Guðfræði

Guðfræði er sú fræðigrein sem á vísindalegan hátt fæst við trúarbrögð, andleg málefni og Guð. Í dag er orðið einkum notað í kristnu samhengi og vísar það þá yfirleitt til þeirra fræða sem kristnir guðfræðingar iðka. Vissulega er orðið notað innan annarra trúarhefða, sér í lagi eingyðistrúarbragða, en alls ekki jafn oft og í kristni. Orðið sjálft, guðfræði, á uppruna sinn í hinum forna gríska menningarheimi en merking þess breyttist hægt og bítandi er kristnir höfundar fornaldar fóru að nota það í verkum sínum.

Svið guðfræðinnar

Kristinni guðfræði má skipta niður í ólík fræðasvið en skiptingin er ólík og misnákvæm eftir háskólum. Meðal fræðasviða innan guðfræðinnar má nefna:

Saga hugtaksins

 • Í klassískum grískum bókmenntum var orðið guðfræði notað um þau fræði er fjölluðu um guðina og eðli heimsins.
 • Aristóteles skipti fræðilegri heimspeki upp í stærðfræði (maþematike), náttúrufræði (fysike) og guðfræði (þeologike). Guðfræði merkti þá einhvers konar frumspeki sem fjallaði m.a. um eðli hins guðlega.
 • Rómverjinn Varro, sem uppi var á 2. og 1. öld f. Kr. skipti umræðum um hið guðlega í þrennt: mýtíska guðfræði (fjallaði um grískar goðsögur), röklega guðfræði (heimspekileg greining á guðunum og eðli heimsins) og borgaraleg guðfræði (um skyldur borgaranna gagnvart trú og helgisiðum)
 • Kristnir höfundar undir áhrifum hellenískrar menningar hófu að nota hugtakið um fræðastörf sín og má sjá hugtakið t.a.m. í fyrirsögn á Opinberunarbók Jóhannesar.
 • Hugtakið var notað á ólíkan hátt meðal kristinna rithöfunda.
  • Tertúllíanus og Ágústínus notuðu hugtakið á svipaðan hátt og Varro (sjá að ofan)
  • Í ýmsum grískum heimildum frá tímum kirkjufeðranna (100-451) má finna notkun á hugtakinu guðfræði sem vísar til umfjöllunar um eðli og störf Guðs.
  • Í enn öðrum heimildum frá sama tímabili er guðfræði notuð yfir þá umræðu sem spratt upp á þessum tíma um eðli Jesú (samband hins guðlega og mannlega eðlis).
  • Á miðöldum gat hugtakið einfaldlega vísað til Biblíunnar og þá í þeim skilningi að guðfræði (theologia) væri það sem segði frá Guði og verkum hans, þ.e. Biblían.
  • Innan skólaspekinnar var hugtakið notað um rannsóknir á kristnum kenningum.
 • Í dag er orðið guðfræði yfirleitt notað yfir vísindalegar rannsóknir á einstökum trúarbrögðum og þeim kenningum sem upp hafa sprottið innan þeirra. Margir líta þó á guðfræði sem einskorðaða við kristni og á hugtakið þá við þau fræði sem fást við eitt allsherjar goðmagn, Guð, sem er miðlægur í hinum trúarlega þankagangi.

Guðfræðin og akademían

Örðugt er að líta framhjá tengslum guðfræðinnar við akademíuna og upphaf háskólanna. Flestir háskólar sem stofnaðir eru fyrir Upplýsingu spruttu úr jarðvegi klausturhreyfinga og kirkjuskóla hámiðalda (t.d. Parísarháskóli og Oxford-háskóli). Þessir skólar voru stofnaðir til að þjálfa unga menn til að þjóna kirkjunni með iðkun guðfræði og lögfræði. Guðfræðin var alltaf meginviðfangsefni innan skólanna og var hún kölluð Drottning vísindanna því allar aðrar fræðigreinar skyldu vera notaðar til stuðnings og þjónustu við hana. Menn geta þó deilt um hversu viðeigandi sú nafngift er í dag. Staða guðfræðinnar í háskólasamfélaginu breyttist í Upplýsingunni en þá var farið að kenna fleiri fræðigreinar án þess að leggja sérstaka áherslu á tengsl þeirra við guðfræði.

Guðfræðistefnur

Í gegnum tíðina hafa margar stefnur sprottið fram innan kristinnar guðfræði og hefur 20. öldin verið afskaplega frjósöm í þeim efnum. Hér að neðan má sjá helstu hreyfingar innan guðfræðinnar en athugið að listinn er ekki tæmandi.

