Harðstjórn

Harðstjórn er stjórnarfyrirkomulag sem felur í sér þéttriðið net einstaklinga sem ræður ríkjum með algerum pólitískum yfirráðum. Hin forna skilgreining á harðstjórn er yfirráð eins manns, sem nefndur er harðstjóri, og hefur alla valdatauma í hendi sér og allir aðrir lúta valdi hans en hann gætir sinna eigin hagsmuna fremur en hagsmuna heildarinnar. Harðstjórn er í raun hið fyrsta stjórnarform þegar einhvers konar ríkisvald og siðmenning kemst á. Faróar eru ágætt dæmi um fyrri tíma harðstjóra.

98

Árið 98 (XCVIII í rómverskum tölum)

Alræði

Alræði er tegund stjórnarfars þar sem ríkisvaldið hefur afskipti af flestum eða öllum þáttum mannlífsins, bæði í opinberu lífi og einkalífi. Einræðisríki eru gjarnan alræðisríki en alræðisríki þurfa ekki öll að vera einræðisríki.

Birtíngur

Fyrir útgáfufélagið, sjá Birtíngur útgáfufélag.Birtíngur, eða Candide, ou l'Optimisme eins og hún nefnist á frummálinu, er frönsk háðsádeila rituð árið 1759 af Voltaire, kunnum rithöfundi og heimspekingi frá dögum upplýsingarinnar. Voltaire var bæði skáld og fræðimaður og ritaði um allt milli himins og jarðar. Hann barðist ötullega gegn harðstjórn, hjátrú, stjórnarkreddum og bábiljum. Mörg verka hans voru rituð í hugmyndafræðilegum tilgangi. Fá rit hans hafa haldið nafni hans jafnkröftuglega á loft og Birtíngur, sem skrifuð var sem andsvar við löghyggju 18. aldar, einkum bjartsýnisheimspeki manna á borð við hinn þýska heimspeking Gottfried Wilhelm Leibniz og því hlutleysi sem slík heimspeki fól í sér. Samkvæmt henni er skynsamleg regla á sköpunarverkinu og vel það, því að guð hlýtur að hafa skapað hinn besta mögulega heim allra hugsanlegra heima, jafnvel þótt íbúar þessa heims komi ekki endilega alltaf auga á það. Eða eins og Altúnga, lærimeistari Birtíngs og ötull fylgismaður þessara kenninga, segir í upphafi verksins: „Maður á að segja að allt sé í allra besta lagi.“ Birtíngur er samfelld háðsádeila á þessa skoðun, þar sem prófessor Altúnga er látinn þylja heimspeki Leibniz í augljósri skopstælingu, þar á meðal frumsetningu hans um hina einhlítu ástæðu, það er að segja að hver hlutur sé til af skynsamlegri ástæðu þar sem að sérhverjum sannindum hnígi skynsamleg rök.

Halldór Laxness íslenskaði Birtíng og kom þýðing hans fyrst út árið 1945. Hún hefur síðan tvisvar sinnum verið endurútgefin af Hinu íslenska bókmenntafélagi í bókaflokknum Lærdómsrit Bókmenntafélagsins. Hafnarfjarðarleikhúsið setti árið 1996 upp leikgerð byggða á útgáfu Laxness, og Á herranótt, leikfélag Menntaskólans í Reykjavík, endurtók sama leik árið 2006.

Einræði

Einræðisríki, ólíkt lýðræðisríkjum, byggja ekki á grundvallargildum líkt og umburðarlyndi, viðurkenningu grundvallarréttinda og jöfnum rétt allra fyrir lögum. Í slíkum ríkjum er tiltekin valhópur í stað kjósendahóps, sem veitir valdhafa umboð til að stjórna. Því myndast umboðskeðja milli valdhópsins og valdhafans en fólkið, almenningur, heyrir undir beint boðvald valdahafans og hefur því ekkert að gera með stjórn landsins, það veitir engum umboð en er samt undir valdsviði hans. Einræðisríki eru flokkuð eftir gerð valdhópsins. Dæmi um einræðislegt stjórnarform eru:

