2. Mósebók

2. mósebókgrísku: ἔξοδος, Exodos; á hebresku: שמות Sh'mot ("brottförin"), á latínu: Liber Exodus) er önnur af fimm mósebókum. Mósebækur eru fyrsti hluti gamla testamentisins og nefnast saman Torah á hebresku. Bókin fjallar um för Ísraelsmanna frá Egyptalandi undir leiðsögn Móses.

Efni

Moses041
Móses með steintöflurnar, málverk eftir José de Ribera, málað 1638

Í upphafi bókarinnar er sagt frá fæðingu Móses, sem fæddist þegar faraóinn í Egyptalandi hafði skipað að öll sveinbörn skyldu drepin. Samkvæmt Biblíunni dregur Móses nafn sitt af því að hann var „dreginn úr vatni“ af dóttur faraósins. Nútíma fræðimenn telja líklegra að nafnið sé dregið af egypsku orði. Rótin er hin sama og endingin á sérnafninu Ramses, sem merkir fæddur af sólguðinum Ra. Þannig þýðir Móses „fæddur“.

Drottinn skipar Móses að leiða Ísraelsmenn frá Egyptalandi en faraóinn heftir för þeirra. Drottinn refsar Egyptum með tíu plágum. Síðasta plágan dugði til að sannfæra faraóinn en þá var sérhver frumburður Egypta drepinn. Drottinn bað Ísraelsmenn að merkja híbýli sín svo að eyðandinn kæmi ekki þangað. Páskahefð gyðinga fagnar því að eyðandinn gekk fram hjá híbýlum Ísraelsmanna.

Á leiðinni til Kanaan-svæðis klauf Móses Rauðahafið. Nútímatúlkun fræðimanna er sú að hér sé ekki átt það sem við þekkjum sem Rauðhafið í dag en ekki er vitað fyrir víst hvaða haf eða vatn er um að ræða. Drottinn birtist Móse á Sínaífjalli og kynnir honum nýjan sáttmála sinn við Ísraelsmenn. Sér í lagi segir hann í löngu máli frá því hvernig skal útbúa tjaldbúðir Drottins. Þegar Móse kemur niður af fjallinu með steintöflur meitlaðar af Drottni sér hann fólkið tilbiðja gullkálf. Hann skipar hópi Levíta að drepa villutrúarfólkið og þrjú þúsund falla. Þetta atvik er eitt af mörgum í mósebókum þar sem Ísraelsmenn breyta gegn vilja guðs. Flest atvikin eru talin upp í 4. mósebók.

Mósesáttmálinn

Mósesáttmálinn er þriðji sáttmálinn sem kemur fram í Mósebókum, eftir Nóasáttmálann og Feðraveldissáttmálann sem Drottinn gerði við Abraham. Mósesáttmálinn er frábrugðin hinum fyrri þar sem hann er tvíhliða. Hann leggur þungar skyldur á Ísraelsmenn með fjölmörgum reglum sem taldar eru upp í 3., 4. og 5. Mósebók. Á móti heitir Drottinn því að vernda Ísraelsmenn. Mikilvæg kenning um Mósesáttmálann var sett fram af Jon Levenson. Hann bendir á að Mósesáttmálinn er að formi til og efni svipaður samtíma sáttmálum sem sigurvegarar, sérstaklega Hittítar, gerðu við sigraðar þjóðir.

Hyksos

Vinsæl söguskoðun er að lýsingin á komu Ísraelsmanna til Egyptalands og brottför þeirra þaðan tengist veru Hyksos þjóðarinnar í Egyptalandi. Hyksos var af Semítískum uppruna eins og Ísraelsmenn. Þeir réðust á Egyptaland 1720 f. Kr. og settust þar að. Síðar var þeim bolað frá. Það er hugsanlegt að faraóinn sem var Ísraelsmönnum vinveittur í 2. Mósebók hafi verið Hyksos og að lýsingin af brottför Ísraelsmanna sé í raun lýsing á brotthvarfi Hyksos þjóðarinnar frá Egyptalandi.

Biblían

Biblían er safn trúarrita, sem sum eru meira en 2000 ára gömul en önnur nokkru yngri. Orðið Biblía er grískt og þýðir „bækur“ (sbr. alþjóðlega orðið bibliotek).

Biblían skiptist í tvo aðalhluta, Gamla testamentið og Nýja testamentið og fjallar fyrrnefndi hlutinn um sköpun jarðar, upphaf mannfólksins, syndaflóðið, lögmálið, frelsun Ísraels og fólks hans frá Egyptalandi, afhendingu boðorðanna 10 og sýnir og vitranir spámannanna, svo eitthvað sé nefnt. Seinni hlutinn (Nýja testamentið) fjallar um fæðingu Jesú, lærisveina hans, krossfestingu hans og upprisu. Því næst fylgja ýmis bréf sem send voru af lærisveinunum og að lokum spádómsbók um endalok tilvistar okkar á jörðinni. Sumar útgáfur af biblíunni, m.a. biblía 21. aldar, skjóta svokölluðum Apókrýfuritum gamla testamentisins inn milli testamentanna.