 • Guðfræði svartra
 • Evangelísk guðfræði
 • Reformert guðfræði
 • Kvennaguðfræði
 • Guðfræði únitara
 • Frjálslynd guðfræði
 • Frelsunarguðfræði
 • Ný-rétttrúnaður
 • Póst-frjálslynd guðfræði
 • Póst módernísk guðfræði
 • Guðfræði samkynhneigðra

Heimildir

Bölsvandinn

Bölsvandinn er í trúarheimspeki og guðfræði sú ráðgáta hvernig stendur á því að illska og þjáning og náttúruhamfarir — með öðrum orðum böl — eru til í heimi sem alvitur, algóður og almáttugur guð skapaði og ríkir yfir. Bölsvandinn er stundum nefndur Þverstæða Epikúrosar.

Desmond Tutu

Desmond Mpilo Tutu (f. 7. október 1931) er suður-afrískur biskup og guðfræðingur sem er þekktur fyrir baráttu sína gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku og fyrir önnur störf í þágu mannréttinda. Tutu var biskup ensku biskupakirkjunnar í Jóhannesarborg frá 1985 til 1986 og síðan erkibiskup Höfðaborgar frá 1986 til 1996. Tutu var fyrsti þeldökki maðurinn til að gegna þessum embættum. Tutu reyndi að blanda hugmyndum úr svartri guðfræði og afrískri guðfræði en í stjórnmálum telur hann sig til sósíalista.

Doktorsgráða

Doktorsgráða eða doktorspróf er námsgráða og er æðsta námsgráðan á háskólastigi. Orðið er dregið af latnesku sögninni docere sem merkir að kenna en doctor er einhver sem kennir; fastráðnir háskólakennarar þurfa víðast hvar að hafa doktorsgráðu.

Ýmsar doktorsgráður eru til en algengastar eru dr. phil. og Ph.D. sem eru skammstafanir fyrir doctor philosophiae og philosophiae doctor tilsvarslega. Í þessu samhengi er orðið „philosophia“ notað um veraldleg fræði, það er að segja akademískar fræðigreinar aðrar en guðfræði, lögfræði og læknisfræði.

Í guðfræði hefur tíðkast að veita gráðurnar dr. theol. (doctor theologiae) eða Th.D. (theologiae doctor). Í lögfræði hefur tíðkast að veita gráðurnar Dr.iur. (doctor iuris), JD (iuris doctor) og S.J.D. (scientiae iuridicae doctor). Í læknisfræði hefur tíðkast að veita gráðurnar dr. med. (doctor medicinae) og MD (medicinae doctor). En JD-gráða er víðast hvar ekki eiginleg doktorsgráða og sömuleiðis er MD-gráða víðast hvar sú námsgráða sem krafist er fyrir almennt lækningaleyfi og jafngildir ekki doktorsprófi. Því er stundum veitt dr. phil. eða Ph.D.-gráða í lögfræði og læknisfræði ofan á iuris doctor og medicinae doctor-gráður.

D.litt. eða Litt.D.-gráður (doctor litterarum) eru sums staðar veittar ofan á doktorspróf sem heiðursgráður fyrir vel unnið ævistarf í fræðum (yfirleitt hugvísindum. Gráðan L.H.D. (Litterarum humanarum doctor) er oftast sambærileg við D.Litt.-gráðuna. D.D. (Divinitatis Doctor) er stundum veitt guðfræðingum sem sams konar heiðursdoktorsnafnbót. Í lögfræði er LL.D. (legum doctor) stundum veitt sem heiðursgráða.

Í sumum Evrópulöndum hefur einnig tíðkast að veita æðra doktorspróf (dr. habil.) eftir doktorsvörn á töluvert umfangsmeira doktorsverkefni eftir fyrstu doktorsgráðu. Ólíkt doktorsverkefni fyrstu doktorsgráðu er verkefni æðra doktorsprófs ekki unnið undir leiðsögn kennara. Handhafi æðra doktorsprófs getur tekist á hendur leiðsögn doktorsverkefna. Í Norður-Ameríku er ekkert æðra doktorspróf veitt en ferlið er ekki ósvipað fastráðningarferlinu (e. tenure track).

Finnur Jónsson (biskup)

Finnur Jónsson (16. janúar 1704 – 23. júlí 1789) var biskup í Skálholti, næstsíðastur í röð biskupa sem þar sátu.