Konungsríki þar sem fjölskyldan er valdhópurinn

Theokratía þar sem stigveldi kirkjunnar er valdhópurinn (Íran)

Eins flokks ríki þar sem flokksstrúktúrinn er valdhópurinn (Kína)

Persónustjórn þar sem fjölskylda valdahafa er valdhópurinn

Herstjórn þar sem formgerð hersins er valdhópurinn (Egyptalandi)Valdhafar einræðisríkja eru einungis ábyrgir gagnvart valdhóp sínum svo almenningur hefur ekkert að segja um stjórn ríkisins og hefur valdhafi því vald yfir almenningi sem ekki er lögmætt af honum sjálfum.

Alræðisríki hafa einræðislegt stjórnarform en eru ekki einræðis ríka af því að:

Þau beita mikilli hugmyndafræði og beina henni með öflugum hætti að almenningi

Þau reyna ítrekað að stjórna háttsemi almennings og nýta það sem kúga hann til að þjóna ríkinu

Þau banna algjörlega alla samfélagslega margræðni, það er tilvist hagsmuna samtaka sem dæmi.

Einveldi

Þessi grein fjallar um stjórnarfar sem skal ekki ruglast saman við „einvalda“ stak innan stærðfræðinnar.

Einveldi er tegund stjórnarfars þar sem einvaldurinn — oftast konungur — hefur algjör völd til þess að stýra landinu og íbúum þess. Hann er eina uppspretta og trygging laga og réttar og er því ekki sjálfur bundinn af lögum. Einvaldurinn var talinn hafa vald sitt beint frá Guði og þannig hafa ótakmörkuð völd yfir öllum landsmönnum, jafnvel aðlinum.

Frelsið

Frelsið (e. On Liberty) er rit á ensku um heimspeki eftir breska heimspekinginn John Stuart Mill. Það kom fyrst út árið 1859. Það þótti á sínum tíma afar róttækt verk.

Mill hélt því fram að hver einstaklingur réði yfir sjálfum sér, líkama sínum og hug, og ætti að vera frjáls undan „harðstjórn meirihlutans“, sem með ósögðum siðareglum og siðferðishugmyndum stjórnar samfélaginu með harðri hendi. Mill hélt því fram að einstaklingur ætti að vera frjáls til þess að gera hvaðeina sem skaðar ekki aðra. Öll afbrigði frjálshyggju telja að þetta sé hornsteinn stefnu sinnar. Aftur á móti greinir menn á um hvað felist í því að skaða aðra.

Frelsið var gríðarlega áhrifamikið rit og hugmyndirnar sem Mill setur fram í ritinu eru enn áhrifamiklar í stjórnspeki og stjórnmálum, þar sem þær móta stefnu margra stjórnmálaflokka og -hreyfinga. Ritið er auk þess stutt og auðlesið.

Fulltrúalýðræði

Fulltrúalýðræði kallast sú tegund lýðræðis þar sem kjósendur kjósa sér fulltrúa til þess að fara með völd, ólíkt beinu lýðræði þar sem kjósendur geta m.a. með þjóðaratkvæðagreiðslu haft bein áhrif á ákvarðanir sem eru teknar.

Í fulltrúalýðræði er vald kjörinna fulltrúa oft takmarkað með ákvæðum í stjórnarskrá.

Fáveldi

Fáveldi, fáveldisstjórn eða fámennisstjórn (stundum nefnt fámennisræði eða oligarkí) er stjórnarfar sem vísar til þess þegar stjórn (oftast ríkis) er í höndum fárra í krafti erfða, auðmagns, hernaðarlegra ítaka eða trúarlegra yfirráða. Hið alþjóðlega orð oligarkí (gríska: Ὀλιγαρχία: Oligarkía) er myndað úr tveimur orðum ὀλίγος, sem merkir fáir og ἀρχή sem merkir ræði (ráð, forræði) eða veldi. Óformlega getur hugtakið fáveldi vísað til fámenns hóps sem vegna einhverskonar sérréttinda hefur komist til valda. Hið nýja Rússland sem varð til eftir fall Sovétríkjanna hefur t.d. stundum verið tengt við fáveldisstjórn sökum ítaka stórfyrirtækja og margmiljarðamæringa við stjórn landsins.

