Barokk

Barokk er nafn yfir listastefnu og tímabilið sem stefnan einkenndi. Stefnan einkenndist af miklu skrauti, flúri og þungri tilfinningu. Barokk með léttri tilfinningu er yfirleitt kallað rokkokó. Stefnuna má rekja til Rómar í kringum 1600 en þaðan breiddist hún út um Evrópu.

Peter Paul Rubens - The Adoration of the Magi - WGA20244
Tilbeiðsla vitringanna eftir Peter Paul Rubens er dæmi um barokklistaverk.

Barokktónlist

Í tónlist er barokk samheiti yfir bæði barokk og rokkokó. Barokktónlist einkennist af miklu flúri, trillum og flóknum tónavafningi. Ein aðalástæða þess að ekki er greint milli barokks og rokkokó í tónlist er að flytjendur barokktónlistar hafa mikið frelsi, nóturnar sýna aðeins byggingu lagsins en svo eiga flytjendur að spinna í skraut og flúr í tónlistina sem gerir hana misþunga eftir flytjendum [heimild vantar]. Keðjulaglínur og kontrapunktar voru algengar á þessu tímabili (þó misvinsælar eftir tónskáldum) og á bestu bæjum var samin keðjulaglína með þremur eða fjórum upphafsstöðum. Barokktónsmíðar eru gjarnan á formi sónata, konserta, kantata og óratoría. Óperur urðu til á barokktímanum.

Nokkur þekkt barokktónskáld

Aachen

Aachen er borg í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu og er með 243 þúsund íbúa (31. desember 2014). Hún er vestasta borgin í Þýskalandi. Aachen er þekktust fyrir að vera aðsetur Karlamagnúsar og var sem slík höfuðborg og krýningaborg þýska ríkisins. Karlamagnús hvílir í dómkirkjunni í borginni, sem jafnframt er á heimsminjaskrá UNESCO.

Brasilía

Brasilía (portúgalska: Brasil), opinberlega Sambandslýðveldið Brasilía (portúgalska: República Federativa do Brasil) er stærsta og fjölmennasta land Suður-Ameríku og hið fimmta stærsta í heiminum bæði að flatarmáli og fólksfjölda. Landið er 8.514.877 km² að flatamáli og teygir sig frá ströndum Atlantshafsins að rótum Andesfjalla og innan landamæra þess er megnið af Amasónregnskóginum, stærsta regnskógi heims, en einnig víðáttumikil landbúnaðarsvæði. Strandlína Brasilíu er 7367 km löng.

Carlo Maderno

Carlo Maderno (1556 – 30. janúar 1629) var svissneskur arkitekt frá Ticino sem er talinn vera upphafsmaður barokksins í byggingarlist. Hann hannaði framhliðar rómversku kirknanna Santa Susanna, Péturskirkjunnar og Sant'Andrea della Valle sem marka upphaf ítalska barokksins. Hann er af sumum talinn vera bróðir myndhöggvarans Stefano Maderno sem einnig var frá Ticino.

Dresden

Dresden er höfuðborg þýska sambandslandsins Saxlands og er með 536 þúsund íbúa (31. desember 2014). Hún er þó ekki nema næststærsta borg Saxlands (Leipzig er fjölmennari). Dresden var áður fyrr höfuðborg kjörfurstadæmisins og konungsríkisins Saxlands. Borgin er þekkt fyrir ægifagrar byggingar og mikla menningu. Hún var nánast þurrkuð út af landakortinu í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari.

Evruseðill

Evruseðlar eru peningaseðlar hins sameiginlega gjaldmiðils ESB. Þeir voru fyrst settir í umferð 1. janúar 2002. Ólíkt evrumynt eru seðlarnir eins báðum megin í öllum þáttökuríkjum. Í stað einstakra þjóðlegra tákmynda sýna evruseðlarnir ímynduð dæmi frá tímabilum í listasögu Evrópu. Framhliðarnar sýna hlið eða glugga sem tákna „opinleika“ en bakhliðarnar sýna brýr, tákn um „samtengingu“.

Johann Sebastian Bach

Johann Sebastian Bach (21. mars 1685 – 28. júlí 1750) var þýskt tónskáld og orgelleikari. Hann er talinn til helstu tónskálda Barokk-tímabilsins og í raun allrar vestrænnar tónlistar. Hann er þekktastur fyrir hin veraldlegu verk sín, svo sem Brandenborgarkonsertana og Aría á G-streng, en hann var þar að auki eitt afkastamesta kirkjutónskáld allra tíma.