Finnur var sonur Jóns Halldórssonar prófasts og sagnaritara í Hítardal og konu hans, Sigríðar Björnsdóttur. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum í Hítardal, varð stúdent frá Skálholtsskóla og sigldi síðan og lærði í Kaupmannahafnarháskóla. Hann varð svo prestur í Reykholti 1732. Finnur var stiftprófastur í Skálholtsbiskupsdæmi 1743-53 og síðan biskup þar 1754-85. Hann mun hafa verið tregur til að taka við biskupsembættinu, einkum vegna umsýslu og ráðsmennsku sem því fylgdi, en þótti þó standa sig vel í þeim efnum. Hann var röggsamur stjórnandi en tók oft vægt á smærri málum.

Finnur var mikill fræðimaður eins og faðir hans og ýmsir ættmenn og hlaut árið 1774 doktorsnafnbót í guðfræði, fyrstur Íslendinga. Hann skrifaði Historia Ecclesiastica Islandiæ, rit um kirkjusögu Íslands á latínu sem kom út á prenti í Kaupmannahöfn 1772-1778. Hann lét eftir sig fjölda annarra rita, prentaðra og óprentaðra, einkum um guðfræði og kirkjusögu.

Sonur hans varð biskup í Skálholti á eftir honum, Hannes Finnsson, og vígðist raunar biskup 1777 og var föður sínum til aðstoðar þar til hann lést 1789. Flest hús í Skálholti skemmdust eða hrundu í Suðurlandsskjálftanum 1784 og kvikfé hafði flest fallið í harðindunum veturinn áður en Finnur neitaði þó að flytja og var í Skálholti meðan hann lifði.

Kona hans var Guðríður Gísladóttir (1707 – 1766), dóttir Gísla í Mávahlíð, sonar Jóns Vigfússonar biskups og systir Magnúsar Gíslasonar amtmanns.

Friðrik 3. Danakonungur

Friðrik 3. (18. mars 1609 - 9. febrúar 1670) var konungur Danmerkur 1648 - 1670. Hann innleiddi einveldi í ríkjum sínum, þar á meðal á Íslandi, og var erfðahyllingin undirrituð á Kópavogsfundinum árið 1662.

Friðrik var næstelsti sonur Kristjáns 4. og Önnu Katrínar af Brandenborg. Eldri bróðir hans, Kristján krónprins, dó barnlaus árið 1647 og varð Friðrik þá ríkiserfingi og tók við eftir lát föður síns ári síðar. Hann var vel menntaður, meðal annars í guðfræði, náttúrúvísindum, fornfræði og ríkisrétti. Þegar hann tók við ríkjum hafði hann dvalið frá barnsaldri í þýsku hertogadæmunum og var meðal annars biskup Brimaborgar (Bremen) frá 1635. Helstu ráðgjafar hans voru þýskir og danska ríkisráðið treysti honum því illa svo að þegar hann tók við ríkum var hann látinn undirrita yfirlýsingu sem jók völd ríkisráðsins umtalsvert. Skipti konungur sér lítið af stjórn landsins fyrstu árin. Á meðan stjórnuðu mágar hans mestu, þeir Corfitz Ulfeldt, sem var giftur Leonoru Christinu, og Hannibal Sehested, sem giftur var Christiane systur konungs.

Þegar skarst í odda með ríkisráðinu og mágum konungs tók hann afstöðu með ríkisráðinu og Ulfeldt og Sehested misstu öll völd og embætti og Ulfeldt var dæmdur fyrir landráð. Leonora Christina, systir konungs, var dæmd meðsek og sat í fangelsi í Bláturni í 22 ár. Þetta varð jafnframt til þess að konungur styrkti mjög völd sín. Sehested komst reyndar aftur í náðina hjá mági sínum.

Danir fóru í stríð við Svía 1657 og hugðust grípa tækifærið á meðan Karl 10. Gústaf var önnum kafinn við stríðsrekstur í Póllandi, en hann leiddi her sinn yfir hertogadæmin og Jótland og þegar vetur gekk í garð og dönsku sundin lagði tókst Svíum að komast á ís yfir til Fjóns og síðan Sjálands og Friðrik neyddist til að gefast upp. Með friðarsamningunum í Hróarskeldu 1658 neyddust Danir til að afsala sér Skáni, Hallandi, Blekinge, Bóhúsléni og Þrændalögum. Friðarsamningarnir héldu þó ekki og Karl Gústaf settist um Kaupmannahöfn. Friðrik konungur tók sjálfur þátt í vörn borgarinnar og varð gífurlega vinsæll, Svíum varð ekkert ágengt og eftir að Karl Gústaf lést 1660 var saminn friður á ný. Svíar héldu mestöllum landvinningum sínum, nema Þrændalögum.

