Davíð konungur

Davíð er í hebresku biblíunni annar konungur Ísraelsríkis.

Í sögunni sem sagt er frá í biblíunni er Davíð ungur fjárhirðir sem öðlast fyrst frægð sem hörpuleikari og síðan fyrir að sigra filistínska risann Golíat með handslöngvu sinni. Sagan um Davíð og Golíat er víðfræg og táknræn fyrir lítilmagna sem vinnur bug á sterkari óvini. Davíð verður skjaldsveinn Sáls konungs og náinn vinur sonar hans, Jónatans. Sál snýst að endingu gegn Davíð af ótta við að hann hyggist ræna krúnu hans. Eftir að Sál og Jónatan láta lífið í orrustu er Davíð lýstur konungur Ísraels. Davíð hertekur síðan Jerúsalem og fer með Sáttmálsörkina inn í borgina, þar sem hann reisir konungsríkið sem Sál hafði stofnað. Sem konungur kemur Davíð Hetítanum Úría fyrir kattarnef til þess að geta haldið leyndu ástarsambandi sínu við konu hans, Batsebu. Samkvæmt sömu sögu neitar Guð Davíð síðan um leyfi til að reisa honum musteri í Jerúsalem og sonur Davíðs, Absalom, reynir að steypa honum af stóli. Davíð flýr frá Jerúsalem en snýr aftur eftir dauða Absaloms og gerist konungur Ísraels á ný. Áður en Davíð deyr velur hann son sinn, Salómon, til að taka við krúnunni.

Í spámannaritum hebresku biblíunnar er Davíð gjarnan lýst sem hinum fullkomna konungi og sem forföður Messíasar.

Sagnfræðingum um miðausturlönd til forna kemur saman um að Davíð hafi líklega verið til í kringum árið 1000 f. Kr. en fátt er vitað um hann sem sögulega persónu. Engar skýrar heimildir eru til um líf Davíðs utan biblíunnar en Tel Dan Stele-steinninn, letraður steinn sem konungur Damaskus reisti á aldamótum 9. og 8. aldar f. Kr. til að fagna sigri á tveimur óvinaþjóðum, inniheldur hebreska orðið ביתדוד eða bytdwd, sem flestir fræðimenn þýða sem „ætt Davíðs“. Sagnfræðingar efast almennt um að hið sameinaða ísraelska konungsríki sem biblían lýsir hafi verið til í raun.

Í rituðum skáldverkum og munnmælasögum Gyðinga á seinni tímum er Davíðs oft getið og jafnframt er rætt um hann í nýja testamentinu. Frumkristnir menn túlkuðu líf Jesú gjarnan með tilliti til hugmynda um Messías í sambandi við Davíð. Jesús er gjarnan túlkaður sem afkomandi Davíðs. Einnig er Davíðs getið í Kóraninum og öðrum íslömskum sögusögnum. Biblíupersónan Davíð er fyrirmynd fjölda skáldpersóna, -verka og annarra rita.

Donatello - David - Florença
Stytta af Davíð konungi eftir Donatello. Undir fæti hans er höfuð Golíats.

Heimild

Davíð 2. Skotakonungur

Davíð 2. (5. mars 1324 – 22. febrúar 1371) eða David Bruce var konungur Skotlands frá 7. júní 1329 til dauðadags, annar og síðasti konungur af Bruce-ætt.

Einar Benediktsson

„Einar Benediktsson“ getur einnig átt við Einar Benediktsson, sendiherra.Einar Benediktsson (oft nefndur Einar Ben) (31. október 1864 – 12. janúar 1940) var skáld, ritstjóri, lögfræðingur, embættis- og mikill athafnamaður. Einar er talinn í hópi nýrómantískra skálda og samdi mikil ljóð með hátimbruðu yfirbragði. Orðin: „Aðgát skal höfð í nærveru sálar“ eru úr ljóði hans Einræður Starkaðar, III.

Fjárhirðir

Fjárhirðir, hirðir eða smali er sá sem annast umhirðu sauðfjár, geita) eða annara húsdýra svo sem gæslu, smölun og fóðrun.

Fjárhirðar hafa verið til allt frá því að sauðfé var fyrst tamið, líklega í Mið-Austurlöndum fyrir um 10.000 árum, og má því segja að starf fjárhirðisins sé ein elsta starfsgrein mannkynsins. Fjárhirðar eru margoft nefndir í Biblíunni (Davíð konungur er til dæmis sagður hafa verið fjárhirðir upphaflega) og oft notaðir í líkingum þar, svo sem Góði hirðirinn.

Eitt meginhlutverk fjárhirða í mörgum löndum hefur löngum verið að gæta hjarðarinnar fyrir rándýrum og ræningjum. Íslenskir fjárhirðar eða smalar fyrri alda þurfti fremur að gæta sauða sinna fyrir náttúruöflum, smala þeim saman og reka í skjól í vondum veðrum. Eftir fráfærur sátu smalar - oftast börn eða unglingar - yfir kvíaánum, stundum dag og nótt en stundum aðeins á daginn, til að þær tvístruðust ekki og færu að leita að lömbum sínum. Þegar fé var beitt úti á vetrum stóðu fjármenn eða sauðamenn oft yfir því allan daginn og ráku það svo í hús að kvöldi. Það gat verið mjög erfitt starf, því reynt var að beita fénu hvernig sem viðraði og stundum þurfti sauðamaðurinn jafnvel að moka snjó ofan af grasinu fyrir það. Voru fjárhirðarnir því oft mikil hraustmenni. Eftir að féð var komið á hús þurfti sá sem hirti það líka að vitja þess daglega, gefa á garðann og brynna.