Hrói höttur

Hrói höttur er persóna úr enskum þjóðsögum frá miðöldum. Sögurnar gerast á Englandi, nánar til tekið í Skírisskógi í Nottinghamshire í Englandi. Flestir sagnfræðingar eru þó á því að Hrói hafi verið fæddur í Loxley í suðurhluta York-héraðs og að hann sé grafinn í Kirkleesklaustri í vesturhluta Yorkhéraðs.

Í nýrri útgáfunum af sögunum og þeim sem þekktari eru er Hrói mikil hetja sem berst gegn óréttlæti og harðstjórn og er þekktur fyrir að stela frá þeim ríku til að gefa þeim fátæku. Hrói höttur er því orðinn eins konar staðalímynd manneskju sem er tilbúin til að gera hvað sem er, meira að segja brjóta lögin, til að aðstoða þá sem minna mega sín.

Í sögunum hefur Hrói stóran hóp fylgismanna, útlaga sem berjast með honum og styðja hann. Í nýrri útgáfum sagnanna er fógetinn í Nottingham mikill harðstjóri sem misnotar stöðu sína til að bæta eigin hag t.d. með ólögmætum eignaupptökum á landi, ofursköttum og ofsóknum á hendur hinum fátæku. Í sumum útgáfum er Jóhann prins andstæðingurinn, sem situr að völdum á meðan bróðir hans Ríkharður ljónshjarta er í krossför í landinu helga. Jóhann prins var uppi á síðari hluta 12. aldar og byrjun þeirrar 13. (f. 24. desember 1166, d. 19. október 1216). Hann var yngri bróðir Ríkharðs og tók við ríkinu eftir dauða hans. Jóhann hafði viðurnefnið lackland, sem þýðir í raun landlaus, vegna þess að sem yngsti sonur átti hann ekki tilkall til valda og erfða. Hann hefur verið nefndur Jóhann landlausi á íslensku og er í raun ekki sá þorpari og skálkur sem margar sögurnar um Hróa hött gefa til kynna. Hann er nú á tímum ef til vill frægastur fyrir að hafa undirritað Magna Carta sem minnkaði völd konungsins í Englandi og margir telja fyrstu tilburði til þess að koma á lýðræðislegum stjórnunarháttum í konungsríki.

Í elstu útgáfunum er Hrói höttur lágstéttarmaður en í þeim síðari er honum yfirleitt lýst sem aðalsmanni og landeiganda. Sumar sögurnar segja að hann hafi barist í krossferðunum en þegar hann kom heim hafi fógetinn veri búinn að yfirtaka landareign hans.

Klerkaveldi

Klerkaveldi, guðveldi eða guðveldisstjórn er tegund stjórnarfars þar sem stjórnin er í höndum kirkju eða klerkaráðs sem stjórna í nafni einhverra æðri máttarvalda. Slíkt stjórnarfar stjórnar oftast samkvæmt guðslögum.

Í dag eru það fyrst og fremst tvö ríki sem sögð eru búa við klerkaveldi: Vatíkanið, þar sem páfinn er þjóðhöfðingi en þar sem löggjöf er í meginatriðum sú sama og á Ítalíu, og Íran þar sem klerkaráð undir forystu æðstaklerks eru samkvæmt stjórnarskrá Írans sett yfir lýðræðislega kjörna fulltrúa, forseta og þing.

Lénsskipulag

Lénsskipulagið var fyrirkomulag um eignarhald og notkun á landi sem notað var í Evrópu á miðöldum (svipað fyrirkomulag var einnig notað í Japan á sjogún tímabilinu).