Fjárhagur danska ríkisins var í rúst eftir ófriðinn og ljóst að leggja þyrfti á þunga skatta. Aðallinn var mótfallinn því en fékk engu ráðið, ekki síst vegna vinsælda konungs, og á stéttaþingi sem kallað var saman 1660 var Danmörk gerð að erfðaríki. Konungur lýsti sig einvaldan og afturkallaði forréttindi aðalsins, sem þar með missti völd sín að miklu leyti. Fulltrúar stéttanna sóru konunginum erfðahyllingareið 18. október 1660 en á Íslandi fór erfðahyllingin fram á Kópavogsfundinum 28. júlí 1662.

Friðrik 3. var vel menntaður og hafði áhuga á guðfræði og ýmsum vísindum. Hann stofnaði Konunglega bókasafnið um það leyti sem hann tók við ríkjum og var uppistaðan í því bækur úr safni hans sjálfs. Árið 1643 kvæntist hann Soffíu Amalíu af Braunschweig-Lüneburg (1628-1685) en þau voru þremenningar, bæði komin af Kristjáni 3. Þau eignuðust saman átta börn.

Frjáls vilji

Frjáls vilji er sú hugmynd að (sumar) lífverur stjórni eigin hegðun, að ákvarðanataka þeirra sé ekki nauðsynlega háð lögmálum náttúrunnar heldur ráði hvernig þær bregðist við ytra áreiti. Áhangendur þessarar hugmyndar kenna sig við frjálshyggju en þeir sem álíta að öll hegðun sé háð áreiti og kringumstæðum aðhyllast löghyggju.

Frumspekin

Frumspekin (gr., ta meta ta fysika, lat. Metaphysica) er eitt af meginritum forngríska heimspekingsins Aristótelesar. Verkið er fremur sundurlaust safn ritgerða í 14 bókum, sem var fyrst safnað saman og steypt í eina heild á 1. öld f.Kr. af Andróníkosi frá Ródos, sem ritstýrði útgáfu á verkum Aristótelesar. Ritgerðirnar fjalla allar um frumspeki (sem Aristóteles nefndi hina fyrstu heimspeki (gr. he prote filosofia) eða guðfræði (gr. þeologia)) en titill verksins er kominn til vegna þess að í útgáfu Andróníkosar voru bækurnar um frumspekina á eftir bókunum um eðlisfræðina (gr. ta fysika).

Meginviðfangsefni Frumspekinnar er „vera sem vera“ eða „vera sem slík“. Hún er rannsókn á því hvað það er að vera, hvað það er sem er og hvað er hægt að segja um það sem er í ljósi þess að það er, en ekki í ljósi einhvers annars. Í Frumspekinni fjallar Aristóteles einnig um ólíkar tegundir orsaka, form og efni og guð eða frumhreyfilinn.

Guðbrandur Þorláksson

Guðbrandur Þorláksson (1541(?) – 20. júlí 1627) var biskup á Hólum frá 8. apríl 1571 til dauðadags.

Guðbrandur var sonur séra Þorláks Hallgrímssonar, prests á Mel í Miðfirði og víðar, og Helgu Jónsdóttur, sem var dóttir Jóns Sigmundssonar lögmanns og Bjargar Þorvaldsdóttur konu hans. Guðbrandur lærði í Hólaskóla á árunum 1553 til 1559 og fór svo í Kaupmannahafnarháskóla árið 1560 sem þá var óvenjulegt, þar sem flestir Íslendingar fóru í háskóla í Þýskalandi. Þar lagði hann stund á guðfræði og rökfræði. Eftir heimkomuna varð hann rektor í Skálholtsskóla 1564–1567 og síðan prestur á Breiðabólstað í Vesturhópi uns Friðrik 2. Danakonungur skipaði hann biskup á Hólum eftir meðmæli frá Sjálandsbiskupi, sem verið hafði kennari hans í háskólanum, þrátt fyrir að prestastefna á Íslandi hefði kjörið annan mann.

