Skemman, rafrænt varðveislusafn háskólasamfélagsins á Íslandi, nýtir sér handfangakerfið og virkar það á sama hátt.

DOI-kerfið var kynnt til sögunnar árið 2000. Árið 2013 höfðu yfir 85 milljón kennimerki verið gefin út.

Dulfrævingar

Dulfrævingar (eða blómplöntur) er annar tveggja helstu hópa fræplantna. Þeir skera sig frá öðrum fræplöntum að því leyti að þeir hylja fræ sín aldini. Þeir bera þar að auki blóm sem inniheldur æxlunarfæri þeirra. Inni í blóminu er fræblað og inni í því er eggbúið. Af þessum ástæðum eru þeir nefndir dulfrævingar. Hjá stærsta hópi fræplantna, berfrævingunum, eru eggbúið hvorki hulið fræblaði né fræin hulin aldini.

Dulfrævingar skiptast í einkímblöðunga og tvíkímblöðunga.

Enska

Enska (English; framburður ) er vesturgermanskt tungumál sem á rætur að rekja til fornlágþýsku og annarra náskyldra tungumála Engla og Saxa, sem námu fyrstir Germana land á Bretlandseyjum, en málið hefur orðið fyrir miklum áhrifum frá ýmsum öðrum málum, þá sér í lagi latínu, fornnorrænu, grísku, og keltneskum málum sem fyrir voru á eyjunum.

Enska er töluð víða í heiminum, og er opinbert mál á Englandi, Írlandi, Skotlandi, Wales, Nýja Sjálandi, Ástralíu, Suður-Afríku, Bandaríkjunum, Kanada og fjölmörgum öðrum löndum.

Þróunarsögu ensku er skipt í þrjú tímabil. Elst er fornenska (Old English), sem er einnig kölluð engilsaxneska eftir hinum germönsku Englum og Söxum sem réðu ríkjum á Englandi frá 5. öld og fram á víkingaöld. Miðenska (Middle English) var töluð eftir komu víkinga og fram að þeim tíma þegar prentsmiðjur urðu algengar. Eftir tilkomu prentsmiðjanna hefur verið talað það mál sem við þekkjum nú (nútímaenska).

Finnland

Finnland (finnska Suomi, Suomen tasavalta, sænska Republiken Finland) er eitt Norðurlandanna í norðanverðri Evrópu. Landið liggur að tveimur flóum úr Eystrasalti, Helsingjabotni í vestri og Kirjálabotni í suðri. Það á einnig landamæri að Svíþjóð í vestri, Noregi í norðri og Rússlandi í austri. Álandseyjar í Eystrasaltinu eru undir finnskri stjórn en njóta víðtækrar sjálfstjórnar. Finnland er stundum nefnt Þúsundvatnalandið.

Finnland er í Evrópusambandinu og er eina Norðurlandaþjóðin sem hefur tekið upp evruna sem gjaldmiðil.

Höfuðborg Finnlands heitir á finnsku Helsinki og sænsku Helsingfors og er einnig stærsta borg landsins. Aðrir stærstu bæir í stærðarröð eru eftirfarandi: Espoo (sænska: Esbo), Tampere (s. Tammerfors), Vantaa (s. Vanda), Turku (s. Åbo) og Oulu (s. Uleåborg). Espoo og Vantaa ásamt Helsinki mynda höfuðborgarsvæðið.

Forngríska

Forngríska er það tímabil í grískri málsögu sem samsvarar klassískri fornöld. Tímabilinu má skipta gróflega í fjögur smærri tímabil: mýkenskan tíma, snemmgrískan tíma, klassískan tíma og síðklassískan tíma eða síðfornöld.

Gríska er indóevrópskt tungumál

Kasakstan

Kasakstan er stórt land sem nær yfir mikinn hluta Mið-Asíu. Hluti landsins er vestan Úralfljóts og telst til Evrópu. Landamæri Kasakstan liggja að Rússlandi, Kína og Mið-Asíuríkjunum Kirgistan, Úsbekistan ogTúrkmenistan og einnig að strönd Kaspíahafsins. Kasakstan var áður Sovétlýðveldi en er nú aðili að SSR.