Við fall Rómaveldisins úthlutuðu keisararnir landsvæðum til aðalsmanna sem í staðinn hétu þeim stuðningi sínum. Þessi svæði voru kölluð höfuðból eða herragarðar og aðalsmaðurinn á höfuðbólinu átti landið og allt sem á því var, sem var yfirleitt kastali, lítið þorp og ræktað land. Aðalsmennirnir tóku landið formlega að láni (léni) og var landssvæðið því kallað „lén“ og aðalsmaðurinn „lénsherra“.

Bændurnir fengu að búa á landinu og fengu vernd lénsherrans í skiptum fyrir vinnu eða skatta. Flestir bændur urðu þá ánauðugir bændur og máttu ekki flytja af landinu nema að kaupa sér frelsi (sbr. vistarband). Þessir ánauðugu bændur höfðu það litlu betra en þrælar [engin heimild gefinn fyrir þessari hlutdrægu alhæfingu], eini munurinn var sá að það mátti ekki selja þá á milli höfuðbóla.

Þeir þurftu oft að vinna 3-4 daga vikunnar fyrir lénsherra upp í leiguna og afganginn af vikunni unnu þeir við að rækta mat fyrir sig og fjölskyldu sína. Sumir bændur unnu eingöngu á akrinum en þeir þurftu þá að borga lénsherranum mikinn meirihluta þess sem þeir ræktuðu.

Lýðræði

Lýðræði er vítt hugtak yfir þær stjórnmálastefnur sem byggja á þátttöku almennings í ákvörðunum er hann varðar. Grunnútgangspunkturinn er því að valdið í tilteknu samfélagi manna eigi sér frumuppsprettu hjá fólkinu. Fyrr á öldum, allt fram að nútímanum, var fullveldi talið til óskoraðs guðdómleika konunga á Vesturlöndum. Almenningur lét ekki til sín taka fyrr en í frönsku byltingunni. Í sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna var vísað til sameiginlegs „réttar fólksins” sem ekki hafði áður spurst til.

Fulltrúalýðræði er algengasta mynd lýðræðis í dag. Sökum takmarkana á tíma og aukinnar sérþekkingar sem þarf til þess að taka ákvarðanir um hin ýmsu mál sem skipta máli hefur orðið til sérhæfð verkaskipting þar sem stjórnmálamenn bjóða sig fram til embætta. Stjórnmálamennirnir þiggja umboð fólksins í kosningum og gerast þannig fulltrúar almennings og taka ákvarðanir fyrir hans hönd. Beint lýðræði felur í sér að almenningur tekur beinan þátt í ákvarðanatöku, án fulltrúa eða annarra milliliða. Beint lýðræði er sjaldgæfara stjórnarfyrirkomulag en sem dæmi um það má nefna mikilvægi þjóðaratkvæðagreiðslna í Sviss. Sögulega er eitt þekktasta dæmið um beint lýðræði frá Forn-Grikklandi, þegar borgríkið Aþena var og hét.

Lýðveldi

Lýðveldi er tegund stjórnarfars þar sem að þjóðhöfðinginn er kjörinn eða útnefndur, oftast um ákveðinn tíma en embættið er ekki látið ganga í arf líkt og í konungsveldum. Það að land sé lýðveldi þarf ekki að merkja það að stjórnarfarið í því landi einkennist af lýðræði. Stundum er þjóðhöfðinginn kjörinn af þjóðinni sjálfri en stundum af kjörmönnum, þingi eða fámennri valdaklíku.

Lýðveldi sem stjórnarfar er mjög gamalt en frægasta lýðveldi fornaldar er tvímælalaust Rómaveldi sem var lýðveldi frá 509 f.Kr. til 27 f.Kr. og fylgdi tveimur grundvallarlögmálum varðandi embætti ræðismanns eins og æðsta embætti ríkisins var kallað. Annars vegar var það að enginn skyldi gegna embættinu lengur en eitt ár og hins vegar það að aldrei skyldu færri en tveir menn gegna embættinu á sama tíma.