Jón Bloxwich

Jón Bloxwich var biskup á Hólum 1435 – 1440, eða í 5 ár.

Jón Bloxwich var enskur munkur af reglu Karmelíta og baccalaureus í guðfræði. Hann fékk árið 1435 páfaveitingu fyrir biskupsembætti á Hólum. Sjá páfabiskupar. Hann kom til Englands vorið 1436 og fór á fund konungsins, Hinriks VI. Hann fékk leyfi til að senda ensku Íslandskaupmennina til þess að rannsaka biskupsdæmið og gefa skýrslu um ástand þess árin 1436–1439. Jón Bloxwich kom aldrei hingað til lands og mun hafa misst biskupsdæmið af því að hann gat ekki greitt embættisgjöld sín í féhirslu páfa. Hann lét af embætti 1440 eða 1441.

Lítið annað er vitað um uppruna Jóns Bloxwich, ekki heldur hvað um hann varð, eða hvenær hann dó.

Jón Halldórsson (biskup)

Jón Halldórsson (d. 2. febrúar 1339) var biskup í Skálholti á 14. öld. Hann er yfirleitt talinn hafa verið norskur en vitað er að móðir hans hét Freygerður og það nafn er eingöngu þekkt úr íslenskum heimildum, sem kann að benda til þess að hann hafi verið af íslenskum ættum en uppalinn í Björgvin í Noregi, þar sem Kári bróðir hans var einnig munkur.

Hann ólst upp í klaustri dóminíkana í Björgvin, gekk ungur í reglu þeirra og lærði á vegum þeirra bæði guðfræði í París og kirkjurétt í Bologna á Ítalíu, var talinn mjög vel lærður og talaði svo mjúklega latínu sem móðurmál sitt. Hann var valinn biskup eftir lát Gríms Skútusonar og vígður 1. ágúst 1322. Hann sat í Noregi um veturinn en kom til Íslands 1323; „kom út Jón biskup Freygerðarson“, segir í Flateyjarannál.

Hann kom á ýmsum mikilvægum umbótum í kirkjurétti á Íslandi, en var einkum minnst sem predikara og sagnamanns. Til er safn af sögum sem hafðar eru eftir honum sem margar hverjar sverja sig í ætt við skemmtisögur golíarða frá Suður-Evrópu eins og finna má í verkum Francesco Petrarca og Giovanni Boccaccio. Veturinn 1338-1339 var hann í Björgvin og dvaldi í klaustrinu þar sem hann hafði alist upp. Þar veiktist hann og dó á kyndilmessu 1339. Hann þótti hafa verið einn hinn röggsamlegasti þeirra útlendu biskupa sem hér voru.

Jón Árnason (1665)

Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið þetta nafn.Jón Árnason (1665 í Dýrafirði – 8. febrúar 1743) var biskup í Skálholti, lærður og vel að sér í guðfræði, rúmfræði, stærðfræði og söng.

Jón var sonur Árna Loftssonar, prests í Dýrafjarðarþingum og víðar, og konu hans Álfheiðar Sigmundsdóttur. Hann var skólameistari Hólaskóla frá 1695 til 1707 en þá varð hann prestur á Stað í Steingrímsfirði. Þann 25. mars 1722 varð hann biskup í Skálholti eftir lát Jóns Vídalín og gegndi því embætti til dauðadags.

Hann þótti strangur reglumaður og meðal stjórnsömustu biskupum landsins. Hann var bindindismaður og vildi t.d. hefta innflutning á brennivíni og tóbaki til landsins, en kaupmenn stóðu fast á móti. Hann áminnti marga presta fyrir drykkjuskap og vék ýmsum prestum í biskupsdæmi sínum úr embætti fyrir drykkju og aðra ámælisverða framkomu.

Jón var heldur ekki mikið gefinn fyrir fornsögur og veraldlegan skáldskap en var hins vegar fræðimaður á ýmsum sviðum og skrifaði margt. Þegar hann var prestur á Stað samdi hann til dæmis Fingrarím (Dactylismus ecclesiasticus). Hann lét prenta margar kennslubækur fyrir skólann í Skálholti í Kaupmannahöfn, hann samdi latneska-íslenska orðabók og skrifaði auk þess fjölda ritgerða og lét eftir sig mikið bréfasafn.

Hann þótti einarður og hreinskilinn en strangur kennari og gerði miklar kröfur til siðferðis skólapilta ekki síður en kunnáttu þeirra. Hann var aðgæslumaður í fjármálum og hafði til dæmis ekki ráðsmann, sem var einsdæmi, en vegna erfiðs árferðis var fjárhagur biskupsstólsins þó fremur bágur.