Nokkur trúarbrögð álíta rit biblíunnar heilög og byggja trú sína meira eða minna á þeim. Meðal þessara trúarbragða eru gyðingdómur, kristni (Sem skiptist í margar kirkjudeildir, svo sem kaþólska trú, rétttrúnað og mótmælendatrú), mormónatrú, og vottar Jehóva. Þessi trúarbrögð eru þó ekki alveg sammála um hvaða rit eigi heima í biblíunni.

Biblían er víða talin vera mest selda bók allra tíma, hefur áætlaða ársveltu um 100 milljónir eintaka, og hefur haft mikil áhrif á bókmenntir og sögu.

Boðorðin tíu

Boðorðin tíu er listi yfir trúarlegar og siðferðilegar reglur sem samkvæmt Biblíu kristinna manna og Torah Gyðinga voru opinberuð af Guði fyrir Móses á fjallinu Sínaí og Móses hjó á tvær steintöflur. Þau eru grundvallaratriði í kristinni trú og gyðingdómi. Boðorðin eru sett upp sem samningur Guðs og þjóðar hans og eiga sér hliðstæðu í fornsögulegum samningum og lagabálkum stórkonunga við undirkonunga.

Á hebresku heita boðorðin tíu עשרת הדברים (umritun Aseret ha-Dvarîm). Bein þýðing úr hebresku felur ekki í sér forskrift eða skipun eins og orðið „boðorð“, heldur merkir „orðin tíu“ eða „yrðingarnar tíu“.

Boðorðin birtast í 2. Mósebók 20:2-17 og 5. Mósebók 5.6-21. Í 2. Mósebók brýtur Móses steintöflurnar með boðorðunum þegar hann kemur niður af Sínaí fjalli og sér Ísraelsmenn tilbiðja gullkálf. Síðar í 2. Mósebók ritar Drottinn tíu boðorð á nýjar töflur. Aðeins tvö af boðorðunum á nýju töflunum fjalla um svipað efni og hin fyrri. Hin boðorðin átta fjalla um ýmsa helgidaga, boð um að tileinka Drottni frumburðinn og svo framvegis.

Athygli vekur að flestar kirkjur sem nota líkneski við tilbeiðslu taka út annað boðorðið um bann við líkneskjum og skipta síðan tíunda boðorðinu í tvennt til þess að boðorðin líti enn út fyrir að vera alls 10.

Páskahald gyðinga

Páskahátíð gyðinga sem er nefnd Pesaḥ á hebresku פֶּסַח( [pèsaḥ]), einnig skrifað Pesach, er ein af þremur meginhátíðum Gyðinga og er haldið upp á hana frá þeim 15. í mánuðinum nisán. Eigi má snerta venjulegan kornmat eða sýrðar brauðvörur meðan á hátíðinni stendur.

Stjórn

Stjórn er fornnorræn þýðing á fyrsta hluta Biblíunnar eða Gamla testamentisins, frá Fyrstu Mósebók til loka Síðari konungabókar. Nafnið Stjórn hefur líklega ekki fylgt ritsafninu frá upphafi, heldur mun það vera frá 16. eða 17. öld. Merking orðsins er óviss, gæti þýtt leiðarvísir, eða stjórn guðs á veröldinni, eða á Gyðingum. Einnig gæti orðið verið þýðing á Liber regum (sem er latína og merkir: Konungabók).

Tanakh

Tanakh [תנ״ך] er algengasta nafn Gyðinga á því sem einnig er nefnt Hebreska biblían. Nafnið Tanakh er er samsetning af skammstöfunum á upphafsstöfum hebresku nafna megintextanna, en þeir eru:

Torah (hebreska: תורה) þýðir "fræðsla," "kenning," eða "lögmál". Einnig nefnt Tjumash (hebreska: חומש) Mósebækurnar eða Fimmbókaritið

Nevi'im (hebreska: נביאים) þýðir "Spámannaritin"

Ketuvim (hebreska: כתובים) þýðir "Ritin" sem eru söguritin, spekiritin og sálmarnir.

Torah

Torah (תורה) er hebreska og þýðir "fræðsla," "kenning," eða "lögmál." Það er mikilvægasta rit í Gyðingdómi. Með hugtakinu Torah er oftast átt við fyrsta hluta Tanakh, það er fyrstu fimm bækur hebresku biblíunnar. Hugtakið er stundum notað sem almennt hugtak yfir öll helgirit Gyðingdóms og einnig munlega hefð. Kristnir guðfræðingar íslenska Torah venjulega sem "lögmálið".

Nöfn fyrstu fimm bókana á hebresku eru svo:

בראשית, Bereishit: "Í upphafi skapaði...", 1. Mósebók

שמות, Shemot: "Þessi eru nöfn...", 2. Mósebók

ויקרא, Vayikra: "Drottinn kallaði...", 3. Mósebók

במדבר, Bamidbar: "Drottinn talaði...", 4. Mósebók

(דברים, Devarim: "Þessi eru þau orð..", 5. MósebókTorah er einnig þekkt sem Mósebækurnar eða fimmbókaritið sem upphaflega var átt við þær hirslur sem geymdu bókarollurnar fimm.

Fyrir trúaða Gyðinga er Torah venjulega álitin bókstafleg orð Guðs eins og hann opinberaði þau fyrir Móses.

Á öðrum tungumálum

This page is based on a Wikipedia article written by authors (here).
Text is available under the CC BY-SA 3.0 license; additional terms may apply.
Images, videos and audio are available under their respective licenses.