Málvísindi

Málvísindi er sú grein vísinda sem fæst við rannsóknir á tungumálum. Erfitt er að henda á því reiður hvert er nákvæmt viðfangsefni málvísinda því þau tengjast nánast öllum fræðum um manninn að einhverju leyti.

Regnbogafiskar

Regnbogafiskar (fræðiheiti: Melanotaeniidae) eru smáir, litríkir, ferskvatnsfiskar sem eru frá norður og austur Ástralíu, Nýju-Gíneu og Indónesíu (eyjum í Cenderawasih-flóa og Raja Ampat).

Nafn stærstu ættkvíslarinnar: Melanotaenia, er dregið af forngríska melano (svart) og taenia (rákótt), og er það tilvísun í oft áberandi svartar rákir eftir hlið fiskanna í Melanotaenia.

Rökfræði

Rökfræði er undirgrein heimspekinnar sem fæst við gildi ályktana.

Fræðigreinin var fundin upp af forngríska heimspekingnum Aristótelesi á 4. öld f.Kr. Um miðja 19. öld fóru stærðfræðingar að sýna rökfræðinni aukinn áhuga, en nútímarökfræði er venjulega sögð verða til undir lok 19. aldar og er Gottlob Frege gjarnan talinn faðir nútímarökfræði.

Sauðfé

Sauðfé (fræðiheiti: Ovis aries) eru ullarklædd, fjórfætt jórturdýr (ættkvísl Ovis). Sauðfjárkyn eru talin upprunin í fjallendum Tyrklands og Írans (fræðiheiti Ovis orientalis), en vísbendingar eru um það sauðfjárkyn frá því um 9.000 f.Kr.

Skoll og Hati

Skoll (stundum ritað Sköll) og Hati Hróðvitnisson eru tveir úlfar í norræni goðafræði sem elta sólina og mánann yfir himinhvolfið. Skoll eltir Sól, sem ekur á vagni sínum um himininn, en Hati eltir bróður hennar, Mána. Báðir úlfarnir munu ná bráð sinni í ragnarökum: Skoll mun gleypa sólina en Hati mun gleypa tunglið.

Surtur

Surtur er eldjötunn í norrænni goðafræði. Hann kemur úr Múspellsheimi og í Ragnarökum ríður hann um jörðina ásamt Múspellssonum og brennir jörðina með glóandi sverði. Þegar þeir ríða yfir Bifröst, brúna sem tengir Miðgarð og Ásgarð, brotnar hún; svo verður Surtur Frey að bana.

Þekktustu örnefni á Íslandi í höfuðið á Surti eru hraunhellirinn Surtshellir, lengsti hellir landsins, og Surtsey, eyja skammt frá Vestmannaeyjum sem varð til í eldgosi á árunum 1963-1967.

Suðurskautslandið

Suðurskautslandið (einnig kallað Suðurheimskautslandið eða Suðurskautið) er syðsta heimsálfa jarðarinnar og er Suðurpóllinn á henni. Það er á suðurhveli jarðar, að miklu leyti fyrir sunnan suðurheimskautsbaug og er umlukið Suður-Íshafinu. Suðurskautslandið er um það bil 14 milljón ferkílómetrar og því fimmta stærsta heimsálfan að flatarmáli á eftir Asíu, Afríku, Norður Ameríku og Suður Ameríku. Af flatarmáli Suðurskautslandsins eru 98% undir jökulís, sem er að meðaltali 1,6 kílómetra þykkur.

Að meðaltali er Suðurskautslandið kaldasta, þurrasta og vindasamasta heimsálfan og að auki hálendust þeirra allra að meðaltali. Vegna þess hversu úrkoman er lítil annars staðar en við strendurnar, er meginland álfunnar að þeim undanskildum fræðilega séð stærsta eyðimörk í heimi. Ekkert fólk hefur varanlega búsetu á Suðurskautslandinu og þar eru engin ummerki um núverandi eða forsögulegar byggðir manna. Þar lifa aðeins plöntur og dýr sem þola kulda vel, til dæmis mörgæsir, nokkrar tegundir hreifadýra, mosar, fléttur og margar tegundir þörunga.