Kona Jóns biskups var Guðrún Einarsdóttir (1665 – 1752), dóttir Einars Þorsteinssonar biskups á Hólum og Ingibjargar Gísladóttur fyrri konu hans.

Kaupmannahafnarháskóli

Kaupmannahafnarháskóli (danska Københavns Universitet) er elsti og stærsti háskóli Danmerkur. Hann var stofnaður í tíð Kristjáns I þann 1. júní 1479. Þar var guðfræði, lögfræði, læknisfræði og heimspeki kennd eftir þýskri forskrift. Í dag eru þar um 37 þúsund nemendur og um 9 þúsund starfsmenn.

Alveg fram að siðaskiptunum var háskólinn hluti af rómversk-kaþólsku kirkjunni og hafði biskupinn í Hróarskeldu yfirumsjón með honum. Þá varð háskólinn ríkisrekinn en fram að því var öll stjórnsýsla hans sjálfstæð.

Íslendingar tóku fyrst að sækja Kaupmannahafnarháskóla að einhverju ráði nokkru eftir siðaskipti, einkum vegna aukinna tengsla við Danmörku og konungsvaldið. Fram að þeim tíma höfðu þeir sótt háskóla í Þýskalandi og Englandi og héldu því raunar áfram fram yfir aldamótin 1600.

Nýaldarheimspeki

Nýaldarheimspeki er sú heimspeki nefnd, sem var stunduð á nýöld og tók við af miðaldaheimspeki og heimspeki endurreisnartímans. Venjulega er litið svo á að nýaldarheimspeki nái yfir tímabilið frá 17. öld til 19. aldar. En stundum er 19. öldin talin sérstakt tímabil.

Upphaf nýaldarheimspeki er venjulega rakið til franska heimspekingsins Renés Descartes en sporgöngumenn hans glímdu að verulegu leyti við þær gátur heimspekinnar, sem hann hafði glímt við. Segja má að áherslubreyting hafi átt sér stað með Descartes, þar sem frumspekin vék fyrir þekkingarfræðinni sem mesta grundvallarviðfangsefnis heimspekinnar. Auk þessa má rekja áherslubreytingu í aðferðum heimspekinga til Descartes en á miðöldum var heimspekin einkum stunduð í formi skólaspekinnar, þar sem rök frá kennivaldi og greining á fornum textum með aðstoð aristótelískrar rökfræði voru höfð í fyrirrúmi. Á endurreisnartímanum komu að vísu fram fjölmargar nýjar hugmyndir sem drógu í efa kennivaldið, sem lá þó ætíð til grundvallar orðræðunni.

Á þessum tíma leituðust heimspekingar við að smíða alltumvefjandi heimspekikerfi, sameinuðu þekkingarfræði, frumspeki, rökfræði, og siðfræði og oft stjórnmál og náttúruvísindi í eitt kerfi.

Immanuel Kant flokkaði forvera sína í tvo hópa: rökhyggjumenn og raunhyggjumenn. Heimspeki nýaldar, einkum 17. og 18. aldar heimspeki, er oft lýst sem átökum þessara tveggja hefða. Þessi skipting er þó að einhverju leyti ofureinföldun og það er mikilvægt að hafa í huga að heimspekingarnir, sem um ræðir, töldu ekki sjálfir að þeir tilheyrðu þessum heimspekihefðum, heldur að þeir störfuðu allir innan einnar og sömu hefðarinnar.

Þrátt fyrir að flokkunin sé á suman hátt villandi er hún enn notuð í dag. Helstu rökhyggjumennirnir eru venjulega taldir hafa verið Descartes, Baruch Spinoza og Gottfried Leibniz en helstu raunhyggjumennirnir voru John Locke og (á 18. öld) George Berkeley og David Hume. Þeir fyrrnefndu töldu að hugsanlegt væri (þótt ef til vill væri það ómögulegt í raun) að alla þekkingu væri hægt að öðlast með skynseminni einni; þeir síðarnefndu höfnuðu þessu og töldu að öll þekking yrði til með skynjun, úr reynslu. Stundum er sagt að deilan hafi snúist um tilvist „áskapaðra hugmynda“. Rökhyggjumenn tóku sér stærðfræði sem fyrirmynd þekkingar en raunhyggjumenn litu frekar til náttúruvísindanna.