Hann var orðinn kirkjuorgelleikari 17 ára gamall og var í miklum metum sem slíkur, en kom sér ekki alls staðar vel. Um nám hans og uppvöxt er vitað að hann mun fyrst hafa lært eitthvað hjá föður sínum, sem dó þegar Johann Sebastian var 9 ára gamall. Skömmu síðar dó móðir hans einnig. Þá fór hann til eldri bróður síns, sem hét Johann Christoph Bach og var orðinn orgelleikari við Mikjálskirkjuna í Ohrdruf. Hjá honum lærði hann formlega til 15 ára aldurs. Eftir það fór hann til Lüneburg og gæti hafa verið í námi hjá Georg Böhm, en það er ekki vitað fyrir víst. 17 eða 18 ára varð hann orgelleikari í Neue Kirche í Arnstadt og var þar í tvö ár. Hann hafði þar tvöfalt hærri laun en eftirmaður hans fékk og segir það sína sögu um mat manna á honum. Um tvítugt lagði hann á sig langa göngu til þess að sjá og heyra einn mesta orgelsnilling þessa tíma, Dietrich Buxtehude, sem spilaði í Lübeck og varð fyrir miklum áhrifum af honum.

Eftir að starfi hans í Arnstadt lauk, fór hann til Mühlhausen, en þar var laus staða orgelleikara við Blasíusarkirkjuna. Þar var hann í um það bil eitt ár og á þeim tíma giftist hann. Kona hans var Maria Barbara Bach og voru þau þremenningar að skyldleika. Nú lá leið hans til Weimar og starfaði hann þar til 1717 eða í 9 ár. Eftir það var hann í Köthen í sex ár og svo að síðustu í Leipzig, en þar starfaði hann við fjórar kirkjur allt til dauðadags 1750.

Johannes Brahms

Johannes Brahms (7. maí 1833 - 3. apríl 1897) var þýskt tónskáld á rómantíska tímabilinu. Hann var fæddur í Hamborg en bjó lengst af í Vín og er oftast talinn til tónskálda þeirrar borgar. Tónlist Brahms er oft talin mjög dæmigerð fyrir rómatíska tónlist og mörg af verkum hans eru mjög þekkt. Þeirra á meðal eru til dæmis fiðlukonsert hans, Ein deutsches Requiem og lítið vöggulag (Op. 49 no. 4) sem hann samdi 1868. Brahms var undir miklum áhrifum frá tónlist Beethovens, en líka eldri tónlskálda svosem Mozart og Haydn, og jafnvel Bach. Hann hafði mikinn áhuga á enn eldri tónlist, frá því fyrir barokk tímabilið, löngu áður en flest önnur tónskáld voru farin að veita þeirri tónlist nokkra athygli. Hann vann einnig mikið úr þjóðlögum og eru Ungversku dansar hans mjög þekktir. Meðal vina Brahms voru tónskáldin Johann Strauss yngri, Clara Wieck og Robert Schumann

Kirkja heilagrar Súsönnu

Kirkja heilagrar Súsönnu (ítalska: Santa Susanna) er kirkja sem stendur á Kvirinalhæð í Róm og er kennd við heilaga Súsönnu frá árinu 565. Hús sem þjónaði því hlutverki að vera fundarstaður kristinna var reist á þessum stað árið 280. Sagt er að húsið hafi opinberlega orðið að kirkju árið 330 í valdatíð Konstantínusar 1.

Sergíus 1. páfi lét gera við kirkjuna á 7. öld en 796 lét Leó 3. páfi endurbyggja hana frá grunni. Framhlið kirkjunnar var fyrsta verkefnið sem svissneski arkitektinn Carlo Maderno fékk í eigin nafni í Róm. Hann lauk við framhliðina árið 1603 en hún hafði mikil áhrif á barokkið í byggingarlist. Framhliðin þótti takast svo vel að Páll 5. páfi fékk Maderno til að ljúka við kirkjuskipið og hanna framhlið Péturskirkjunnar.

Krefeld

Krefeld er borg í Ruhr-héraðinu í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu og er með 222 þúsund íbúa. Hér var upphaflega um tvær borgir að ræða, Krefeld og Uerdingen, en þær voru sameinaðar 1929.

Maríukirkjan í Berlín

Maríukirkjan stendur við Alexanderplatz í miðborg Berlínar, við hliðina á sjónvarpsturninum. Hún er ein elsta kirkja borgarinnar.

Peter Paul Rubens

Peter Paul Rubens (28. júní 1577 – 30. maí 1640) var afkastamikill flæmskur listmálari á 17. öld og einn af helstu forvígismönnum barokksins í evrópskri myndlist. Hann er þekktastur fyrir íburðarmiklar altaristöflur, portrett, landslagsmyndir og söguleg málverk með allegóríum og myndefni úr goðsögum. Rubens rak verkstæði í Antwerpen og var sleginn til riddara bæði af Filippusi 2. Spánarkonungi og Karli 1. Englandskonungi.