Í dag eru flest ríki heims lýðveldi en það segir lítið um það hversu lýðræðislegir stjórnarhættir eru, til dæmis er Íran lýðveldi en stjórnarfar þar myndi seint teljast lýðræðislegra en í konungsríkinu Danmörku. Nokkur lýðveldi nútímans eru:

Bandaríkin - Forseti er kosinn af kjörmönnum en hvert ríki sambandsins hefur ákveðinn fjölda kjörmanna, sá forsetaframbjóðandi sem fær flest atkvæði í ríkinu fær atkvæði allra kjörmanna þess ríkis (þó eru tvær undantekningar frá þessari reglu), þannig er það mögulegt að sá frambjóðandi sem fær færri atkvæði á landsvísu vinni samt kosningarnar.

Íran - Landið hefur tvo þjóðhöfðingja, andlegan leiðtoga (Rahbar) sem kosinn er af klerkaráðinu og veraldlegan forseta sem kosinn er beint af þjóðinni.

Ísland - Forseti er kosinn beinni kosningu af þjóðinni.

Alþýðulýðveldið Kína - Forseti að nafninu til kosinn af þinginu en í reynd valinn eftir samningaviðræður meðal æðstu manna Kommúnistaflokksins.

Sviss - sjö manna ráð gegnir hlutverki þjóðhöfðingja, þingið kýs meðlimi ráðsins og þeir skiptast á að gegna forsetaembættinu eitt ár í senn.

Þýskaland - Forseti er kosinn af þinginu.

Ríkharður 2. Englandskonungur

Ríkharður 2. (6. janúar 1367 – um 14. febrúar 1400) var konungur Englands, sá síðasti af aðalgrein Plantagenet-ættar, frá því að afi hans, Játvarður 3., dó árið 1377 og þar til hann var settur af 1399.

Heimildum ber saman um að Ríkharður hafi þótt óvenju fríður maður, hávaxinn, íþróttamannslegur, vel gefinn og vel menntaður. Hann var enginn stríðsmaður eins og faðir hans og afi höfðu verið og kaus friðarsaminga við Frakka fremur en stríð. Fyrri tíma fræðimenn töldu sumir að hann hefði verið sjúkur á geði en heimildir þykja þó frekar bera merki um að hann hafi þjáðst af ákveðnum persónuleikabrestum, einkum síðustu árin.

Saddam Hussein

Saddam Hussein (28. apríl 1937 – 30. desember 2006) var forseti Íraks frá 1979 fram að árás Bandaríkjamanna inn í landið 2003. Hann var handtekinn af herliði Bandamanna 13. desember 2003 og dæmdur til dauða 5. nóvember 2006. Hann var hengdur þann 30. desember 2006 samkvæmt dómsúrskurði.

Saddam Hussein var alræmdur fyrir harðstjórn sína og hrottaskap gegn andófsmönnum. Fjölmargar erlendar ríkisstjórnir og alþjóðasamtök sökuðu hann um mannréttindabrot, stríðsglæpi, morð, glæpi gegn mannkyninu og þjóðarmorð. Sumir hlutar Arabaheimsins telja hann þó hafa sett gott fordæmi með andstöðu sinni við bandarísk og ísraelsk yfirráð í miðaustrinu. Mikill ófriður og pólitískur óstöðugleiki hefur ríkt í Írak frá því að Saddam var rekinn frá völdum.

Stefán Englandskonungur

Stefán (um 1096 – 25. október 1154), oft nefndur Stefán af Blois (enska: Stephen of Blois; franska: Étienne de Blois) var konungur Englands frá 1135 til dauðadags og var síðasti Normannakonungurinn. Hann átti mestalla valdatíð sína í stríði við frænku sína, Matthildi keisaraynju, og hefur tímabilið verið kallað Stjórnleysið.

Í fornum íslenskum heimildum er Stefán stundum kallaður Stefnir.

Tækniveldi

Tækniveldi (enska: technocracy) er stjórnarfyrirkomulag þar sem sérfróðir menn og vísindamenn fara með völd.

Valdimar 3.