Þessi áhersla á þekkingarfræði liggur til grundvallar flokkun Kants. Flokkunin væri öðruvísi væri litið á hina ýmsu heimspekinga eftir frumspekilegum, siðfræðilegum eða málspekilegum kenningum þeirra. En jafnvel þótt þeim sé áfram skipt í hópa eftir þekkingarfræðilegum kenningum er þó ýmislegt við skiptinguna að athuga: til dæmis féllust flestir rökhyggjumenn á að í raun yrðum við að reiða okkur á vísindin um þekkingu á hinum ytra heimi og margir þeirra fengust við vísindalegar rannsóknir; á hinn bóginn féllust raunhyggjumenn almennt á að a priori þekking væri möguleg í stærðfræði og rökfræði og af þremur helstu málsvörum raunhyggjunnar hafði einungis Locke einhverja þjálfun eða sérþekkingu í náttúruvísindum.

Á þessum tíma urðu einnig til sígildar stjórnspekikenningar einkum hjá Thomas Hobbes í ritinu Leviathan og Locke í ritinu Two Treatises of Government.

Á 17. öld hafði heimspekin náð að slíta sig lausa frá guðfræði. Þótt heimspekingar ræddu enn um guð – og færðu jafnvel rök fyrir tilvist hans — var það gert innan heimspekilegrar orðræðu með heimspekilegum rökum. Á upplýsingartímanum á 18. öld hélt þetta ferli áfram og heimspekin sagði nær algerlega skilið við guðfræði og trúarbrögð.

Saga

„Saga“ getur einnig átt við kvenmannsnafnið Sögu eða tímaritið Sögu.

Saga getur átt við hverskyns frásögn hvort sem hún er í rituðu eða töluðu formi. Orðið merkir líka það sem gerst hefur í fortíðinni (stundum kallað Saga með stóru s-i eða sagan með ákveðnum greini) eða frásögn af einhverju sem gerst hefur í fortíðinni (stundum kallað saga með litlu s-i). Í þessum tveimur síðari merkingum er orðið yfirleitt eintöluorð en í fyrstu merkingunni getur það komið fyrir í fleirtölu.

Sagnfræði er síðan sú fræðigrein sem fæst við rannsóknir á sögunni í merkingunni atburðir fortíðar. Frásagnarfræði fæst við rannsóknir á frásögnum, gerð þeirra og byggingu, en margar aðrar fræðigreinar fást við sögur í einhverri mynd, til dæmis þjóðfræði, bókmenntafræði, textafræði, guðfræði og svo framvegis.

Skólaspeki

Skólaspeki (úr latínu scholasticus, sem þýðir „það sem tilheyrir skóla“) var hefð í miðaldaheimspeki sem skaut rótum í háskólum miðalda um 1100 – 1500. Skólaspekin reyndi upphaflega að sætta heimspeki fornaldar og kristna guðfræði. Hún var öðrum þræði aðferðafræði sem byggði á rökfræðiritum Aristótelesar, sem Boethius hafði þýtt yfir á latínu. Aðferðum skólaspekinnar var oftast beitt til þess að finna svar við spurningum eða komast hjá mótsögnum, bæði í guðfræði og heimspeki.

Tryggvi Þórhallsson

Tryggvi Þórhallsson (9. febrúar 1889 – 31. júlí 1935) var forsætisráðherra Íslands árin 1927 til 1932. Hann var sonur Þórhalls Bjarnasonar biskups. Hann lærði guðfræði, tók vígslu 1913 og var prestur á Hesti í Borgarfirði til 1916, en þá fluttist hann til Reykjavíkur og var settur dósent í guðfræði við Háskóla Íslands en árið 1917 varð hann ritstjóri Tímans og gegndi því starfi í 10 ár. Hann var kjörinn þingmaður Strandamanna fyrir Framsóknarflokkinn 1923.

Hann var gerður að foringja flokksins og myndaði ríkisstjórn Tryggva Þórhallssonar sem sat frá 1927-1932. Í þeirri stjórn var hann atvinnumálaráðherra auk þess að fara með forsætisráðherraembættið. Hann var þekktastur fyrir að hafa rofið þing árið 1931, rétt áður en til stóð að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórn hans. Í kosningunum sem fylgdu fékk Framsóknarflokkurinn meirihluta þingsæta með aðeins 35% kjörfylgi, en eitt af hitamálunum sem leiddu til vantrauststillögunnar og þingrofsins voru fyrirhugaðar umbætur í kosningakerfinu, þar sem til stóð að fjölga þingmönnum Reykvíkinga á kostnað landsbyggðarinnar.