Pólýfónkórinn

Pólýfónkórinn var blandaður kór sem starfaði í Reykjavík frá 1957 til 1988. Stofnandi hans og stjórnandi alla tíð var Ingólfur Guðbrandsson. Kórinn hélt um 400 tónleika á ferli sínum og fór í níu söngferðir út fyrir landsteinana. Tónleikar kórsins voru margir teknir upp af Ríkisútvarpinu og kórinn kom nokkrum sinnum fram í Sjónvarpi. Pólýfónkórinn var fyrstu árin skipaður milli 40 og 50 kórfélögum en síðustu árin oft yfir 100 manns. Þátttakendur voru flestir á jólatónleikum kórsins árið 1978, 150 talsins.

Mikil áhersla var lögð á flutning kirkjulegrar barokk tónlistar frá 16. og 17. öld og kórinn tókst á við stór verkefni á borð við Jólaóratoríu, Jóhannesarpassíu, Mattheusarpassíu og H-moll messu Bachs og Messías Händels. Í nokkrum tilvikum frumflutti kórinn þessi stóru verk á Íslandi og stóð fyrir óstyttum flutningi þeirra í fyrsta sinn hér á landi. Töluverð áhersla var lögð á íslenska og erlenda nútímatónlist og stóð kórinn að frumflutningi nokkurra nútímaverka hér á landi.

Á níunda hundrað kórfélaga komu fram í nafni kórsins, ríflega 100 hljóðfæraleikarar og um 60 einsöngvarar. Flutt voru um 200 tónverk eftir rösklega 70 höfunda. Kórskóli Pólýfónkórsins var starfandi um árabil og kórinn gaf út nokkra tónleika á plötum og geisladiskum. Pólýfónfélagið var stofnað í maí 2006 og hefur staðið fyrir árlegum útgáfum geisladiska með flutningi kórsins.

Uppfærslur kórsins voru oft á tíðum mjög mannmargar og flóknar. Erlendir einsöngvarar og hljóðfæraleikarar voru fengnir til landsins ef þörf var talin á og ekkert til sparað að gera flutning hinna viðameiri tónverka sem áhrifamestan. Til marks um umfang tónleikahaldsins í viðamiklum uppfærslum þá voru flytjendur í fyrstu heildaruppfærslu á Mattheusarpassíu Bachs, í Háskólabíói árið 1982, ríflega 300 talsins.

Kórinn söng í svonefndum Bel canto stíl sem rekja má til ítalskrar sönghefðar og var áberandi í Evrópu á barokk tímanum. Hann hæfði einkar vel þeirri tónlist sem mest áhersla var lögð á hjá kórnum. Þessi söngstíll var þó ekki vel þekktur hér á landi fyrir tilkomu kórsins.Kórinn dregur nafn sitt af orðinu pólýfón (polyphony) sem táknar marghljóma eða margradda tónlist. Það er notað um ákveðinn stíl í raddsetningu þar sem hver rödd er sjálfstæð laglína en raddir myndi ákveðna samhljóma þegar það á við. Dæmi eru svokallaðir keðjusöngvar, sem eiga að hljóma vel saman, þótt söngvarar byrji ekki á sama tíma. Margradda söngur er ólíkur samröddun (homophony) þar sem laglína er ráðandi en undirraddir hreyfast samhliða aðalrödd og mynda hljóma. Pólýfónísk tónlist nær aftur til 800 en varð áberandi á endurreisnartímanum. Hún þróaðist og varð flóknari í barokktímabilinu og er þá oft nefnd kontrapunktur. Blómatími þessarar tónlistar var 16. og 17. öldin í evrópsku tónlistarlífi hjá tónskáldum eins og Bach, Palestrina og Byrd.

Pólýfónkórinn og kammersveit - Tónleikar á Spáni í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu 1982

Pólýfónkórinn og kammersveit - Tónleikar á Spáni í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu 1982 er geisladiskur gefinn út af Pólýfónkórnum árið 2007. Um er að ræða upptöku af tónleikum úr ferð Pólýfónkórsins, einsöngvara og kammersveitar til Spánar í júlí 1982. Konsertmeistari var Rut Ingólfsdóttir og stjórnandi var Ingólfur Guðbrandsson. Einsöngvarar voru Kristinn Sigmundsson, Jón Þorsteinsson og Nancy Argenta.

Kórfélagar voru 90 talsins í ferðinni og hljómsveitina skipuðu 50 hljóðfæraleikarar. Í hefti með útgáfunni má finna lista yfir alla þátttakendur.