Valdimar 3. (um 1314 – 1364) var konungur Danmerkur 1326-1330 og hertogi af Slésvík (Valdimar 5.) 1325-1326 og frá því að hann lagði niður konungstign 1329 og til dauðadags.

Valdimar var sonur Eiríks 2. hertoga af Slésvík og Aðalheiðar konu hans, en hún var systir Geirharðs 3. greifa af Holtsetalandi. Eiríkur hertogi var afkomandi Abels konungs og því kom Valdimar til greina sem ríkiserfingi eftir lát Eiríks menved en Kristófer bróðir hans var þó valinn konungur. Þegar Eiríkur dó 1325 vildu Geirharður og Kristófer báðir fá forræði yfir honum og hertogadæmi hans. Þau átök ásamt mikilli óánægju með harðstjórn og skattpíningu Kristófers urðu til þess að hann var rekinn úr landi og Valdimar gerður að konungi í hans stað. Geirharður móðurbróðir hans, sem líka var stærsti veðhafinn í skuldum Danmerkur, var útnefndur ríkisstjóri. Stjórn hans og hinna aðalsmannanna naut þó ekki vinsælda meðal bænda; bæði voru þeir flestir útlendingar og svo skattpíndu þeir almenning engu minna en Kristófer hafði gert. Bændauppreisnir voru gerðar 1328 og 1329 og þótt þær væru bældar niður gafst Geirharður upp á að halda Valdimar á konungsstóli. Kristófer sneri aftur 23. febrúar 1329 - varð þó raunar ekki konungur nema á Sjálandi og Skáni og aðeins að nafninu til - en Valdimar varð aftur hertogi af Slésvík og ríkti þar í 35 ár.

Þegar Valdimar varð fullorðinn þótti honum nóg um veldi móðurbróður síns, sem réði yfir Vestur-Holtsetalandi, Fjóni og Norður-Jótlandi og var farinn að seilast inn í Slésvík. Hann hafði því samband við Valdimar, yngsta son Kristófers 2., sem var við keisarahirðina í Bæjaralandi, og ýmsa jóska aðalsmenn, og urðu þeir sammála um að endurreisa konungdæmið. Geirharður bjóst til að kæfa þessa hreyfingu í fæðingu en var veginn í Randers 1. apríl 1340 af Niels Ebbesen. Eftir nokkur átök um sumarið gengu synir Geirharðs, Járn-Hinrik og Kláus, til friðarsamninga og Valdimar atterdag settist á konungsstól (en réði að vísu fyrst í stað aðeins yfir Norður-Jótlandi) með stuðningi Valdimars hertoga.

Kona Valdimars var Richardis af Schwerin-Wittenburg, og þau áttu synina Valdimar og Hinrik, sem erfði hertogadæmið eftir föður sinn.

Verðleikaræði

Verðleikaræði er stjórnkerfi sem leggur áherslu á að útdeila valdi og ábyrgð til einstaklinga eftir verðleikum fremur en auðlegð, vinsældum eða félagslegri stöðu þeirra. Hugtakið var fyrst opinberlega notað í niðrandi merkingu í bókinni Rise of Meritocracy eftir Michael Young árið 1958, bókin lýsir fjarlægri framtíð þar sem félagslegar skyldur og hlutverk einstaklinga ráðast af greind þeirra, hæfni, getu og viðleitni. Í bókinni leiðir þetta kerfi að lokum til byltingar með því að lýðurinn steypir valdhöfum af stóli, þar sem þeir hafa orðið hrokafullir og fráhverfir tilfinningum almennings.

Þrátt fyrir neikvæða notkun orðsins í upphafi aðhyllast margir verðleikaræði á grundvelli þess að það sé bæði réttlátara og afkastameira en önnur kerfi, jafnframt því að það myndi að lokum binda enda á mismunun á grundvelli kynþáttar eða efnahags.

Á öðrum tungumálum

This page is based on a Wikipedia article written by authors (here).
Text is available under the CC BY-SA 3.0 license; additional terms may apply.
Images, videos and audio are available under their respective licenses.