Róbert 2. Skotakonungur

Róbert 2. (2. mars? 1316 – 19. apríl 1390) var konungur Skotlands frá 22. febrúar 1371 til dauðadags og var fyrsti konungurinn af Stúart-ættinni.

Róbert var sonur Walter Stewart, stallara Skotlands, og konu hans Marjorie Bruce, dóttur Róberts 1. Skotakonungs. Hann er almennt talinn hafa fæðst 2. mars 1316, eftir að móðir hans féll af hestbaki. Hún dó sama dag eða stuttu síðar. Róbert 1. átti engan son á lífi en hafði gert bróður sinn, Játvarð, að erfingja sínum. Játvarður féll þó í bardaga á Írlandi árið 1318 og þá var Róbert útnefndur arftaki afa síns. Hann var ríkiserfingi til 5. mars 1324 en þá eignaðist afi hans soninn Davíð með seinni konu sinni. Staða stallara gekk í erfðir í Skotlandi og þegar faðir Róberts lést 1326 varð hann stallari, 10 ára að aldri, og var í umsjá afa síns. Árið 1329 dó Róbert 1. og Davíð varð konungur en Róbert yngri fór í fóstur til föðurbróður síns, Sir James Stewart.

Edward Balliol, sonur Jóhanns Balliol sem verið hafði Skotakonungur 1292-1296 gerði tilkall til krúnunnar og naut stuðnings Játvarðar 3. Englandskonungs. Hann gerði innrás í Skotland og varð vel ágengt. Í orrustunni á Halidon Hill 1333 barðist Róbert með James frænda sínum, sem féll þar og Balliol lagði lendur hans undir sig en Róbert komst undan til Dumbartonkastala þar sem Davíð konungur hafði búist til varnar. Davíð flúði síðar til Frakklands en hinn ungi stallari varð eftir og barðist við Balliol og Englendinga með misjöfnum árangri. Davíð 2. sneri aftur frá Frakklandi 1341 en í bardaganum við Nevilles Cross 17. október 1346 var hann tekinn til fanga en Róbert stallari komst undan.

Davíð konungur var fangi Englendinga í 11 ár en Róbert stýrði Skotlandi. Eftir að Davíð sneri aftur var mikil spenna á milli þeirra frændanna því að Skotar höfðu neyðst til að skuldbinda sig til að greiða mjög hátt lausnargjald fyrir konunginn og Davíð, sem var barnlaus, vildi leysa málið með því að gera einhvern af Plantagenet-ætt að arftaka sínum ef hann eignaðist ekki börn. Róbert var löglegur arftaki hans og vildi það að sjálfsögðu ekki. Hann gerði skammvinna uppreisn 1363 en samdi þó við frænda sinn og ríkti friður milli þeirra eftir það. Davíð dó óvænt 1371 og Róbert varð þá konungur, 55 ára gamall.

Englendingar héldu þá enn stórum landsvæðum í Skotlandi en Róbert tókst að ná þeim aftur að mestu á næstu árum án þess að beinlínis kæmi til stríðs við Englendinga. Elsti sonur konungs, jarlinn af Carrick (seinna Róbert 3.) var ósammála föður sínum um hvernig staðið skyldi að átökum við Englendinga og var auk þess orðinn leiður á langlífi föðurins svo að hann gerði hallarbyltingu í félagi við aðalsmenn. Völdin voru tekin af gamla manninum þótt hann héldi konungstigninni og fengin Carrick og síðar bróður hans, hertoganum af Albany. Róbert 2. lést vorið 1390 í Dundonaldkastala.

Róbert hafði gengið að eiga Elizabeth Muir árið 1336 en kirkjan viðurkenndi ekki hjónaband þeirra svo að hún taldist fylgikona hans. Árið 1349 fengu þau svo páfabréf um að þeim væri leyft að giftast löglega og börn þeirra skyldu verða skilgetin. Elizabeth lést nokkrum árum síðar og varð aldrei drottning. Róbert giftist aftur 1355 Euphemiu de Ross (d. 1386).

Róbert og Elizabeth áttu að minnsta kosti fjóra syni og sex dætur sem upp komust. Þar á meðal voru John jarl af Carrick, sem varð Róbert 3. Skotakonungur, Róbert hertogi af Albany, sem varð ríkisstjóri fyrir þrjá Skotakonunga, og Alexander jarl af Buchan, sem þekktur var fyrir harðneskju og grimmd. Með Euphemiu átti Róbert tvo syni og þrjár dætur. Yngri sonur hans, Walter jarl af Atholl, var píndur til bana 1437 fyrir þátt sinn í morðinu á bróðursyni sínum, Jakobi 1.

Á öðrum tungumálum

This page is based on a Wikipedia article written by authors (here).
Text is available under the CC BY-SA 3.0 license; additional terms may apply.
Images, videos and audio are available under their respective licenses.