Stjórn Tryggva sat því áfram en fór frá vorið 1932. Árið 1933 sagði Tryggvi sig úr Framsóknarflokknum ásamt fleirum og stofnaði Bændaflokkinn, sem fékk þrjá þingmenn í kosningunum 1934 en sjálfur féll Tryggvi í Strandasýslu fyrir Hermanni Jónassyni. Hann dró sig þá að mestu í hlé frá stjórnmálum, enda orðinn heilsuveill og lést ári síðar.

Tryggvi var bankastjóri Búnaðarbankans frá 1932 til æviloka.

Árni Magnússon

Árni Magnússon (1663 - ársbyrjun 1730) var handritasafnari og fræðimaður. Hann er hvað þekktastur fyrir að hafa safnað bókfellum og handritum á Íslandi og flutt til Kaupmannahafnar, en einnig fyrir jarðabók sem hann skrifaði með Páli Vídalín.

Árni fæddist á Kvennabrekku í Dölum. Hann var sonur Magnúsar Jónssonar prests (síðar lögsagnari) og Guðrúnar Ketilsdóttur. Hann tók próf í guðfræði í Kaupmannahafnarháskóla. Hann varð aðstoðarmaður Tómasar Bartholin og síðar ritari við hið konunglega leyndarskjalasafn í Kaupmannahöfn 1697. Fjórum árum síðar varð hann prófessor við Kaupmannahafnarháskóla.

Á árunum 1702 til 1712 var hann á Íslandi og tók saman hina frægu jarðabók og manntal ásamt Páli Vídalín.

Árni safnaði markvisst handritum á Íslandi og annars staðar og flutti í handritasafn sitt í Kaupmannahöfn þar sem þau voru rannsökuð, skrifuð upp og sum hver búin til prentunar. Hann fékk meðal annars handritasafn Þormóðs Torfasonar eftir lát hans 1719.

20. október 1728 varð mikill bruni í Kaupmannahöfn. Þrátt fyrir mikið björgunarstarf brann þar hluti af bókasafni Árna, auk bókasafns háskólans. Talið er að í brunanum hafi glatast mörg íslensk handrit.

Við Árna eru kenndar stofnanirnar Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi og Den Arnamagnæanske Samling í Danmörku.

Ást

Ást eða kærleikur er tilfinning djúpstæðrar samkenndar með annarri manneskju. Ást getur einnig verið platónsk, trúarlegs eðlis eða henni getur verið beint til dýra.

Í heimspeki og guðfræði er algengt að greina á milli þrenns konar ástar: holdleg ást (eros), vinátta eða áhugi (filia) og kærleikur eða guðleg ást (agape).

Smættarefnishyggja um ást segir að hún sé raunverulega ekkert annað en efnafræðilegt ferli sem verður til í líkamanum á manni (en líka mörgum dýrum). Ferlið fer aðallega fram í heilanum (ekki hjartanu, andsætt menningarlegu minni). Holdleg ást stýrist aðalega af hormónunum dópamíni, oxytosíni, ferómóni, vasopressíni,Noradrenalíni , serótóníni og estrógeni (hjá konum) og testosteróni (hjá körlum). Sumir eru á því að ást sé hugarástand en ekki tilfinning. Því tilfinning er eitthvað sem þú finnur í skamma stund er hugarástand er í lengri tíma.

Útstreymiskenning

Útstreymiskenning er í heimsmynd ýmissa trúarbragða eða lífsspeki sú hugmynd að allir hlutir streymi frá fullkomnum uppruna og verði smám saman ófullkomnari eftir því sem þeir fjarlægjast hann. Útstreymiskenning er þannig bæði í andstöðu við sköpunarkenningar og efnishyggju. Oft er hluti af útstreymiskenningunni einhvers konar aðferð til afturhvarfs til upprunans, aukins fullkomleika og samruna við guð.

Útstreymiskenning kemur fyrir í heimspeki og ýmsum trúarbrögðum og er best lýst í verkum upphafsmanns nýplatonismans, Plótínosar.

Á öðrum tungumálum

This page is based on a Wikipedia article written by authors (here).
Text is available under the CC BY-SA 3.0 license; additional terms may apply.
Images, videos and audio are available under their respective licenses.