Þrátt fyrir að rekja megi goðsagnir og getgátur um Terra Australis („Landið í suðri“) aftur í fornöld, er almennt viðurkennt að Suðurskautslandið hafi fyrst sést í rússneskum leiðangri árið 1820 sem Mikhail Lazarev og Fabian Gottlieb von Bellingshausen fóru fyrir. John Davis steig mögulega fyrstur manna fæti á Suðurskautslandið, þann 7. febrúar 1821. Hins vegar var heimsálfunni gefinn lítill gaumur fram á 20. öldina vegna óblíðrar veðráttu, skorts á auðlindum og einangrunar.

William Shakespeare

William Shakespeare (26. apríl 1564 – 23. apríl 1616) var enskur leikari, leikskáld og ljóðskáld. Hann samdi um 38 leikrit, 154 sonnettur og önnur ljóð. Leikrit hans náðu töluverðum vinsældum meðan hann lifði og eftir að hann lést varð hann smám saman mikilvægari í samhengi bókmennta á ensku og nú á dögum er ekki óalgengt að hann sé kallaður mesti rithöfundur á enskri tungu fyrr og síðar. Hann hefur jafnan verið kallaður þjóðskáld Englendinga eða „hirðskáldið“ (the bard).

Leikritunarferli Shakespeares er stundum skipt í þrjá meginhluta; fyrstu gamanleikina og sögulegu leikritin (t.d. Draumur á Jónsmessunótt og Hinrik IV, 1. hluti), miðtímabilið þegar hann skrifar flesta frægu harmleikina (eins og Rómeó og Júlía, Óþelló, Makbeð, Hamlet og Lé konung) og seinni rómönsurnar (Vetrarævintýri og Ofviðrið). Mörg af leikritunum eru endurgerðir eldri leikrita líkt og þá tíðkaðist.

Íslam

Íslam (arabíska الإسلام al-islām framburður ), einnig nefnt múhameðstrú, er eingyðistrú og er guð þeirra nefndur Allah á arabísku og rekur uppruna sinn til arabíska spámannsins Múhameðs sem var uppi á 6. og 7. öld eftir Krist. Fylgjendur íslams kallast múslimar. Íslam er af abrahamískum stofni og talin næst fjölmennustu trúarbrögð heims á eftir kristni. Í samanburði við önnur trúarbrögð á íslam einna mest skylt við kristni og sækir ýmislegt til gyðingdóms þar sem lifað er eftir reglum svo sem hvað varðar matarvenjur, föstu á ákveðnum tímum, umskurn á kynfærum, reglulegar bænir og fleira. Margir trúarsiðir í íslam eru upprunnir úr heiðnum trúarbrögðum araba frá því fyrir tíma Múhameðs. Íslam er ekki einungis trúarbrögð heldur er þeim oft lýst sem allsherjar lífsreglum sem taka til allra þátta lífs múslima, bæði félagslegra, efnahagslegra, siðferðislegra og andlegra. Stjórnskipan, réttarfar, löggjöf, refsingar og almennar lífsvenjur múslima taka mið af trúartextum íslams og lífi spámannsins Múhameðs.

Íslam er stundum nefnd múhameðstrú á íslensku. Samsvarandi heiti voru notuð í flestum Evrópumálum en eru nú óðum á undanhaldi. Ástæðan er sú að múslimar (fylgjendur íslam) álíta hugtakið „múhameðstrú“ villandi þar sem Múhameð er spámaður en ekki Guð.

Þýska

Þýska (deutsch; framburður ) er tungumál, sem talað er og ritað aðallega í Þýskalandi, Austurríki og Sviss. Þýska tilheyrir germönskum málum, eins og danska, norska, sænska, íslenska, færeyska, enska og hollenska. Germönsk mál flokkast síðan til indó-evrópskrar málaættar og eru fjarskyld málum eins og til dæmis sanskrít.

Á öðrum tungumálum

This page is based on a Wikipedia article written by authors (here).
Text is available under the CC BY-SA 3.0 license; additional terms may apply.
Images, videos and audio are available under their respective licenses.