Ferðin var farin að tilhlutan spænskra ferðamálayfirvalda í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu. Kórinn söng á fimm stöðum í Andalúsíu; í Malaga, Marbella, Nerja, Granada og Sevilla. Áður hafði kórinn flutt sömu efnisskrá í Háskólabíói 29. júní. Þar bar til tíðinda að frumfluttir voru hlutar úr Óratóríunni Eddu eftir Jón Leifs. Kaflarnir úr Eddu vöktu sérstaka athygli tónleikagesti á Spáni en á verkefnaskránni voru auk þeirra Gloria eftir Poulenc, Vatnamúsík eftir Händel, verk eftir Buxtehude, tveir fiðlukonsertar þar sem Unnur María Ingólfsdóttir og Þórhallur Birgisson léku einleik og kórar úr Messíasi.

Sinfóníuhljómsveit

Sinfóníuhljómsveit er hljómsveit fjölmennari en tuttugu og inniheldur bæði klassísk blásturs- og strengjahljóðfæri auk slagverks. Sveitir fjölmennari en um fimmtán sem innihalda aðeins strengjahljóðfæri eru kallaðar strengjasveitir og sveitir fjölmennari en um fimmtán sem innihalda aðeins blásturshljóðfæri eru kallaðar lúðrasveitir. Það má segja að sinfóníuhljómsveit sé í raun sambræðingur strengja- og lúðrasveita þótt lúðrasveitir séu oftast fjölmennari en blásaraflokkurinn í sinfóníuhljómsveit, en það er vegna hljóðstyrks blásturshljóðfæra, sem er mun meiri heldur en hljóðstyrkur strengjahljóðfæra. Stundum eru sinfóníuhljómsveitir kallaðar fílharmóníuhljómsveitir, þær eru að engu leiti öðruvísi en sinfóníuhljómsveitir. Nafnið er bara notað ef það eru tvær sinfóníuhjómsveitir á sama stað sem vilja draga nafn sitt af staðnum, til dæmis Sinfóníuhljómsveit Berlínar og Berlínarfílharmónían.

Theatiner-kirkjan í München

Theatiner-kirkjan í München var reist á 17. öld og er fyrsta kirkjan norðan Alpa sem reist var í ítölskum barokk-stíl.

William Byrd

William Byrd (1540 - 4. júlí 1623) var enskt endurreisnartónskáld. Ævi hans teygir sig í raun inn á Barokk tímabilið, en þrátt fyrir að hljómborðstónlist hans hafi í raun markað upphaf Barokkstílsins í orgel- og harpsíkordtónlist, samdi hann ekki í hinum nýja stíl. Hann er meðal annars merkilegur fyrir tengsl sín við rómversk-kaþólsku þrátt fyrir að hafa unnið við hirð mótmælandans Elísabetar I. Hann samdi tónlist fyrir hefðbundin kaþólsk tilefni, þar á meðal þrjár messur. Þar að auki samdi hann þó mikið af veraldlegri tónlist og var hann talinn meistari madrígala.

Þjóðlagarokk

Þjóðlagarokk er tónlistarstefna sem kom fram á sjónarsviðið um miðjan sjöunda áratug tuttugustu aldar. Þjóðlagarokk blandar saman þjóðlagatónlistarstíl með rokkhljóðfærum. Einn mest sérkennandi eiginleiki tónlistarstefnunnar er klingjandi og hringjandi gítarhljómur með tærum samhljómandi söngvum. Nátengdar stefnur eru því þjóðlagatónlist og rokktónlist á sjöunda áratugnum en seinna með mótmælendatónlist.The Byrds voru brautryðjendur í tónlistarstefnunni og lögðu þeir grunninn að stefnunni sem aðrar hljómsveitir fóru svo eftir. Þegar að leið á sjöunda áratuginn fóru fleiri og fleiri hljómsveitir að notafæra sér órafmögnuð hljóðfæri eins og var gert í þjóðlagatónlistinni en í stíl við þjóðlagarokkið sem hafði í gegnum sjöunda áratuginn þróað sinn eigin hljóm og þar með fóru hljómsveitir frá grunninum sem The Byrds höfðu lagt, þar sem þeir notuðu rafmögnuð hljóðfæri. Menn eins og Bob Dylan komu á þessari breytingu sem var undir miklum áhrifum Bítlanna. Á næstu þremur áratugunum voru bæði rafmögnuð líkt og órafmöguð hljóðfæri orðin algeng í öllum kimum stefnunnar.Þjóðlagarokk náði gífurlegum vinsældum bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum þar sem tónlistarmenn á borð við Bob Dylan, The Byrds, Simon and Garfunkel, Mamas and Papas, Buffalo Springfield og marga fleiri voru leiðandi. Senan var rík af listamönnum í Bretlandi og Bandaríkjunum sem nutu vinsælda á Íslandi en þó var engin þjóðlagarokksena í gangi á Íslandi á þessum tíma.

Á öðrum tungumálum

This page is based on a Wikipedia article written by authors (here).
Text is available under the CC BY-SA 3.0 license; additional terms may apply.
Images, videos and audio are available under their respective licenses.